Margra mánaða undirbúningi að ljúka
Nú sér fyrir endann á margra mánaða undirbúningi og um leið rætist margra ára draumur ótal margra um sérstakt kvikmyndahús – bíótek – sem leggur áherslu á fjölbreytni í framboði kvikmynda og býður uppá sérstaka stemmningu; samfélag þeirra sem vilja upplifa andrúmsloft kvikmyndanna í sem breiðustum skilningi.
Þreifingar í þá veru að fá húsnæði Regnbogans við Hverfisgötu undir rekstur bíóteks hófust s.l. sumar, þegar spurðist út að Sena, rekstraraðili Regnbogans, væri að hugsa sér til hreyfings úr húsinu. Veturinn fór í umræður manna á milli, en á vormánuðum komst skriður á málið, eftir að Sena lýsti því yfir opinberlega að þeir hygðust hætta rekstri í sumarbyrjun.
Segja má að frá maímánuði hafi verið unnið nær sleitulaust í málinu af sérstökum undirbúningshóp þeirra aðila sem nú hafa stofnað sjálfseignarstofnunina Heimili kvikmyndanna ses. Að mörgu hefur þurft að hyggja og má þar nefna rekstrarform, fjármögnun, kostnaðaráætlanir, umsóknir, dagskrármál, ráðningu framkvæmdastjóra og annars starfsliðs, tækjamál, hönnun og smíði breytinga, vef- og kynningarmál og margt fleira.
Lokasprettur átaksins hefur staðið yfir frá byrjun ágúst undir styrkri stjórn Lovísu Óladóttur framkvæmdastjóra. Enn er allt á fullu, en stefnt er að opnun Bíós Paradísar í septembermánuði. Nákvæm dagsetning verður kynnt á allra næstu dögum.