Sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna ses stofnsett
Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna ses, sem mun reka Bíó Paradís, eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra), Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Félag kvikmyndaunnenda. Stjórn stofnunarinnar skipa Ari Kristinsson (formaður), Hrafnhildur Gunnarsdóttir og Ragnar Bragason.
Lovísa Óladóttir hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri Heimilis kvikmyndanna. Lovísa er kvikmyndafræðingur að mennt og hefur einnig numið rekstrar- og viðskiptafræði. Hún starfaði um árabil sem dagskrárstjóri Stöðvar 2, dagskrárstjóri Sýnar og dagskrárfulltrúi. Þá vann hún að markaðsmálum Þjóðleikhússins um skeið og byggði síðan upp fatahönnunarfyrirtækið ELM ehf. ásamt samstarfsfólki. Undanfarin ár hefur hún starfað sjálfstætt fyrir ýmsa aðila að verkefnastjórnun, markaðs- og kynningarmálum.
Ásgrímur Sverrisson verður dagskrárstjóri, auk þess að sjá um kynningarmál. Ásgrímur hefur um langt skeið stundað kvikmynda- og dagskrárgerð ásamt því að fjalla um kvikmyndir með margvíslegum hætti í sjónvarpi, útvarpi, dagblöðum, tímaritum og vefmiðlum.
Sérstakt dagskrárráð, sem skipað verður fulltrúum eigenda og helstu samstarfsaðila, verður vettvangur umræðu um dagskrá og aðra starfsemi hússins.
Heimili kvikmyndanna ses verður fyrst um sinn til húsa hjá Kvikmyndamiðstöð Íslands.
Stuðningur Reykjavíkurborgar
Reykjavíkurborg samþykkti nýverið að styðja þetta verkefni um tólf milljónir króna. Verður fénu varið til að fjármagna ýmsar breytingar sem gerðar verða á húsnæðinu og til að ýta rekstrinum úr vör.