Gullmolar frönsku nýbylgjunnar!
Okkur er það sérstakur heiður að hafa á opnunardagskránni valdar myndir úr hinni frægu frönsku nýbylgju sjötta og sjöunda áratugsins síðasta. Bergmálið af þeim kvikmyndasögulega miklahvelli hljómar enn; í kvikmyndum samtímans, í hverskyns myndmáli sem við meðtökum, í viðmiðum sem við notum.
Á þessu tímabili, sem með góðum vilja má teygja allt aftur til upphafs sjötta áratugsins og fram til miðbiks þess áttunda, er kvikmyndin að taka út þroska sinn sem listgrein. Þetta er umbreytingaskeið, þar sem viðhorf til miðilsins eru í mikilli gerjun og margt hæfileikafólk nær að vinna úr því sem á undan er gengið, koma fram með andsvör og þarafleiðandi þróun, breytingar.
Við sýnum myndirnar sem hleyptu frönsku nýbylgjunni af stað; 400 högg (Les quatre cents coups, 1959) eftir Francois Truffaut og Andköf (A bout de souffle, 1960) eftir Jean-Luc Godard, en einnig tvær myndir kollega þeirra frá svipuðum tíma; Cleo frá 5 til 7 (Cléo de 5 à 7, 1962) eftir Agnes Varda og Kátu stúlkurnar (Les bonnes femmes, 1960) eftir Claude Chabrol, sem lést á dögunum. Dagskráin Gullmolar frönsku nýbylgjunnar er helguð minningu hans.
KÁTU STÚLKURNAR (Les bonnes femmes)
- TEGUND OG ÁR: Leikin mynd, 1960
- LENGD: 100 mín.
- LAND: Frakkland
- LEIKSTJÓRI: Claude Chabrol
- AÐALHLUTVERK: Bernadette Lafont, Clotilde Joano, Stéphane Audran, Lucile Saint-Simon
EFNI: Gerist á þremur dögum og lýsir hringekju daglegs lífs fjögurra ungra Parísarvinkvenna sem eiga fullt í fangi með lífsbaráttuna. Þær fara útá lífið, eiga síðan leiðinda dag í vinnunni en fara aftur út að skemmta sér um kvöldið. Þar gerast óvæntir atburðir og þegar dagar hefur allt breyst.
UMSÖGN: Sumir kalla þessa mynd áleitnustu og bestu mynd spennumeistarans Chabrol. Á pappírnum kann hún að virðast saga um venjulegar stúlkur sem lifa venjulegu lífi en Chabrol, sá mikli gegnumlýsari borgaralegra gilda, hefur annað í huga enda oftast stutt í ógnina undir yfirborði mynda hans.
- DAGSKRÁ: Gullmolar frönsku nýbylgjunnar
- SÝND: 18.-22. september
CLEO FRÁ 5 TIL 7 (Cléo de 5 à 7)
- TEGUND OG ÁR: Leikin mynd, 1962
- LENGD: 89 mín.
- LAND: Frakkland
- LEIKSTJÓRI: Agnes Varda
- AÐALHLUTVERK: Corinne Marchand, Antoine Bourseiller, Dominique Davray
EFNI: Myndin gerist nokkurnveginn á rauntíma og segir af söngkonunni Cleo, sem flækist um París meðan hún bíður niðurstöðu læknisrannsóknar.
UMSÖGN: Þetta meistaraverk frönsku nýbylgjunnar er fyrsta kvikmynd Agnès Varda í fullri lengd en hún var í raun eini kvenleikstjóri þessa tímabils. Myndin sló í gegn þegar hún var frumsýnd en höfðar ekki síður sterkt til samtímans í því hvernig hún tekst á við sjálfsmynd kvenna, gegnum það hvernig þær sjá heiminn og hvernig heimurinn sér þær. Varda, sem hefur meiri áhuga á andrúmslofti en línulegri frásögn, bregður upp sterkri svipmynd af konu sem þróast frá bernskri grunnhyggni og hjátrú til manneskju sem er fær um að finna til, tjá angist sína og að lokum samlíðan. Um leið spilar hún með áhuga flestra okkar á fallegum konum og spyr um afleiðingar þess fyrir okkur – og þær.
- DAGSKRÁ: Gullmolar frönsku nýbylgjunnar
- SÝND: 18.-22. september
400 HÖGG (Les quatre cents coups)
- TEGUND OG ÁR: Leikin mynd, 1959
- LENGD: 99 mín.
- LAND: Frakkland
- LEIKSTJÓRI: Francois Truffaut
- AÐALHLUTVERK: Jean-Pierre Léaud, Claire Maurier, Albert Rémy
EFNI: Myndin er byggð á æskuminningum Truffaut. Hliðarsjálf hans, Antoine Doinel (Jean-Pierre Léaud, sem síðar lék þessa sömu persónu í nokkrum mynda Truffaut), er ráðvilltur ungur drengur sem rekst illa á, hvort sem er á heimili sínu eða í skólanum. Hann leiðist útí smáglæpi og móðir hans og stjúpi senda hann á upptökuheimili.
UMSÖGN: 400 högg var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes 4. maí 1959 og má því á vissan hátt kenna daginn við upphaf frönsku nýbylgjunnar. Frá þessum degi er Truffaut leiðandi afl í hinni nýju frönsku bylgju sem og evrópskri kvikmyndagerð. Mánuði síðar er myndin frumsýnd í kvikmyndahúsum og fær gríðarlega aðsókn. Eitthvað nýtt er komið fram. Truffaut er því einn af helstu merkisberum hinar persónulegu tjáningar í kvikmyndum. En 400 högg er ekki aðeins sjálfsævisögulegt verk, heldur einnig yfirlýsing um kvikmyndir framtíðarinnar; myndir sem ekki lúta einhverskonar sálfræðilegu raunsæi, taka myndræna tjáningu fram yfir vel pússuð samtöl og vandaðar leikmyndir, myndir sem gerast í götunni heima hjá þér og forðast íburðarmiklar sviðsetningar, myndir sem taka venjulegt fólk fram yfir kvikmyndastjörnur. Í stuttu máli; myndir sem ganga út frá því að kvikmyndahöfundurinn skapi með myndavélinni líkt og rithöfundurinn skapar með pennanum (eða tölvunni!).
- DAGSKRÁ: Gullmolar frönsku nýbylgjunnar
- SÝND: 18.-22. september
ANDKÖF (A bout de souffle)
- TEGUND OG ÁR: Leikin mynd, 1960
- LENGD: 90 mín.
- LAND: Frakkland
- LEIKSTJÓRI: Jean-Luc Godard
- AÐALHLUTVERK: Jean-Paul Belmondo, Jean Seberg
EFNI: Smáglæponinn Michel stelur bíl og drepur síðan lögguna sem eltir hann. Meðan laganna verðir leita hann uppi ber hann víurnar í fyrrum kærustu, Patriciu, sem er Ameríkani og er að læra blaðamennsku við Svartaskóla. Hann vill að þau stingi af til Ítalíu og hyggst fjármagna ferðina með því að innheimta gamla skuld. Michel lætur sér fátt um finnast þó að andlit hans sé á forsíðum blaðanna, hann elskar amerískar kvikmyndir og líka sætu amerísku stelpuna.
UMSÖGN: A.O. Scott, gagnrýnandi New York Times, spyr í nýlegum pistli hvort það sé mögulegt nú, 50 árum síðar, að svo mikið sem reyna að ímynda sér hvernig það var að sjá Andköf í fyrsta sinn. Þessi fyrsta leikna mynd Godard varð strax að einn af helstu táknmyndum nútímalista, boðberi breytinga og sögulegra vatnaskila, ásamt málverkum, bókum og tónlist sem hafa haldið hinu róttæka orðspori sínu löngu eftir að hafa hlotið viðurkenningu sem meistaraverk. “Slíkt tímaferðalag er hluti af því sem er svo heillandi við kvikmyndir og Andköf alveg sérstaklega”, segir Scott, “vegna þess að hún grípur svo áreynslulaust takt síns tíma og staðar, þurrkar út fjarlægðina milli þá og nú.”
- DAGSKRÁ: Gullmolar frönsku nýbylgjunnar
- SÝND: 18.-22. september