ÞÝSKIR DAGAR: Líf annarra, Bless Lenin, Lukka Emmu og Í júlí
Þessar myndir eru sýndar í samvinnu við Goethe Institut og Þýsk-íslenska verslunarráðið sem stóð fyrir Þýskum dögum helgina 1.-3. október (þjóðhátíðardagur Þýskalands er 3. október).
Við sýnum fjórar nýlegar þýskar myndir sem vakið hafa mikla athygli síðasta áratuginn, góð dæmi um þær frábæru myndir sem komið hafa frá Þýskalandi um nokkurt skeið.
LÍF ANNARRA
Das Leben der Anderen (The Lives of Others)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2006
- Lengd: 132 mín.
- Land: Þýskaland
- Leikstjóri: Florian Henckel von Donnersmarck
- Aðalhlutverk: Martina Gedeck, Sebastian Koch, Ulrich Mühe
Efni: Snemma á 8. áratugnum í Austur-Þýskalandi njóta leikskáldið Georg Dreyman og sambýliskona hans, leikkonan Christa-Maria Sieland, mikillar hylli í landinu, en á laun eru þau ekki alltaf sammála stefnu kommúnistaflokksins sem öllu ræður þar í landi. Dag einn fær menningarmálaráðherrann áhuga á Christu og er þá leyniþjónustustarfsmanninum Wiesler falið að hefja eftirlit með parinu. Í fyrstu lítur Wiesler á þetta sem venjulegt verk en það líður ekki á löngu áður en hann þarf að gera upp við sig hvar hollusta sín liggur.
Umsögn: Líf annarra er mögnuð kvikmynd sem hefur farið sigurför um heiminn. Auk þess að hljóta Óskarsverðlaunin sem besta kvikmyndin á erlendu tungumáli árið 2007 hefur hún hreppt 33 önnur verðlaun á kvikmyndahátíðum um allan heim og verið tilnefnd til tíu annarra.
- DAGSKRÁ: Þýskir dagar
- SÝND: 4. og 6. október
BLESS LENIN
Goodbye Lenin
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2003
- Lengd: 121 mín.
- Land: Þýskaland
- Leikstjóri: Wolfgang Becker
- Aðalhlutverk: Daniel Brühl, Chulpan Khamatova, Maria Simon, Florian Lukas, Alexander Beyer, Michael Gwisdek, Armin Dillenberger
Efni: Október 1989 var ekki góður tími til að falla í dá ef þú bjóst í Austur-Þýskalandi, en það er nákvæmlega það sem kemur fyrir móður Alex, athafnakonu og hugsjónamanneskju sem helgar líf sitt baráttunni fyrir betra lífi í hinu sósíalíska Þýskalandi. Alex líst ekki á blikuna þegar hún vaknar skyndilega til lífsins átta mánuðum seinna. Hjartað í henni er svo veikt að hvaða áfall sem er gæti orðið henni að bana. Og hvað gæti verið henni meira áfall en fall Berlínarmúrsins og sigur kapítalismans í ástkæra landinu hennar? Til að bjarga móður sinni breytir Alex íbúð fjölskyldunnar þannig að hún virðist enn tilheyra þeim tíma er veggurinn stóð og móðir hans er göbbuð til að trúa því að ekkert hafi breyst meðan hún svaf. Alex á þó sífellt erfiðara með að halda sannleikanum frá henni, því með hverjum deginum hressist hún; þá vill hún horfa á sjónvarpið, hlusta á fréttir og einn daginn fer hún m.a.s. fram úr rúminu til að fá sér göngutúr um hverfið…
Umsögn: Goodbye Lenin er bráðfyndin og hjartnæm kvikmynd sem hefur farið ótrúlega sigurgöngu um allan heim. Hún hefur sópað til sín verðlaunum um allan heim og er ein aðsóknarmesta evrópska kvikmynd allra tíma. Í Bandaríkjunum gekk hún mjög vel og hefur slegið aðsóknarmet í Ástralíu, Austurríki, Mexíkó, Spáni og Englandi, auk þess að slá öll möguleg aðsóknarmet svo um munar, í heimalandi sínu. Hér á Íslandi fékk hún rífandi aðsókn og mikið lof gagnrýnenda.
- DAGSKRÁ: Þýskir dagar
- SÝND: 4. og 6. október
LUKKA EMMU
Emmas Gluck (Emma’s Bliss)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2006
- Lengd: 101 mín.
- Land: Þýskaland
- Leikstjóri: Sven Taddicken
- Aðalhlutverk: Joerdis Triebel, Jürgen Vogel, Hinnerck Schonemann, Nina Petri, Martin Feifel, Karin Neuhauser
Efni: Eftir að Max fær þær hræðilegu fréttir að hann sé að deyja úr krabbameini, ákveður hann að flýja til fallegasta staðar í heiminum, Mexíkó. En þegar hann fyrir tilviljun endar á svínabúi Emmu áttar hann sig á því að sönn hamingja leynist rétt handan við hornið.
Umsögn: Þessi rómantíska tragikómedía hefur unnið til margra verðlauna og þykir afar áhorfendavæn, ekki síst fyrir sök aðalleikaranna.
- DAGSKRÁ: Þýskir dagar
- SÝND: 5. og 7. október
Í júlí
Im Juli (In July)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2000
- Lengd: 99 mín.
- Land: Þýskaland
- Leikstjóri: Fatih Akin
- Aðalhlutverk: Moritz Bleibtreu, Christiane Paul
Efni: Rómantísk gamanmynd sem segir frá Daniel, feimnum og barnalegum efnafræðikennara, sem reynir að komast frá Hamburg til Istanbúl á sjö dögum til þess að hitta Melek, konu sem hann er orðinn ástfanginn af. Með honum í ferðinni er Juli, ung og lífsglöð kona, sem spáir því að Daniel muni innan skamms finna hina einu sönnu ást. Á leiðinni austur uppgötvar Daniel sjálfan sig á nýjan leik og lærir að berjast fyrir raunverulegri hamingju.
Umsögn: Þetta er fyrsta kvikmynd eins helsta núverandi leikstjóra Þjóðverja, Fatih Akin (Eldhús sálarinnar), fersk rómantísk kómedía og full af þeirri orku og fjöri sem einkenna myndir hans.
- DAGSKRÁ: Þýskir dagar
- SÝND: 5. og 7. október