Áfram stelpur! (Made in Dagenham)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2010
- Lengd: 113 mín.
- Land: Bretland
- Leikstjóri: Nigel Cole
- Aðalhlutverk: Sally Hawkins, Bob Hoskins, Geraldine James, Matt King, Richard Schiff, Rupert Graves, Daniel Mays, Jaime Winstone, Miranda Richardson, Rosamund Pike
EFNI: Þetta gamandrama fjallar um hið sögufræga verkfall í Dagenham (þar sem Ford bílaverksmiðjurnar eru) árið 1968, þegar kvenkyns starfsmenn saumaverksmiðju gengu út til þess að mótmæla kynbundnu launamisrétti og almennri lítilsvirðingu. Verkfallið leiddi að lokum til lagasetningar árið 1970 þar sem kveðið var á um launajafnrétti kynjanna.
Konurnar hafa unnið langa og erfiða daga við afar snautleg skilyrði, auk þess að sjá um heimilin, matargerð, barnauppeldi og annað. Þær missa loks þolinmæðina þegar þær eru endurskilgreindar sem “ólærðar” og hefja baráttu fyrir bættum kjörum með húmor, almenna skynsemi og hugrekki að vopni. Þær mæta mikilli andstöðu yfirboðara sinna, samfélagsins og jafnvel ríkisstjórnarinnar sjálfrar, en undir stjórn hinnar skapríku Ritu (Sally Hawkins) berjast þær ótrauðar gegn ofureflinu.
UMSÖGN: Myndin var frumsýnd í Bretlandi þann 1. október s.l. og hefur fengið frábær viðbrögð áhorfenda og gagnrýnenda. Hún hefur setið í efstu sætum aðsóknarlista frá upphafi. Mark Kermode hjá BBC kallar hana “ánægjulega og upplífgandi”, Elliot Noble hjá Sky segir leikarahópinn frábæran og að konurnar muni sannarlega höfða til fjöldans” og Xan Brooks hjá The Guardian lýsir henni sem “kraftmikilli, skemmtilegri og svo hjartahlýrri að þú þarft að vera alger freðýsa til að hafa ekki gaman af henni.”
- DAGSKRÁ: Nýjar myndir
- SÝND FRÁ: 22. október 2010