Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Fimm kvikmyndir tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Fimm kvikmyndir tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs

Oct 27, 2010 1 skoðun

Við sýnum þær fimm kvikmyndir sem tilnefndar voru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2010, í samvinnu við Græna ljósið og Ting – norræna listahátíð. Myndirnar eru: The Good Heart, Submarino, Steam of Life, Upperdog og Metropia.

Myndirnar eru eingöngu sýndar vikuna 29. október til 4. nóvember.

Submarino

  • Tegund og ár: Leikin mynd, 2010
  • Lengd: 110 mín.
  • Land: Danmörk
  • Leikstjóri: Thomas Vinterberg
  • Aðalhlutverk: Jakob Cedergren, Peter Plaugborg, Patricia Schumann, Morten Rose

Efni: Submarino er saga tveggja aðskildra drengja, sem bera merki dapurlegrar æsku. Þeir voru aðskildir á unga aldri þegar sorglegur atburður sundraði fjölskyldunni. Þegar myndin gerist er líf Nick gegnsýrt  af áfengisneyslu og ofbeldi, en bróðir hans er einstæður faðir sem reynist erfitt að veita syni sínum betra líf af því að hann er fíkill. Leiðir þeirra skarast og það kemur til óumflýjanlegs uppgjörs.

Umsögn: Í Submarino snýr Thomas Vinterberg aftur til þeirrar einföldu kvikmyndagerðar sem einkenndi fyrstu verk hans eins og  Veisluna (Festen) sem hann varð frægur fyrir. Leikstjórinn var heillaður af því sterka raunsæi sem kemur fram í skáldsögu Jonas T. Bengtsson um sektarkennd foreldra og sökkti sér í reynsluheim aðalpersónanna tveggja, Nick (Jakob Cedergren) sem er félagslega einangraður, og bróður hans (Peter Plaugborg), sem er fíkniefnaneytandi og faðir lítils drengs sem heitir Martin. Til að kynnast miskunnarlausu umhverfi persónanna eins vel og mögulegt var, sökkti leikstjórinn sér niður í heim verkafólks í norðvesturhluta Kaupmannahafnar og til þess að afla sér þekkingar á lífi fíkilsins, föður Martins, leitaði hann til gamals skólafélaga  sem hefur verið heróínfíkill í 20 ár.

Fjölmargir leikarar og starfsmanna við myndina, eins og kvikmyndatökumaðurinn Charlotte Bruus Christensen og Tobias Lindholm handritshöfundur, voru að vinna við kvikmynd í fyrsta sinn og ber hún þess merki í ákafa og orku sem minnti Vinterberg á frumraun sína. “Ég hafði saknað ákafans frá því ég gerði útskriftarmynd mína úr danska kvikmyndaskólanum, fyrir tilkomu Dogma”, sagði hann.

Submarino var frumsýnd í opinberri samkeppni á Berlínarhátíðinni fyrr á þessu ári. Hún hefur verið seld til dreifingar í kvikmyndahús í fjölmörgum löndum, m.a. Frakklandi, Benelux löndunum, Spáni, Ítalíu og Japan. Hún var frumsýnd í Danmörku í mars síðastliðnum og hlaut mjög góðar viðtökur.

Miesten Vuoro (Steam of Life)

  • Tegund og ár: Heimildamynd, 2010
  • Lengd: 84 mín.
  • Land: Finnland
  • Leikstjórar: Joonas Berghäll, Mika Hotakainen

Efni: Í Steam of Life, tala finnskir karlar beint frá hjartanu í gufuhita frá ryðguðum ofnum og hreinsa sig um leið líkamlega og andlega. Í myndinni er ferðast um Finnland og karlar úr öllum stigum þjóðfélagsins stíga fram í fjölmörgum ólíkum gufuböðum, segja hjartnæmar sögur um ást, dauða, fæðingu og vinskap, í hnotskurn; um lífið.

Umsögn: Á tímum mikilla erfiðleika í einkalífi sínu fékk Joonas Berghäll þá hugmynd að kvikmynda finnska karlmenn í gufubaði, sem er mikilvægur hluti af finnskri menningu. Hann fór þá vikulega í eitt af elstu gufuböðum Finnlands í Tampere til þess að hreinsa hugann.  Þar fór hann að fylgjast með samtölum manna. Í þessu nána umhverfi og allsnaktir gátu þeir talað um öll sín hjartans mál og tjáð tilfinningar sínar.

Berghäll og Mika Hotakainen meðframleiðandi hans sáu tækifæri í þessu viðfangsefni til að kveða niður þá ímynd að finnskir menn séu þögulir og tilfinningasnauðir einstaklingar og láta þá þess í stað tala um málefni eins og: ást, dauða, fæðingu, föðurhlutverkið og vináttuna.

Upptökur í gufubaði þar sem bæði leikstjórar og aðstoðarmenn voru naktir hjálpuðu körlunum að opna sig. Upptökutækin þurfti að hita upp í sama hita og gufubaðið til þess að koma í veg fyrir að vatn safnaðist fyrir á myndavélinni.

Kvikmyndin var frumsýnd í Finnlandi  þann 26. mars og hlaut mikið lof áhorfenda og gagnrýnenda. Steam of Life hefur fengið jafn góðar móttökur og lof áhorfenda og dómnefnda á kvikmyndahátíðum um allan heim. Myndin fékk Risto Jarva verðlaunin og verðlaun áhorfenda á Tampere kvikmyndahátíðinni, Interreligious Jury Award á Visions du Reel í Nyon í Sviss, og fyrstu verðlaun á DocAviv Film Festival í Tel Aviv í  Ísrael og Planeta Doc Review Film Festival í Varsjá í Póllandi.

The Good Heart

  • Tegund og ár: Leikin mynd, 2009
  • Lengd: 95 mín.
  • Land: Ísland
  • Leikstjóri: Dagur Kári
  • Aðalhlutverk: Brian Cox, Paul Dano, Isild Le Besco

Efni: Lucas er heimilislaus ungur maður sem býr í pappakassa undir Brooklyn brúnni. Hann er kominn á endastöð í lífinu, en tilraun hans til að svipta sig lífi hefur mistekist. Á spítalanum kynnist Lucas Jacques, geðstirðum bareiganda sem hefur fengið fimm hjartaáföll vegna óheilbrigðs lífernis. Þar sem hann á ekki langt eftir og enga fjölskyldu, tekur bareigandinn Lucas undir sinn verndarvæng með það í hyggju að láta hann reka barinn eftir sinn dag. Allt gengur samkvæmt áætlun þar til drukkin flugfreyja, April, gengur inn á barinn.

Umsögn: Önnur mynd Dags Kára er á ensku með leikurum af ýmsum þjóðernum og er myndin metnaðarfyllsta verk leikstjórans hingað til. Dagur Kári velur að blanda saman tveimur andstæðum stílum: “arthouse” og “sitcom”. “Ég er mjög hrifinn af “sitcom” eða gamanþáttaforminu. Að vera fastur í endalausri lykkju með uppáhalds persónunum þínum í skýrt afmörkuðu söguumhverfi. Ég er einnig hrifinn af arthouse-kvikmyndum og sveigjanlegri uppbyggingu þeirra. Frá fagurfræðilegu sjónarmiði er gamanþáttaröðin (sitcom) oftast í litlum gæðum en arthouse-kvikmyndir taka sig aftur á móti of alvarlega. Markmið mitt var að sjóða saman seið úr því sem mér líkar best í þessum kvikmyndastílum, að blanda saman kímni og ljóðrænu, kómedíu og tragedíu”, segir Dagur Kári.

Myndin var frumsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Torontó 2009. Hún hefur verið sýnd í kvikmyndahúsum á Íslandi, í Frakklandi, Póllandi, Bandaríkjunum og Spáni, og hefur unnið til fjölmargra verðlauna, svo sem Kodak Nordic Vision Award fyrir myndatöku (Rasmus Videbæk) á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Gautaborg 2010.

Upperdog

  • Tegund og ár: Leikin mynd, 2009
  • Lengd: 100 mín.
  • Land: Noregur
  • Leikstjóri: Sara Johnsen
  • Aðalhlutverk: Mads Sjøbård Pettersen, Agnieszka Grochowska, Hermann Sabado, Bang Chau

Efni: Hálfsystkinin Axel og Yanne eru á unga aldri send til Noregs til ættleiðingar. Drengnum er komið fyrir hjá efnaðri fjölskyldu í vesturhluta Ósló og stúlkunni hjá millistéttarfjölskyldu í austurhluta borgarinnar. Andstætt bróður sínum man Yanne eftir ferðinni til Noregs, en hún hefur enga hugmynd um afdrif hans. Allt þetta snýst þó um breytingar eftir að María, pólsk vinkona Yanne fer að vinna sem þjónustustúlka hjá foreldrum Axels. Hún uppgötvar ljósmynd af ungum dreng, sömu myndina og hún sá upp á vegg í íbúð Yanne. Hún tekur að sér það verkefni að sameina systkinin á ný. En áður en hún gerir sér grein fyrir afleiðingunum hefur hún komið af stað aburðarás sem veldur fleirum miklu tilfinningaróti.

Umsögn: Í annarri mynd sinni Upperdog, segir Sara Johnsen margþætta samtímasögu hóps fjögurra ungmenna í Ósló. “Fjögur heillandi, blóðheit, sjálfhverf og ástríðufull ungmenni neyðast til að endurskoða líf sitt og mat sitt á umheiminum”, segir Johnsen. “Þau missa fótana í lífinu, týnast í ringulreið milli sannleika og lyga Í sögunni er alvarlegur undirtónn: hermaður brýtur af sér í Afganistan, ættleiddur drengur saknar systur sinnar. Mig langaði að sýna að alvaran er mikilvæg og falleg og það fyndna er frelsandi og sammannlegt. Upperdog fjallar um að missa ekki sjónar á öðrum, horfa út fyrir sjálfan þig, að sætta sig við fortíðina. En fyrst og fremst fjallar Upperdog um þá frelsun sem felst í ást tveggja einstaklinga.“

Upperdog átti mikilli velgengni að fagna á Norwegian International Film Festival í Haugasundi 2009 og rúmlega 110.000 manns sáu myndina í kvikmyndahúsum í Noregi. Síðan í október í fyrra hefur myndin verið sýnd á  alþjóðlegum kvikmyndahátíðum og fengið mörg verðlaun, eins og Grand Jury Prize á norrænu kvikmyndahátíðinnu í Rouen í Frakklandi árið 2010. Samtök norskra kvikmyndagagnrýnenda kaus Upperdog bestu norsku kvikmynda á árinu 2009.

Metropia

  • Tegund og ár: Leikin mynd, 2009
  • Lengd: 86 mín.
  • Land: Svíþjóð
  • Leikstjóri: Tarik Saleh
  • Talsetning: Vincent Gallo, Juliette Lewis, Udo Kier, Stellan Skarsgård, Alexander Skarsgård, Sofia Helin

Efni: Metropia er framtíðarsaga. Olía er á þrotum og lestarkerfi hafa verið tengd saman í eitt risastórt evrópskt neðanjarðarlestarkerfi.  Í hvert skipti sem Roger frá Stokkhólmi fer niður í lestarkerfið heyrir hann ókunnuga rödd í höfðinu. Hann leitar til hinnar dularfullu Nínu til þess bjarga sér úr þessum óþægilega vef neðanjarðarkerfisins, en því lengra sem þau ferðast, því flæktari verður hann í vafasamt samsæri.

Umsögn: Kvikmyndin sem er fyrir fullorðna er blanda af teiknimynd og leikinni mynd, sú fyrsta sem gerð er í Svíþjóð með nýrri stafrænni tækni. Metropia var gerð af framleiðslufyrirtækinu ATMO  í Stokkhólmi, en fyrirtækið hefur gert fjölmargar teiknimyndir fyrir sænska sjónvarpið. Tarik Saleh,einn af stofnendum fyrirtækisins, vann að verkefninu í rúm sex ár.

Með vísun í sígildar skáldsögur eftir Franz Kafka (Réttarhöldin) og George Orwell (1984), þróaði hann hugmyndina um “Stóra-bróður” þjóðfélag sem stjórnar hugsunum og hegðun fólks, ásamt Martin Hultman listrænum stjórnanda og Fredrik Edin og skrifaði síðan handritið með Stig Larsson og Fredrik Edin. “Metropia fjallar um menningarbyltingu vorra tíma, eftirlit, gluggagægjur og vænisýki. Þetta er ekki einungis kvikmynd heldur hugarástand, að skoða raunveruleikann í gegnum nýja linsu, með nýjum viðmiðum,” segir Saleh.

Metropia var heimsfrumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 2009 og fékk þar Future Film Digital Award. Hún hefur síðan verið sýnd á meira en 45 alþjóðlegum kvikmyndahátíðum. Myndin var frumsýnd í Svíþjóð í október 2009 og hefur verið dreift í Bandaríkjunum, Danmörku og Noregi.

Kvikmyndir

Ein skoðun to “Fimm kvikmyndir tilnefndar til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs”

  1. Dagskrá vikunnar í Bíó Paradís : Vinkill.is says:

    […] Norræn kvikmyndaveisla í eina viku […]

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.