Hrekkjavaka: Halloween og The Evil Dead
Í tilefni Hrekkjavöku sýnum við tvær klassískar hryllingsmyndir um helgina í samvinnu við NEXUS, Halloween (John Carpenter, 1978) á föstudag kl. 20 og The Evil Dead (Sam Raimi, 1981) á laugardag kl. 20.
Stranglega bannaðar innan 16 ára.
Verð 1.000 kr. á hvora mynd, 1.500 ef keyptir eru miðar á báðar. Miðar eingöngu seldir í miðasölu okkar.
Halloween
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1978
- Lengd: 85 mín.
- Land: Bandaríkin
- Leikstjóri: John Carpenter
- Aðalhlutverk: Donald Pleasance, Jamie Lee Curtis, Nancy Kyes
Efni: Michael Myers, sálsjúkur morðingi sem hefur verið lokaður inná hæli síðan í barnæsku, sleppur út og byrjar að slátra fólki meðan læknirinn hans reynir að hafa uppá honum.
Umsögn: Þessi klassíska hryllingsmynd frá áttunda áratugnum er af mörgum talin upphafsverk hinna svokölluðu “slasher” mynda, sem sóttu innblástur sinn til Psycho Hithcocks. Fjölmargar aðrar myndir hafa gengið í spor þessarar en ólíkt þeim flestum er ekki mikið af grófu ofbeldi eða viðbjóði í henni. Árið 2006 var hún valin til sérstakrar varðveislu af Library of Congress en þangað ná aðeins myndir sem taldar eru hafa “menningarlegt, sögulegt eða fagurfræðilegt gildi”. Halloween var fyrsta mynd Jamie Lee Curtis.
Myndin er sýnd af 8mm filmueintaki í eigu Páls Óskars Hjálmtýssonar og kunnum við honum bestu þakkir fyrir lán á eintakinu og tilheyrandi sýningarvél.
- DAGSKRÁ: Hrekkjavaka
- SÝND: 29. október 2010 kl. 20
The Evil Dead
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1981
- Lengd: 85 mín.
- Land: Bandaríkin
- Leikstjóri: Sam Raimi
- Aðalhlutverk: Bruce Campell, Ellen Sandweiss, Betsy Baker, Hal Delrich, Theresa Tilly
Efni: The Evil Dead segir frá fimm háskólanemum sem hyggjast eyða viku í einangruðum kofa í skóglendi í Tennessee. Fríið þeirra snýst hins vegar upp í martröð þegar þeir finna gamla hljóðupptöku sem leysir úr læðingi illa anda.
Umsögn: The Evil Dead var gríðarlega umdeild þegar hún kom fyrst út. Erfiðlega gekk að finna dreifingaraðila fyrir myndina í Bandaríkjunum þar sem myndin þótti allt of ofbeldisfull. Það var ekki fyrr en eftir að evrópskt kvikmyndafyrirtæki kynnti myndina á kvikmyndahátíðinni í Cannes að hún fékkst loks sýnd í kvikmyndahúsum.
Þrátt fyrir að myndin hafi hlotið misjafna dóma þegar hún kom fyrst út hefur hún áunnið sér nokkurs konar költ sess meðal bíónörda og áhugamanna um hrollvekjur. The Evil Dead hefur getið af sér tvær framhaldsmyndir, Evil Dead II og Army of Darkness.
- DAGSKRÁ: Hrekkjavaka
- SÝND: 30. október 2010 kl. 20
[…] Hrekkjavaka helgina 29.-30. okt. […]