Með hangandi hendi
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2010
- Lengd: 90 mín.
- Land: Ísland
- Stjórnandi: Árni Sveinsson
- Framleiðandi : Hrafnhildur Gunnarsdóttir
- Meðframleiðendur: Einar Speight, Eva Þorgeirsdóttir og Þorgeir Ástvaldsson
- Kvikmyndataka: Árni Sveinsson og Bergsteinn Björgúlfsson
- Klipping: Anna Þóra Steinþórsdóttir
EFNI: Myndin fjallar um feril eins ástsælasta söngvara Íslands, Ragga Bjarna, sem hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna í yfir 60 ár og spannar ferill hans nánast alla sögu íslenskrar dægurtónlistar. Um leið og farið er yfir feril hans, er fylgst með undirbúningi hans fyrir stórtónleika í Laugardalshöll til að fagna 75 ára afmæli sínu. Þó árin hafi færst yfir er hann enn ungur í anda enda tekur Raggi lífinu létt og hefur kímnigáfuna í lagi.
UMSÖGN: Leikstjórinn Árni Sveinsson hefur fylgt Ragga eftir síðastliðin tvö ár til að varpa ljósi á manninn á bak við þennan goðsagnakennda og síunga rokkara. Lögin hans Ragga þekkja vel flestir, bæði ungir sem aldnir; Rokk og cha cha cha, Vorkvöld í Reykjavík, Flottur jakki og lagið Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig sem hefur jafnan verið kallað „Þjóðsöngurinn“, svo fáein lög séu nefnd. Það má því með sanni segja að tónlistin hans sameini kynslóðirnar.
Í dag skemmtir hann mjög fjölbreyttum hópi fólks; allt frá eldri borgurum á Hrafnistu til yngstu kynslóðarinnar á Þjóðhátíð í Eyjum – og öllum þar á milli. En Raggi á sér fleiri hliðar en þá hlið sem við sjáum oftast. Hann er fjölskyldumaður og hefur fengist við ýmislegt annað en tónlist; hefur m.a. rekið bæði bílaleigu og sjoppu.
Í myndinni koma fram margir af samstarfsmönnum Ragga í gegnum tíðina; Ómar Ragnarsson, Guðmundur Steingrímsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Þorgeir Ástvaldsson svo einhverjir séu nefndir.
Með hangandi hendi var forsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF í september og fékk frábærar viðtökur, t.a.m. fékk hún 5 stjörnur í dómi Fréttablaðsins þar sem segir m.a.: „Í raun virkar Með hangandi hendi svo vel sem heild að vandséð er hvernig gera hefði mátt betur og ómögulegt annað en að gefa myndinni hæstu einkunn. Glæsilega að verki staðið.“ ( K.G.-Fréttablaðið, 5.okt. 2010).
Myndin verður í almennum sýningum í BíóParadís frá 1. nóvember. Í tengslum við sýningarnar í Bíó Paradís verða eldri borgarar boðnir sérstaklega velkomnir í rjómapönnukökur og ýmsar uppákomur tengdar efni myndarinnar.
- DAGSKRÁ: Nýjar myndir
- SÝND FRÁ: 1. nóvember 2010