Submarino
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2010
- Lengd: 110 mín.
- Land: Danmörk
- Leikstjóri: Thomas Vinterberg
- Aðalhlutverk: Jakob Cedergren, Peter Plaugborg, Patricia Schumann, Morten Rose
Efni: Submarino er saga tveggja aðskildra drengja, sem bera merki dapurlegrar æsku. Þeir voru aðskildir á unga aldri þegar sorglegur atburður sundraði fjölskyldunni. Þegar myndin gerist er líf Nick gegnsýrt af áfengisneyslu og ofbeldi, en bróðir hans er einstæður faðir sem reynist erfitt að veita syni sínum betra líf af því að hann er fíkill. Leiðir þeirra skarast og það kemur til óumflýjanlegs uppgjörs.
Umsögn: Í Submarino snýr Thomas Vinterberg aftur til þeirrar einföldu kvikmyndagerðar sem einkenndi fyrstu verk hans eins og Veisluna (Festen) sem hann varð frægur fyrir. Leikstjórinn var heillaður af því sterka raunsæi sem kemur fram í skáldsögu Jonas T. Bengtsson um sektarkennd foreldra og sökkti sér í reynsluheim aðalpersónanna tveggja, Nick (Jakob Cedergren) sem er félagslega einangraður, og bróður hans (Peter Plaugborg), sem er fíkniefnaneytandi og faðir lítils drengs sem heitir Martin. Til að kynnast miskunnarlausu umhverfi persónanna eins vel og mögulegt var, sökkti leikstjórinn sér niður í heim verkafólks í norðvesturhluta Kaupmannahafnar og til þess að afla sér þekkingar á lífi fíkilsins, föður Martins, leitaði hann til gamals skólafélaga sem hefur verið heróínfíkill í 20 ár.
Fjölmargir leikarar og starfsmanna við myndina, eins og kvikmyndatökumaðurinn Charlotte Bruus Christensen og Tobias Lindholm handritshöfundur, voru að vinna við kvikmynd í fyrsta sinn og ber hún þess merki í ákafa og orku sem minnti Vinterberg á frumraun sína. “Ég hafði saknað ákafans frá því ég gerði útskriftarmynd mína úr danska kvikmyndaskólanum, fyrir tilkomu Dogma”, sagði hann.
Submarino var frumsýnd í opinberri samkeppni á Berlínarhátíðinni fyrr á þessu ári. Hún hefur verið seld til dreifingar í kvikmyndahús í fjölmörgum löndum, m.a. Frakklandi, Benelux löndunum, Spáni, Ítalíu og Japan. Hún var frumsýnd í Danmörku í mars síðastliðnum og hlaut mjög góðar viðtökur.
- DAGSKRÁ: Nýjar myndir.
- SÝND FRÁ: 5. nóvember 2010 í kjölfar sýninga á öllum myndum sem tilnefndar voru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2010.