ÞÖGLAR MYNDIR: Gullöldin og Andalúsíuhundurinn (Bunuel, Dali)
Á öðru þöglamyndakvöldi Bíó Paradísar mun Oddný Sen kvikmyndafræðingur sýna tvær kvikmynda Luis Bunuel sem hann gerði ásamt Salvador Dali, Gullöldina (L’age d’or, 1930) og Andalúsíuhundinn (Un chien andalou, 1929).
Andalúsíuhundurinn (Un chien andalou)
- Tegund og ár: Stuttmynd, 1929
- Lengd: 16 mín.
- Land: Frakkland
- Leikstjóri: Luis Bunuel
- Handrit: Bunuel, Salvador Dali
- Dagskrá: Þöglar myndir með Oddnýju Sen
- Sýnd: 25. nóvember kl. 20:30
EFNI: Þessi súrrealíska stuttmynd hefur engan söguþráð í hefðbundnum skilningi en má frekar líkja við draum.
UMSÖGN: Þetta var fyrri myndin sem þeir Bunuel og Dali gerðu saman. Hún var fyrst sýnd á nokkrum sýningum í París en varð fljótt mjög vinsæl og gekk í átta mánuði samfleytt. Andalúsíuhundurinn ásamt Gullöldinni telst til helstu mynda þögla tímabilsins og sérstaklega súrrealismans, báðar eru með helstu perlum kvikmyndanna.
Gullöldin (L’age d’or)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1930
- Lengd: 60 mín.
- Land: Frakkland
- Leikstjóri: Luis Bunuel
- Handrit: Bunuel, Salvador Dali
- Dagskrá: Þöglar myndir með Oddnýju Sen
- Sýnd: 25. nóvember kl. 20:30
EFNI: Þessi fyrsta “langmynd” Bunuel er í há-súrrealískum anda og því vart um hefðbundinn söguþráð að ræða. Þó má segja að hún gangi útá ástir manns og konu sem fá ekki að eigast vegna þrýstings frá fjölskyldum þeirra, kirkjunni og siðvenjum borgaralegs (bourgeois) samfélags.
UMSÖGN: Gullöldin vakti heiftarleg viðbrögð þegar hún var frumsýnd fyrir nákvæmlega 80 árum, 29. nóvember 1930. Bunuel varð að kynna myndina fyrir franska kvikmyndaeftirlitinu sem draum geðveiks manns til að fá leyfi til að sýna myndina. Þetta var seinni myndin sem hann vann með listamanninum Salvador Dali, sú fyrri, Andalúsíuhundurinn, er einnig sýnd nú.