POWELL OG PRESSBURGER MÁNUÐUR: Á mörkum lífs og dauða (A Matter of Life and Death)
Leikstjórinn Michael Powell og handritshöfundurinn Emeric Pressburger ríktu yfir breskum kvikmyndum á fimmta og sjötta áratug síðustu aldar. Myndir þeirra voru ekki aðeins fáránlega skemmtilegar heldur einnig fullar af undrum og töfrum. Við sýnum fjórar af helstu myndum þeirra; Red Shoes (uppáhaldsmynd Martin Scorsese og fyrirrennari Black Swan), A Matter of Life and Death með David Niven, I Know Where I’m Going með Wendy Hiller og A Canterbury Tale – tilbrigði þeirra félaga við samnefndan sagnabálk Chaucers – nema bara allt öðruvísi!
HVER MYND ER SÝND ÞRISVAR SINNUM UM SITTHVERJA HELGI.
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1946
- Lengd: 104 mín.
- Land: Bretland
- Texti: Nei (á ensku)
- Leikstjóri: Michael Powell
- Handrit: Emeric Pressburger og Michael Powell
- Aðalhlutverk: David Niven, Kim Hunter, Roger Livesay, Marius Goring
- Dagskrá: Powell og Pressburger mánuður
- Sýnd: 4.-6. febrúar 2011
EFNI: Flugmaðurinn Peter Carter (Niven) er á leið heim til Englands eftir sprengjuárás á meginlandinu. Flugvélin brennur og fallhlíf hans er ónýt. Hann nær sambandi við June (Hunter), unga ameríska stúlku sem vinnur fyrir bandaríska flugherinn í Bretlandi. Þau ná saman á (meintum) síðustu andartökum lífs hans. Carter stekkur síðan útúr brennandi vélinni en vaknar á ströndinni. June finnur hann og þau verða ástfangin. Málið vandast þegar engill birtist og tjáir Carter að mistök hafi orðið, gleymst hafi að pikka hann upp og fara með til himna. Carter neitar að sætta sig við þetta og krefst sanngjarnrar málsmeðferðar, enda nú ástfanginn maður og klúðrið ekki af hans völdum. Yfirvöld á himnum fallast á að rétta í máli hans. Spurningin er hvort er mikilvægara, ástin eða dauðinn?
UMSÖGN: Þessi ómótstæðilega kvikmynd er full af frásagnargleði og auðugu ímyndunarafli. Rómantík, frábær húmor og töfrar í hverjum ramma!
Ítarlega grein um myndina má finna hér.