ÞÖGLAR: Bronenosets Potyomkin (Beitiskipið Potemkin)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1925
- Lengd: 75 mín.
- Land: Sovétríkin
- Texti: Enskur (þögul, með millitextum)
- Leikstjóri: Sergei Eisenstein
- Aðalhlutverk: Aleksandr Antonov, Vladimir Barsky og Grigori Aleksandrov
- Dagskrá: Þöglar myndir með Oddnýju Sen
- Sýnd : 24. febrúar 2011
EFNI: Beitiskipið Potemkin er um hina misheppnuðu uppreisn í Odessa árið 1905 og er einmitt gerð til að minnast þess að tuttugu ár voru þá liðin frá þessum dramatíska atburði, sem var á vissan hátt tilhlaup að byltingunni 1917. Hún beinir aðallega sjónum að tilteknum þætti hennar, uppreisn um borð í einu herskipa keisarans. Þetta er ekki saga einstakra persóna, heldur rammpólitísk áróðursmynd um baráttu gegn kúgun og óréttlæti, gerð til að sýna styrk kommúnismans. Fólkið er fyrst og fremst táknmyndir – íkonar, myndmálið flytur skýr og markviss skilaboð, samsetningin er hugsuð til að sannfæra þig um tiltekin viðhorf.
UMSÖGN: Gagnrýnandinn Roger Ebert segir í umsögn sinni að Beitiskipið Potemkin hafi verið nafntoguð svo lengi að það sé næstum ómögulegt að koma að henni með ferskum hætti. Ebert skrifar:
„Hún er einn af helstu bautasteinum kvikmyndasögunnar. Svo oft hefur verið vitnað í atriðið fræga þegar fjöldamorðið er framið á Odessa-tröppunum (t.d. í The Untouchables) að líklega hafa fleiri séð tilvitnanirnar en frumútgáfuna. Myndin hafði forðum slík áhrif að sýningar á henni voru bannaðar í mörgum löndum, þar á meðal í Sovétríkjunum. Stjórnvöld óttuðust að hún fengi fólk til að rísa upp og grípa til aðgerða. Nú um stundir er fremur litið á hana sem tæknilegt afrek og dálítið einfalda myndasögu („cartoon“), en það er kannski vegna þess að hún getur ekki lengur komið að óvörum – líkt og 23. Davíðssálmurinn („Drottinn er minn hirðir“) eða fimmta sinfónía Beethovens er hún orðin svo kunnugleg að við getum kannski ekki metið hana lengur fyrir það sem hún er.“
Sergei Eisenstein (1898-1948) er tvímælalaust fremstur meðal þeirra jafningja sem stóðu í framlínu þess tímabils sem kennt hefur verið við rússnesku gullöldina (1924-1930) í kvikmyndagerð. Ásamt mönnum eins og Dziga Vertov, Vsevolod Pudovkin, Alexander Dovzhenko og Lev Kuleshov gerði hann einstakar kvikmyndir sem ekki aðeins færðu inntak rússnesku byltingarinnar í myndrænt form, heldur lögðu grunninn að myndmálinu sjálfu, inntaki kvikmyndarinnar. Eisenstein – sem upphaflega kom úr leikhúsinu en fannst sá miðill kominn að endimörkum sínum – var umhugað um að kvikmyndin skæri sig frá leikhúsi og legði áherslu á eigin lögmál. Hann og ýmsir ofannefndir félaga hans settu fram flóknar kenningar um aðferðafræði kvikmynda, sem þeir síðan prófuðu í myndum sínum. Ingibjörg Haraldsdóttur, fyrrum kvikmyndagagnrýnandi og Moskvumenntuð í kvikmyndafræðum – vísar til frægrar greinar Eisensteins í bókinni Heimur kvikmyndanna (ritstj. Guðni Elísson, Forlagið 1999). Grein Eisensteins gæti útlagst sem „Samsetning sjónarspils“ uppá íslensku – „Montage of Attractions“ á ensku. Ingibjörg segir frá:
“Franska orðið „montage“ þýðir eiginlega samsetning og er meðal annars notað um klippingu kvikmynda. Hjá Eisenstein hafði „montage“ mjög víða merkingu. Montage er andóf gegn hefðbundinni leikritun (dramatúrgíu). Í stað þátta sem skiptast í senur kemur samsetning – klipping – einstakra atriða eða númera sem oft eru sótt til fjölleikahúss, kabarettsýninga, veggspjalda eða blaðamennsku og eiga að hafa sterk tilfinningaáhrif á áhorfandann, einmitt vegna þess hvernig þau eru samsett. Hugmyndafræðin bakvið kenningar Eisensteins var býsna flókin á stundum, en í grófum dráttum á hún sér tvær meginstoðir: annarsvegar díalektík Hegels (um átök andstæðna) og hinsvegar kenningar Pavlovs um skilyrta svörun við áreiti.”
Ingibjörg veltir því einnig fyrir sér hversvegna Eisenstein og samferðamenn hans hafi lagt slíka áherslu á kenningasmíð.
“Ég ímynda mér að það hafi verið vegna þess að þeir voru nýjir menn í nýjum heimi. Þeir voru að fást við nýja listgrein í þjóðfélagi sem var að fæðast á rústum þess gamla. Þeir urðu því að búa sér til nýjar leikreglur til að fara eftir, þær gömlu voru úreltar og ónýtar. Þeir litu á sig sem myndbrjóta, en jafnframt uppalendur og kennara heillar þjóðar.”
Áhrifasaga þessarar myndar, sem og annarra mynda Eisenstein, er löng og speglast ekki aðeins í síðari tíma myndum á marga vegu. Hennar gætir einnig sterkt í táknmáli auglýsinga og tónlistarmyndbanda nútímans svo eitthvað sé nefnt.
Takturinn í kvikmyndum nú til dags kann að vera öðruvísi og hraðari og Beitiskipið Potemkin er auðvitað barn síns tíma, en það er hollt að hafa í huga að þetta er myndin sem eiginlega óafvitandi skóp táknmál kvikmyndarinnar. (Ásgrímur Sverrisson tók saman).