Jöklar (netleikhús)
Sýningar í Bíó Paradís:
- Fimmtudagur 21. apríl kl. 20
- Laugardagur 23. apríl kl. 20.
Jöklar er netleikhúsverk sem nýtir sér veraldarvefinn sem yrkisefni og leikrými. Verkið sem segir eina sögu í sex birtingarmyndum er leikið á milli landshluta og brýst út í gegnum veraldarvefinn inn í raunveruleg rými á fjórum stöðum á Íslandi og yfir hafið til Danmerkur þa sem fimmta leiksýningin fer fram.
Verkið er leikið af fimm leikurum sem staddir eru á fjórum stöðum á Íslandi og einum í Árósum í Danmörku. Staðirnir á Íslandi eru Reykjavík, Ísafjörður, Hjalteyri og Seyðisfjörður. Á hverjum stað fyrir sig upplifa áhorfendur söguna útfrá þeirri persónu sem stendur frammi fyrir þeim en á netinu bætist við sjötta birtingarmyndin en þar geta áhofendur fylgst með fléttunni eins og hún leggur sig í beinni útsendingu.
Persónurnar/leikararnir hafa samskipti í gegnum veraldarvefinn þar sem samskiptin taka á sig ýmsar myndir frá bréfaskriftum til samskipta í fullri mynd þar sem tölvuskjánum er varpað á stóran flöt í rými hvers og eins.
Ófeigur, 53 ára gamall fyrrum dansari í hjólastól sem lifir lífi sínu að mestu á netinu þykist hafa fundið allsherjar lausn fyrir þá landa sína sem eiga við hvers kyns andlega erfiðleika að stríða sökum ástandsins í þjóðfélaginu. Hann auglýsir meðferð, sem á rætur sínar að rekja til íhugunarkerfis frá Ástralíu en því hefur hann kynnst í gengum sjálfshjálparsíðuna Glacierworld.net. Til hans leita þrjár persónur sem búa sín í hverjum landshlutanum og eiga allar við einhverskonar getuleysi að stríða. Þær eiga það sammerkt að vera félagslega einangraðar og hafa búið til auka sjálf á veraldarvefnum þar sem þær gefa sig út fyrir að vera annað en þær eru.
Verkið er hægt að upplifa hvort heldur með því að sækja leiksýningarnar og/eða fara inn í netleikhúsið www.herbergi408.is og sjá hvernig allar sýningarnar fléttast saman í eina heild á tölvuskjánum.
Þegar sýningum lýkur verður unnið gagnvirkt netleikhúsverk og mun vera aðgengilegt á www.herbergi408.is textað á ensku fyrir alþjóðlega gesti netheima.