19. JÚNÍ: Stiklur eftir stúlkur
Kvennafrídaginn 19. júní standa WIFT samtökin á Íslandi (Women in Film and Television) fyrir bíósýningu með myndum félagskvenna í Bíó Paradís klukkan 20.00. Yfirskrift sýningarinnar er “Sjaldséðar stiklur eftir konur” og verða sýnda fernar nýlegar stuttmyndir og ein heimildarmynd. Umræður verða á eftir.
Í sýningu verða stuttmyndirnar Kría eftir Dögg Mósesdóttur, Heart to Heart eftir Veru Sölvadóttur, Freyja eftir Marsibil Sæmundsdóttur (sem hlaut fyrsta sætið á Stuttmyndadögum í Reykjavík 2011), Clean eftir Ísold Uggadóttur (Edduverðlaunamynd 2011) og heimildarmyndin Íslensk alþýða eftir Þórunni Hafstað sem hlaut Menningarverðlaun DV 2010 í flokki kvikmynda.
Eftir sýninguna verður boðið upp á pallborðsumræður um þáttöku kvenna í kvikmyndagerð. Alþingi samþykkti á dögunum þingsályktun þar sem er að finna sérstakan lið sem kallaður er Konur og kvikmyndagerð (liður E35) þar sem leitast á við að hvetja konur til frekari þátttöku í faginu. Leikstýrurnar Dögg Mósesdóttir (sem jafnframt er nýr formaður WIFT), Vera Sölvadóttir, Marsibil Sæmundardóttir og Þórunn Hafstað munu sitja pallborðsumræðurnar og svara spurningum um verk sín. Þá hafa Árni Ólafur Ásgeirsson leikstjóri og Hrönn Kristinsdóttir framleiðandi einnig staðfest þáttöku sína. Umræðunum verður stýrt af Krístínu Atladóttur menningarhagfræðingi og fyrrverandi framleiðanda. Aðgangseyrir er 850 krónur.