Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Sep 01, 2011 Engin skoðun

Græna ljósið sýnir þær fimm myndir sem tilnefndar eru til Kvikmyndaverðlauna Norðurlandaráðs 2011 í Bíó Paradís frá 7.-11. september. Opnunarmyndin er Svínastían (Svinalangorna) eftir Pernille August, sem jafnframt verður gestur á opnunarkvöldinu.

MYNDIRNAR ERU:

  • Góði sonurinn (Hyva poika), Finnland.
  • Svínastían (Svinalangorna), Svíþjóð.
  • Osló, 31. ágúst (Oslo, 31. August), Noregur.
  • Brim, Ísland.
  • Sannleikurinn um karla (Sandheden om mænd), Danmörk.

GÓÐI SONURINN
87 MÍN. Leikstjóri: Zaida Bergroth

Að lokinni hneykslanlegri frumsýningu, sem ekki gekk vel, flýr leikkonan Leila í sumarhús fjölskyldunnar við vatnið. Þar er hún í friðsælu fríi með sonum sínum Ilmari og Unto, en friðurinn er úti þegar hún býður nokkrum vinum sínum í háværa helgardvöl. Eftir veisluna býður Leila heillandi og óútreiknanlega rithöfundinum Aimo að dvelja áfram í nokkra daga. En 19 ára sonur hennar Ilmari sem er mjög náinn móður sinni, og hagar sér oft eins og lífvörður hennar, er fjandsamlegur gagnvart Aimo.

Eftir velheppnaða frumraun með gerð kvikmyndarinnar Last Cowboy Standing, valdi Zaida Bergroth að leikstýra minni mynd sem byggði á persónuuppbyggingu og reyndu á  leikstjórnahæfni hennar. Eiginmaður hennar Jan Forsström er meðhöfundur að kvikmyndinni og hann klippti einnig myndina. Góði sonurinn fjallar um Ödipusarsamband móður og sonar sem nær hámarki og snýst upp í drama. Aðalhlutverkin leika hin vinsæla finnska leikkona Elina Knihtilä (The House of Branching Love), Samuli Niittymäki (Run Sister Run) og Eero Aho (Tears of April). Myndin var frumsýnd í Finnlandi í mars 2011.

SVÍNASTÍAN
Svíþjóð/94 MÍN. Leikstjóri: Pernilla August

Morgun einn rétt fyrir jól fær Leena (34) símtal frá sjúkrahúsi í bænum sem hún ólst upp í. Henni er sagt að móðir hennar sé að deyja. Fréttirnar verða til þess að unga konan fer til að hitta móður sína í fyrsta sinn frá því hún var fullorðin. Leena hefur barist til að losna við sorgina vegna glataðrar, myrkrar æsku sinnar.  Hún neyðist nú til að takast á við fortíðina til að halda lífinu áfram.

Svínastían er fyrsta myndin sem sænska verðlaunaleikkonan Pernilla August leikstýrir. Myndin er byggð á metsölubókinni „Svinalängorna“ eftir Susanna Alakoski.  Myndin var heimsfrumsýnd á gagnrýnendaviku í Feneyjum 2010 þar sem hún hlaut Audience-Critics Week verðlaunin og UNESCO-Hope verðlaunin. Myndin hefur síðan hlotið mörg önnur eftirsótt verðlaun eins og NDR Best Feature Film í Lübeck and þrenn Guldbagge verðlaun fyrir bestu leikstjórn, bestu leikkonu í aukahlutverki (Outi Mäenpää frá Finnlandi) og bestu klippingu (Åsa Mossberg). Um 650.000 manns sáu myndina í Skandínavíu (nær 400.000 í Svíþjóð) og var hún ein metsölumynda Nordisk Film í Skandínavíu eftir Millenium-þríleikinn.

OSLÓ 31. ÁGÚST
Noregur/105 MÍN. Leikstjóri: Joachim Trier

Anders (34) er að ljúka meðferð, vegna fíkniefnaneyslu, í sveitinni.  Hann fær leyfi til að fara til borgarinnar í starfsviðtal á meðan á meðferðinni stendur. En hann notar tækifærið og dvelur lengur í borginni, ráfar um og hittir fólk sem hann hefur ekki séð lengi. Anders er vel gefinn, myndarlegur og kemur frá góðri fjölskyldu, en tækifæri sem hann lét sér úr greipum renna og fólk sem hann hefur brugðist eru honum ofarlega í huga. Hann er frekar ungur en finnst samt að lífið sé að mörgu leiti búið. Það sem eftir lifir dags og langt fram á nótt, berjast draugar mistaka fortíðarinnar við tækifærin til að elska, tækifæri til að lifa nýju lífi og vonina um að það sé framtíð í morgundeginum.

Oslo, August 31st er lauslega byggð á frönsku skáldsögunni ‘Le feu follet’ eftir  Pierre Drieu La Rochelle. Trier er trúr lýsingu Drieu La Rochelle’s á fíkniefnaneytanda í meðferð sem reynir að takast á við vandamál sín og finna tilgang lífsins. Með það að markmiði að gera kvikmyndina dálítið eins og heimildamynd, notar leikstjórinn Steadicam til að kvikmynda venjulegt fólk í Ósló samhliða leikurum og aukaleikurum, eins og aðalleikarnum Anders Danielsen Lie.
Myndin var frumsýnd á kvikmyndahátíðinni í Cannes í Un Certain Regard. Gagnrýni var jákvæð og myndin hefur verið seld til um tólf landa.  Hún var einnig valin til sýningar á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Tórontó 2011. Myndin verður frumsýnd í Noregi 31. ágúst 2011.

BRIM
Ísland/95 MÍN. Leikstjóri: Árni Ólafur Ásgeirsson

Í Brim er sögð saga ungrar konu sem ráðin er sem háseti á fiskibát, þar sem þéttur hópur karla er fyrir. Hægt og sígandi kemur í ljós að starf hennar var aðeins laust vegna þess að sorglegur atburður hafði átt sér stað og vera hennar um borð fer ekki vel í áhöfnina. Þar sem átök eiga sér stað innan hópsins og einnig barátta við náttúruöflin, verður áhöfnin að standa saman og takast á við örlögin í sjóferð sem tekur óvænta stefnu.

Brim er byggð á leikriti eftir leikhópinn Vesturport sem frumsýnt var árið 2003. Eftir að hafa notið mikilla vinsælda innanlands lagði hópurinn land undir fót og fór til Wiesbaden, Tampere og Moskvu þar sem verkið hlaut New Drama verðlaunin. Árni Ólafur Ásgeirsson og meðhöfundur hans Ottó Geir Borg ásamt Vesturport teyminu eiga heiðurinn af því að koma leikritinu á hvíta tjaldið, en hópurinn myndaði af mikilli nákvæmni daglegt líf á togara. Erfið veðurskilyrði á 33 daga upptökutíma auka enn á raunsæið og afburðaleikur, hljóðmynd, tónlist og myndataka voru verðlaunuð á Edduverðlaununum 2011 þar sem myndin hlaut 6 verðlaun, þ.á.m. fyrir bestu mynd og bestu leikkonu í aðalhlutverki (Nína Dögg Filippusdóttir).

Brim var opnunarmynd Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík 2010 og tók þátt í kvikmyndahátíðinni í Brussel í júní 2011.

SANNLEIKURINN UM KARLA
DANMÖRK/90 MÍN. Leikstjóri: Nikolaj Arcel

Sannleikurinn um karla er ástrík frásögn af kynslóð karla sem hræðist miklar skuldbindingar, en spyr engu að síður stórra spurninga um lífið og ástina.  Mads fer að búa með Marie, yndislegri kærustu sinni, en allt í einu er hann gripinn miklum efa. Er þetta tilgangur lífsins? Hafa allir draumar hans ræst? Hann kastar öllu frá sér, flytur frá kærustunni og kastar sér út í örvæntingarfulla för til að lifa alla stærstu drauma sína, með það að markmiði að finna tilgang lífsins og hina einu sönnu.

Þriðja kvikmynd Nikolaj Arcel í fullri lengd var frumsýnd á alþjóðavettvangi á Norðurlandakeppni alþjóðlegu kvikmyndahátíðarinnar í Gautaborg 2011, eftir að 100.000 manns höfðu séð hana í Danmörku. Sjálfsháðið um hræðslu kvikmyndahandritshöfundar við skuldbindingar var skrifað af Arcel og Rasmus Heisterberg, en þeir hafa lengi unnið saman.  „Við ákváðum að aðalpersónan, Mads (Thure Lindhardt) skyldi vera kvikmyndahandritshöfundur því okkur finnst það fyndið að maður sem starfar við að greina mannlega hegðun skuli hafa svo litla stjórn á eigin þroska,“ segir Arcel. Leikstjórinn sér Sannleikann um karla sem „karlamynd sem fjallar ekki um morð eða frama, eða bjór og fótbolta, heldur um tilfinningar, vonir og drauma, um stóru ákvarðanirnar í lífinu og hinn eilífa efa.

Kvikmyndir
Engin skoðun á “Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.