Bíó Paradís verður heimili RIFF
Bíó Paradís verður heimili Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar í Reykjavík (RIFF) dagana sem hátíðin stendur yfir. Þetta felur í sér að hið einstaka kvikmyndahús við Hverfisgötuna, sem á dögunum fagnaði árs afmæli sínu, verður miðpunktur hátíðarinnar og helsti sýningarstaður.
Helstu myndir RIFF verða sýndar í Bíó Paradís og þar fer einnig fram lunginn af spurt og svarað sýningum auk ýmissa annarra viðburða hátíðarinnar. Jafnframt verður veitingaaðstaða bíósins opin frá kl. 11:30 alla daga meðan RIFF stendur yfir. Verður t.d. hægt að kaupa þar létta rétti auk kaffis og vínveitinga. Handhafar RIFF korta fá sérstakan afslátt og einnig verður sérstök „Gleðistund“ (Happy Hour) frá 17-19 alla daga hátíðarinnar. Ekki er nauðsynlegt að kaupa miða til að nýta sér þjónustu kaffihússins.
Þá munu RIFF og Bíó Paradís í sameiningu bjóða atvinnulausum frítt á allar sýningar hátíðarinnar sem hefjast kl. 14.