ÞÖGLAR: La passion de Jeanne d’Arc (Píslarganga Jóhönnu af Örk)
- Tegund og ár: Þögul kvikmynd, 1927
- Lengd: 82 mín.
- Land: Frakkland
- Leikstjóri: Carl Th. Dreyer
- Aðalhlutverk: Maria Falconetti, Eugene Silvain og André Berley
- Dagskrá: Þöglar myndir
- Sýnd: 26.-28. desember 2011
EFNI: Myndin fjallar um réttarhöldin yfir Jóhönnu af Örk. Réttarhöldin tóku í raun marga mánuði en í myndinni gerast þau á einum degi. Kirkjuyfirvöld reyna hvað best þau geta til að fá Jóhönnu að lýsa því yfir að sýnir hennar hafi ekki komið frá Guði heldur Djöflinum. Að lokum lætur Jóhanna undan þrýstingi kirkjuyfirvalda og skrifar undir fullyrðingar þeirra. Jóhanna áttar sig hins vegar fljótlega á því að hún hafi gert mistök og tekur yfirlýsingu sína til baka. Hún velur því dauðann fremur en að afneita sannfæringu sinni.
UMSÖGN: (Af vef Deus ex cinema, texti eftir Þorkel Ágúst Óttarsson) Píslarsagan af Jóhönnu af Örk er án efa besta myndin sem gerð hefur verið um Jóhönnu af Örk og á meðal bestu kvikmynda allra tíma. Snilldin felst ekki aðeins í góðu handriti og frábærri leikstjórn, heldur einnig í góðum leik, flottri sviðsetningu og undurfagri kvikmyndatöku.
Það er áhugavert að Dreyer vefur píslarsögu Jóhönnu saman við píslarsögu Krists, en hliðstæðurnar eru fjölmargar. Ein af kærunum á hendur Jóhönnu er sú fullyrðing hennar að hún sé dóttir Guðs (rétt eins og Jesús sem sagðist vera sonurinn). Um miðbik myndarinnar hæðast verðir að Jóhönnu og setja á hana kórónu úr strái og segja síðan að hún sé svo sannarlega dóttir Guðs. Þessi sena minnir óneitanlega á það þegar hæðst var að Kristi og þyrnikóróna var sett á höfuð hans. Jóhanna lýsir því yfir við réttinn að henni verði bjargað úr fangelsinu en þegar nálgast aftökuna segir hún að sigurinn sem hún hafi vísað til sé píslavættisdauði sinn. Þessi sena minnir á yfirlýsingar Jesú um að hann muni jafna musterið við jörðu og endurreisa það að þremur dögum liðnum. Samkvæmt Jóhannesarguðspjalli (2:19-22) var þessi sigur dauði hans og upprisa. Og hliðstæðurnar eru fleiri. Rétt áður en Jóhanna er bundinn við staurinn spyr hún Guð: “Mun ég verða með þér í Paradís í kvöld?” en hér vísar hún í orð Krists til ræningjans á krossinum um að hann verði með sér í paradís í dag. Yfir höfði Jóhönnu er síðan fest blað þar sem á er letraður dómur hennar (en yfirlýsing var einnig hengd yfir Jesú Krists). Þegar Jóhanna er síðan brennd er sýndur stór kross í bakgrunninum og þannig er dauði hennar beint tengdur Krossinum. Að lokum má geta þess að eftir að Jóhanna mælir sín síðustu orð “Jesús”, rís almúginn upp og sakar kirkjuyfirvöld um að hafa drepið dýrling. Senan minnir um margt á dánarstund Jesú. Í Lúkasarguðspjalli (23:46-48) segir t.d.: “Þá kallaði Jesús hárri röddu: “Faðir, í þínar hendur fel ég anda minn!” Og er hann hafði þetta mælt gaf hann upp andann. Þegar hundraðshöfðinginn sá það er við bar vegsamaði hann Guð og sagði: “Sannarlega var þessi maður réttlátur.” Og fólkið allt sem komið hafði saman að horfa á sá nú hvað gjörðist og barði sér á brjóst og hvarf frá.” Hliðstæðurnar eru fyrst og fremst þær að bæði ákalla Guð sinn rétt áður en þau gefa upp andann og á sömu stundu átta áhorfendur sig á því að saklaus manneskja var tekin af lífi.
Það er ljóst að Dreyer reynir meðvitað að tengja píslargöngu Jóhönnu við píslarsögu Krists. Þeir sem krossfestu Krist voru á vissan hátt að endurtaka verknaðinn þegar Jóhanna var brennd á báli. Og það má e.t.v. ganga lengra og segja að rétt eins og Kristur hafði Jóhanna frelsunarhlutverk. Ekki aðeins lagði hún upp með að frelsa frönsku þjóðina undan hersetu Englendinga heldur virðist dauði hennar einnig hafa djúpstæð áhrif. Þjáning hennar verður að þjáningu fólksins og öfugt. Með dauða sínum virðist hún ganga inn í hlutskipti almúgans, eins og segir í lok myndarinnar: “Hjarta Jóhönnu er hjarta frönsku þjóðarinnar”, eða m.ö.o. Jóhanna lifir áfram í fólkinu.
Það er áhugavert að skoða hvernig kirkjuyfirvöld eru sýnd í myndinni. Með einni undantekningu eru hinir óttaslegnu karlmenn allir sýndir sem ómenni. Það er t.d. mjög táknrænt að einn dómaranna er sköllóttur að öllu leyti nema því að tveir hárbrúskar standa upp úr höfðinu rétt eins og hann sé hyrndur. Flestir eru bognir í baki og skjóta höfðinu fram eins og hrægammar. Táknrænasta senan er líklega þegar einn munkurinn hyggst ljúga að Jóhönnu til að öðlast traust hennar. Inn í herbergi Jóhönnu myndar skuggi af gluggapósti kross á gólfinu en þegar munkurinn nálgast gengur hann fyrir skuggann með þeim afleiðingum að krossinn hverfur. Þessi fágaða sena segir í raun allt sem segja þarf um kirkjuyfirvöldin í þessari mynd.
Persónulega finnst mér Dreyer takast einstaklega vel að tengja saman píslardauða Jóhönnu og Krists. Jóhanna er tvímælalaust einn best heppnaði kristsgervingur kvikmyndasögunnar. Það er í raun mjög áhugavert að hann skuli hafa komist upp með það að gera kvenmann að kristgervingi á þessum tíma, en ég kannast ekki við að nokkur hafi hreyft mótmælum út af þessu. Ekki veit ég hins vegar hvort ástæðan sé sú að fólk var svona umburðarlynt á þessum tíma eða hvort Dreyer hafi bara farið svona fínt í þessar hliðstæður. Það er þó áhugavert að kristsgervingar virðast sjaldan valda miklu fjaðrafoki. Eina dæmið sem ég man eftir í fljótu bragði er veggspjaldið af The People Vs. Larry Flynt (1996), en þar var Larry Flynt krossfestur á klof kvenmanns. Það væri t.d. áhugavert að sjá hver viðbrögðin yrðu ef kvenmaður væri fenginn til að leika Krist.