Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Þýskir kvikmyndadagar 16.-25. mars

Þýskir kvikmyndadagar 16.-25. mars

Mar 13, 2012 2 skoðanir

Þýskir kvikmyndadagar verða í Bíó Paradís í annað sinn dagana 16.-25. mars, en þeir nutu mikilla vinsælda í fyrra. Þýskir kvikmyndadagar eru í samstarfi við Goethe Institut, Sjónlínuna, Kötlu Travel, Sendiráð Þýskalands á Íslandi og RÚV.

Þema hátíðarinnar að þessu sinni er fjölskyldan í öllum sínum myndum. Opnunarmyndin er Almanya – Velkomin til Þýskalands (Almanya – Willkommen in Deutschland) eftir Yasemin Samdereli, hressileg kómedía um tyrkneska fjölskyldu í Þýskalandi. Hinar myndirnar koma m.a. inná sjúkdóma, hjónalíf, framhjáhöld, uppreisnarþörf og tvikynhneigð svo eitthvað sé nefnt!

Alls verða sýndar sjö nýjar myndir frá þessu forna kvikmyndaveldi, sem á undanförnum árum hefur gengið í gegnum hressilega endurnýjun lífdaganna. Myndirnar eru sýndar með enskum texta.

MYNDIRNAR ERU:

_________________________________________________________________________________
OPNUNARMYND:

Almanya – Velkomin til Þýskalands (Almanya – Willkommen in Deutschland/Almanya – Welcome to Germany)

Gamanmynd, 101 mín. Leikstjóri: Yasemin Samdereli. Aðalhlutverk: Vedat Erincin, Fahri Ögün Yardim, Lilay Huser.

Hüseyin Yilmaz, tyrkneskur „gestaverkamaður“ í Þýskalandi til 45 ára, tilkynnir fjölskyldu sinni að hann hafi fest kaup á húsi í Tyrklandi og vill að fjölskyldan snúi heim og endurnýji húsið. Fjölskyldan er ekki hrifin af hugmyndinni og miklar deilur hefjast. Ekki bætir úr skák þegar í ljós kemur að barnabarn Yilmaz, Canan, er ólétt af völdum ensks kærasta síns sem fjölskyldan hafði ekki hugmynd um! Canan reynir að hugga litla frænda sinn, Cenk, sem var lagður í einelti á fyrsta skóladegi sínum fyrir að vera „útlendingur“. Hún útskýrir fyrir honum afhverju fjölskyldan sé í Þýskalandi þrátt fyrir að vera ekki þýsk. Þau fara í ferðalag aftur í tímann til undursamlegs lands þar sem ljóshærðir risar búa, þar sem farið er með stórar rottur í göngutúra, þar sem vatnið kallast Coca-Cola og fólkið tilbiður litla tréstyttu á krossi og allir tala hrognamál – lands sem kallað er Almanya!


_________________________________________________________________________________

Milli vita (Halt auf freier Strecke/Between Stops)

Drama, 110 mín. Leikstjóri: Andreas Dresen. Aðalhlutverk: Steffi Kühnert, Milan Peschel, Talisa Lilly Lemke.

Læknirinn sagði satt. Dagar mínir eru taldir. Afhverju ég og afhverju nú? Maður fer frá konu sinni og börnum, foreldrum, vinum og nágrönnum. Einnig kærustu gærdagsins og öðru fólki sem kom við sögu í lífi hans. Dagarnir fara í að kveðja. Orða er vant, þagnirnar lengjast. Árstíðir koma og fara fyrir utan gluggann. Að deyja er það síðasta sem maður gerir. Kannski er gott að vera ekki einn þegar maður stendur frammi fyrir skapadægri sínu. Myndin hlaut aðalverðlaunin í Un Certain Regard flokknum á Cannes í fyrra og verðlaun þýskra gagnrýnenda á Berlínarhátíðinni í febrúar s.l.


_________________________________________________________________________________

Mahler á legubekknum (Mahler auf der Couch/Mahler on the Couch)

Drama, 98 mín. Leikstjórar: Percy Adlon, Felix Adlon. Aðalhlutverk: Johannes Silberschneider, Barbara Romaner, Karl Markovics.

Tónskáldið Gustav Mahler hefur verið giftur Ölmu sinni í tíu ár en dauði eins barns þeirra og bann Mahlers við tónsköpun konu sinnar hefur tekið sinn toll. Alma kynnist hinum unga og efnilega arkitekt Walter Gropius og verður ástfangin af honum. Í örvæntingu sinni leitar Mahler til Sigmund Freud um hollráð. Samband þessara tveggja risa tónlistar og sálgreiningar einkennist af árekstrum og rifrildi en á sér einnig spaugilegar hliðar.


_________________________________________________________________________________

Borgin neðra (Unter dir die Stadt/The City Below)

Drama, 110 mín. Leikstjóri: Christoph Hochhäusler. Aðalhlutverk: Nicolette Krebitz, Robert Hunger-Bühler, Mark Waschke.

Roland og Svenja hittast á listsýningu og hrífast af hvort öðru, en aðstæður leyfa ekki nánari kynni þar sem bæði eru gift. Nokkrum dögum síðar rekast þau á hvort annað fyrir tilviljun. Þau daðra hvort við annað yfir kaffibolla og leiðin liggur á hótelherbergi en Svenja fær sig ekki til að fara alla leið. Roland, sem er valdamikill yfirmaður í banka þar sem eiginmaður Svenja vinnur, er vanur að fá það sem hann vill. Hann kemur því svo fyrir að eiginmaðurinn er skipaður í stöðu erlendis. Svenja hefur enga vitneskju um þetta en á sama tíma ákveður hún að hætta að streitast gegn löngunum sínum…


_________________________________________________________________________________

Andvaka (Schlafkrankheit/Sleeping Sickness)

Drama, 91 mín. Leikstjóri: Ulrich Köhler. Aðalhlutverk: Pierre Bokma, Jean-Christophe Folly,  Jenny Schily.

Ebbo og Vera hafa búið í Kamerún í mörg ár. Ebbo fæst við rannsóknir á svefnleysi og er ánægður með hlutskipti sitt, ólíkt Veru sem hefur ekki náð að tengjast samfélaginu og saknar dóttur sinnar Helen sem er í heimavistarskóla í Þýskalandi. Ebbo verður að gefa frá sér starf sitt í Afríku eða missa konurnar í lífi sínu. En hann upplifir sig sem gest á heimaslóðum og kvíði hans yfir að snúa aftur eykst dag frá degi. Mörgum árum síðar kemur franskur læknir til Kamerún til að meta þróunarverkefni. Hann hefur ekki komið til Afríku í langan tíma. En í stað þess að hitta frísklegt fólk verður fyrir honum týnd sál. Líkt og skuggi hverfur Ebbo sjónum hins franska læknis…


_________________________________________________________________________________

Þrenning (Drei/Three)

Gamandrama, 119 mín. Leikstjóri: Tom Tykwer. Aðalhlutverk: Sophie Rois, Sebastian Schipper, Devid Striesow.

Eftir glæsilegan feril á alþjóðavettvangi snýr Tom Tykwer aftur til heimalandsins með þessu gamandrama um par á fimmtugsaldri sem verður ástfangið í sitthvoru lagi af sama manninum! Upphefst mikið leynimakk en málin flækjast enn frekar þegar konan verður ólétt.


_________________________________________________________________________________

Hverjir ef ekki við? (Wer wenn nicht wir?/If not us, who?)

Drama, sögulegt efni, 119 mín. Leikstjóri: Andres Veiel. Aðalhlutverk: August Diehl, Lena Lauzemis, Alexander Fehling.

Byggt á áhrifamiklum sönnum atburðum á átakatíma. Í upphjafi sjöunda áratugsins hefja háskólanemarnir Gudrun Ensslin og Bernward Vesper ástríðufullt samband í hinu þrúgandi andrúmslofti Vestur-Þýskalands eftirstríðsáranna. Þau skynja að veröldin er í hröðu breytingaferli og hefja baráttu gegn meðvirkninni og afneituninni allt í kringum þau. Samband þeirra endar næstum vegna ótryggðar Bernwards, en þau ná sáttum og flytja til V-Berlínar 1964. Þar slást þau í hóp róttækra rithöfunda og aðgerðasinna og verða hluti af bylgju sem fer um veröldina. Spurt er: „Hverjir, ef ekki við? Hvenær, ef ekki núna?“ En ósætti við veröldina tekur sinn toll af erfiðu sambandi þeirra. Í lok áratugsins gengur Esslin til liðs við Andreas Baader og hreyfingu hans sem byggir á beitingu ofbeldis. Á meðan hættir Bernward geði sínu með notkun hugvíkkandi lyfja í tilraun sinni til að skrifa skáldsögu sem breytt getur heiminum…

Evrópa, Kvikmyndir, Þýskaland

2 skoðanir to “Þýskir kvikmyndadagar 16.-25. mars”

  1. Eðalbíó á 500 kall « DR. GUNNI says:

    […] En allavega, Almanya – Willkommen in Deutschland er alveg frábær mynd, fyndin, sniðug og góð – „Hressileg kómedía um tyrkneska fjölskyldu í Þýskalandi,“ segja þeir í kynningunni. Húmorinn mikið í að gera grín að hefðum og siðum bæði Tyrklands og Þýskalands og hvernig þessir tveir heimar sköruðust þegar vinnuaflið streymdi frá suðrinu eftir stríð. Maður skellihló oft en vöknaði líka um augun, gríðarlega mannleg og svona, þessi mynd. Mæli hiklaust með henni og hendi á hana fjórum stjörnum. Það er enskur texti og ekki skemmir fyrir að það kostar bara 500 kall inn á allar myndirnir á þýsku kvikmyndahátíðinni. […]

  2. Depurð: Að lifa af vonleysið | ERLING ÓLAFSSON says:

    […] á hátíðinni er hérna. Mahler og Freud á góðri stund.  Sendum Freud á þingmennina. Þessi færsla var […]

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.