Laxness í lifandi myndum 23.-28. apríl
Í ár eru 110 ár frá fæðingu Halldórs Laxness, en hann var fæddur 23. apríl 1902. Kvikmyndahátíðin Laxness í lifandi myndum er samstarfsverkefni Gljúfrasteins – húss skáldsins, Bíó Paradísar og RÚV.
Halldór Laxness lifði nánast alla tuttugustu öldina og hafa verk hans verið listamönnum innblástur á sviði tónlistar, myndlistar, leiklistar og kvikmyndagerðar. Ýmis verk Halldórs hafa ratað á hvíta tjaldið eða orðið sjónvarpsefni og verða átta myndir sýndar á hátíðinni sem haldin er dagana 23. – 28. apríl. Fjórar bíómyndir, þrjár sjónvarpsmyndir og ein stuttmynd sem allar eiga það sameiginlegt að vera byggðar á verkum skáldsins.
MYNDIRNAR ERU:
Salka Valka
- Frumsýnd: 4. desember 1954
- Tegund: Drama, sænsk mynd
- Framleiðandi: Nordisk Tonefilm í samvinnu við Edda-Film
- Leikstjórn: Arne Mattsson
- Leikarar: Gunnel Broström, Birgitta Pettersson, Folke Sundquist, Erik Strandmark, Margaretha Krook, Rune Carlsten, Nils Hallberg, Sigge Fürst og Ann-Mari Adamsson
- Íslenskur texti
Salka Valka kom út í tveimur hlutum árin 1931 – 1932. Sagan gerist á Óseyri við Axlarfjörð þar sem alþýðan lifir við kröpp kjör og Bogesen kaupmaður ræður örlögum hvers manns. Í sögunni eru Salka Valka og Arnaldur í forgrunni en litlu minna áberandi eru Sigurlína, móðir Sölku, og Steinþór ástmaður hennar og örlagavaldur í lífi þeirra mæðgna.
________________________________________________________________________________
Ungfrúin góða og húsið (1999)
- Frumsýnd: 8. október 1999
- Tegund: Drama, íslensk mynd
- Framleiðandi: Umbi og Pegasus Pictures í samvinnu við Nordisk film production, Götafilm, Nordic Screen Development og Film i Väst
- Leikstjórn: Guðný Halldórsdóttir
- Leikarar: Tinna Gunnlaugsdóttir, Ragnhildur Gísladóttir, Egill Ólafsson, Rúrik Haraldsson, Reine Brynolfsson, Helgi Björnsson, Björn Floberg, Agneta Ekmanner og Ghita Nørby
Ungfrúin góða og húsið kom fyrst út í smásagnasafninu Fótatak manna árið 1933. Þar er fjallað um fólkið í Húsinu sem er annt um mannorð sitt og grípur til örþrifaráða svo blettur falli ekki á heiður fjölskyldunnar. Í forgrunni eru samskipti systranna Þuríðar og Rannveigar.
_______________________________________________________________________________
Kristnihald undir jökli
- Frumsýnd: 25. febrúar 1989
- Tegund: Drama, íslensk mynd
- Framleiðandi: Umbi í samvinnu við SDR Stuttgart
- Leikstjórn: Guðný Halldórsdóttir
- Leikarar: Baldvin Halldórsson, Sigurður Sigurjónsson, Margrét Helga Jóhannsdóttir, Kristbjörg Kjeld, Helgi Skúlason, Þórhallur Sigurðsson, Egill Ólafsson og Rúrik Haraldsson
Kristnihald undir Jökli kom út árið 1968. Sagan greinir frá umboðsmanni biskups, Umba, sem sendur er undir Jökul til að kanna stöðu mála í söfnuði einum á Snæfellsnesi. Tilefni fararinnar er að séra Jón Prímus er talinn vera hættur að sinna embættisverkum og hjúskaparstaða hans heldur óljós. Umbi á að setja saman skýrslu um ferð sína en skýrslugerðin verður snúnari eftir því sem á líður.
________________________________________________________________________________
Atómstöðin
- Frumsýnd: 3. mars 1984
- Tegund: Drama, íslensk mynd
- Framleiðandi: Óðinn film productions
- Leikstjórn: Þorsteinn Jónsson
- Leikarar: Tinna Gunnlaugsdóttir, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Björnsson, Jónína Ólafsdóttir og Sigrún Edda Björnsdóttir
Atómstöðin var gefin út árið 1948. Þar segir af Uglu, bóndadóttur að norðan, sem kemur til Reykjavíkur að læra á orgel. Hún ræður sig í vist hjá Búa Árland, sem er þingmaður og heildsali, og sækir tónlistartíma hjá Organistanum. Inn í söguna blandast meðal annars samningar um bandaríska herstöð í Keflavík, auk annarra hitamála upp úr seinna stríði og ádeilur á borgaraleg gildi og vestrænt siðferði.
_______________________________________________________________________________
Brekkukotsannáll
- Frumsýnd: 1973
- Tegund: Sjónvarpsmynd í tveimur hlutum
- Framleiðandi: Nordvision NDR
- Leikstjórn og handrit: Rolf Hädrich
- Leikarar: Jón Laxdal, Sigrún Hjálmtýsdóttir, Þorsteinn Ö. Stephensen, Nikulás Þorvarðsson, Regína Þórðardóttir, Róbert Arnfinnsson og Árni Árnason
Brekkukotsannáll kom út árið 1957. Sagan gerist í upphafi 20. aldar og er frásögn Álfgríms af afa og ömmu í Brekkukoti í Reykjavík og stórsöngvaranum Garðari Hólm. Álfgrím langar að læra að syngja og finna hinn hreina tón. Sagan gerist innan og utan við krosshliðið í Brekkukoti sem skilur að tvo heima. Innan krosshliðsins – í Brekkukoti – einkennist lífið af hreinlyndi, hógværð og iðni en utan þess – í Gúðmúnsensbúð – er allt hið gagnstæða og sú list sem þar á sér griðastað er ekki sönn.
_________________________________________________________________________
Paradísarheimt
- Frumsýnd: 6. desember 1980
- Tegund: Sjónvarpsmynd í þremur hlutum
- Framleiðandi: Norður-þýska Sjónvarpið í samvinnu við Nordvision NDR og SF Swiss
- Leikstjórn og handrit: Rolf Hädrich, aðstoðarleikstjórn: Sveinn Einarsson
- Leikarar: Jón Laxdal, Fríða Gylfadóttir, Róbert Arnfinnsson, Helga Bachman, Arnheiður Jónsdóttir, Dietmar Schönherr, Gunnar Eyjólfsson, Helgi Skúlason, Anna Björns og María Guðmundsdóttir
Paradísarheimt kom út samtímis á Íslandi og í Svíþjóð árið 1960. Sagan segir frá Steinari Steinssyni, bónda í Steinahlíðum. Hann hverfur frá búi sínu og fjölskyldu til að lifa meðal mormóna í Utah, þar sem hann telur sig hafa fundið fyrirheitna landið, hinn endanlega sannleika.
________________________________________________________________________________
Silfurtunglið
- Frumsýnd: 26. desember 1978
- Tegund: Leikið sjónvarpsefni
- Framleiðandi: RÚV
- Leikstjórn og handrit: Hrafn Gunnlaugsson
- Aðalhlutverk: Sigrún Hjálmtýsdóttir, Egill Ólafsson, Þórhallur Sigurðsson, Kjartan Ragnarsson og Steindór Hjörleifsson
Leikritið Silfurtúnglið gerist í fjölleikahúsi og var fyrst fært upp á sviði árið 1954. Hrafn Gunnlaugsson færði söguna til nútímans í sjónvarpsverkinu.
Rakin er saga Lóu, húsmóður með fallega söngrödd, sem hefur gaman að því að syngja fyrir nýfæddan son sinn. Lóa er „uppgötvuð“ af hinum vafasama Feilan sem er framkvæmdastjóri næturklúbbsins Silfurtunglsins og hann gerir hana að táknmynd þess hreina og upphaflega, ímynd sem hann getur selt því firrta fólki sem stundar næturklúbbinn. En í þessu umhverfi verður hæfileiki hennar ekki svipur hjá sjón og atriði hennar niðurlægandi.
_______________________________________________________________________________
Lilja
- Frumsýnd: 11. febrúar 1978 í Háskólabíói
- Tegund: Stuttmynd
- Framleiðandi: Hrafn Gunnlaugsson og Snorri Þórisson
- Leikstjórn: Hrafn Gunnlaugsson
- Leikarar: Eyjólfur Bjarnason, Viðar Eggertsson, Sigurður Sigurjónsson, Ellen Gunnarsdóttir og Áróra Halldórsdóttir
Lilja kom út í smásagnasafninu Fótatak manna árið 1933 og sagan gerist um það leyti eða einhvern tímann á þriðja áratugnum. Hrafn Gunnlaugsson skrifaði handritið og færði söguna til nútímans. Sagan segir af nokkrum læknanemum sem ræna líki nýlátins fátæks manns sem hvorki á eignir né frændur. Þetta gera læknanemarnir í þágu vísindanna og setja grjót í líkkistuna.