Afríka kallar!
Í tilefni af átaksverkefninu Þróunarsamvinna ber ávöxt – komum heiminum í lag hafa Afríka 20:20, félag áhugamanna um málefni Afríku sunnan Sahara og Bíó Paradís tekið höndum saman um sýningu á þremur afrískum kvikmyndum helgina 21. – 23. september. Hér er á ferð einstakt tækifæri til að kynna sér afríska kvikmyndagerð.
Viva Riva! (2010)
- Djo Tunda Wa Munga frá Kongó er höfundur og leikstjóri. 98 mín.
Myndin gerist í Kongó þar sem ríkir bensínskortur og smákrimmi kemst yfir magn af eldsneyti sem hann ætlar sér að græða á. En fleiri hafa áhuga að taka þátt og gengjastríð geysar um eldsneytið með hefndum, fjárkúgunum og mannránum. Hefur fengið verðlaun í Torontó 2010, MTV og Nígeríu 2011.
Bamako (2006)
- Abderrahmane Sissako frá Malí er höfundur og leikstjóri. 115 mín.
Myndin gerist í Bamako höfuðborg Malí og er háðsádeila um hlutverk alþjóðastofnana í Afríku. Par í vonlitlu hjónabandi fylgist með réttarhöldum þar sem spurt er um neikvæð áhrif alþjóðastofnana á hagkerfi fátæku landanna. Myndin fékk verðlaun í Instanbul 2007.
14 Kilometros (2008)
- Gerardo Olivares frá Spáni er höfundur og leikstjóri. 95 mín.
Dramatísk vegamynd sem fjallar um ungt fólk frá Afríku sem dreymir um betri heim í Evrópu og ferðast gegnum eyðimörkina og síðasta kaflann 14 kílómetrana yfir Gíbraltarsundið. Ung kona frá Malí sem flýr skipulagt hjónaband sitt við eldri mann og ungur maður frá Niger sem vill verða fótboltahetja í evrópskum klúbbi, slást saman í hættulega för norður í viðsjála paradís. Myndin vann fyrstu verðlaun á alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Valladolid 2007.
„Þróunarsamvinna ber ávöxt“ er samvinnuverkefni ABC barnahjálpar, Afríku 20:20, Barnaheilla – Save the Children á Íslandi, Barnahjálpar Sameinuðu þjóðanna – UNICEF á Íslandi, Félags Sameinuðu þjóðanna á Íslandi, Hjálparstarfs kirkjunnar, Rauða krossins, Sambands íslenskra kristniboðsfélaga, SOS barnaþorpa á Íslandi, UN Women og Þróunarsamvinnustofnunar Íslands.
[…] Afríka kallar ! Í tilefni kynningarátaksins verða afrískar kvikmyndir sýndar í Bíó Paradís, sjá dagskrá hér. […]