Svartir sunnudagar: Zardoz
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1974
- Lengd: 105 mín.
- Land: Bandaríkin
- Texti: Nei
- Leikstjóri: John Boorman
- Aðalhlutverk: Sean Connery, Charlotte Rampling og Sara Kestelman
- Dagskrá: Svartir sunnudagar
- Sýnd: 2. desember 2012
Svartir sunnudagar ætla að sýna hina mögnuðu mynd Johns Boorman, Zardoz, í Bíó Paradís sunnudagskvöldið 2. desember n.k.
Myndin er frá árinu 1974 og skartar sjálfum Sean Connery í aðalhlutverki. Þessi mynd er hluti af kynslóð ævintýrakenndra framtíðarmynda sem gerðar voru á áttunda áratugnum og má segja að hafist með frumraun George Lucas, THX 1138 árið 1970 og alið af sér myndir eins og Rollerball (1975), Logan’s Run (1976) og kannski endað á Blade Runner árið 1982. Í þessum sarpi er óhætt að segja að Zardoz sé sú sem lengst gangi í undarlegheitunum.
John Boorman var á þessum tíma nýbúinn að senda frá sér hina vinsælu mynd Deliverance og fékk “frítt spil” frá stúdíóinu til að gera mynd. Zardoz var hans “höfuðlausn”, þar sem hann skorar á hólm hugmyndir um Guð og líf eftir dauðann. Sagan gerist árið 2293 og heimurinn hefur farið í gegnum miklar breytingar.
Myndin var mjög umdeild á sínum tíma. Hún fékk slæma aðsókn og þótti misheppnuð en gagnrýnendur skiptust í tvo hópa. Sumir slátruðu verkinu en aðrir sáu í henni mikið snilldarverk. Hún hefur svo í seinni tíð orðið vinsæl og skapað sér svokallaðan “cult status”. Í dag er talað um hana sem gleymda snilldarverkið og margir vilja kalla hana bestu mynd Johns Boorman.
Zardoz hefur ekki verið sýnd í íslenskum bíóhúsum síðan hún var sýnd í Nýja bíói árið 1976. Það er því kominn tími til að skella sér í Bíó Paradís á sunnudagskvöldið 2. desember kl. 20.
Svartir sunnudagar í Bíó Paradís
Þeir Hugleikur Dagsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) hafa stofnað cult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, sem mun standa fyrir vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur. Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar cult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal a.m.k. einu sinni í viku. Eftir mikla rekistefnu ákváðu þeir þremenningar að sunnudagskvöld væru bestu kvöldin fyrir svona nokkuð, enda hafa sunnudagskvöld fest sig í sessi í bíómenningu okkar sem aðal-bíókvöldin. Auk þess hefði verið kjánalegt að vera með sýningar t.d. á þriðjudögum undir nafninu Svartir sunnudagar.