Wadjda, fyrsta bíómynd- in frá Sádí-Arabíu heimsfrumsýnd á Íslandi
Sádí-arabíska kvikmyndin Wadjda verður heimsfrumsýnd í Bíó Paradís fimmtudaginn 6. desember næstkomandi í samvinnu við UN Women á Íslandi.
Þetta er sérlega athyglisverð mynd fyrir ýmissa hluta sakir. Wadjda er fyrsta kvikmyndin sem tekin er upp að öllu leyti í Sádí-Arabíu. Um leið er þetta fyrsta kvikmyndin sem leikstýrt er af Sádí-arabískri konu, Haifaa Al Mansour, en hún skrifaði einnig handrit myndarinnar. Myndin varpar ljósi á hlutskipti kvenna í Sádí-Arabíu nútímans. Wadjda er 10 ára telpa sem dreymir um að eignast reiðhjól en er sagt að það sé ekki í boði fyrir stúlkur. Hún er hinsvegar ekki tilbúin að sætta sig við það. Á sama tíma bíður móðir hennar milli vonar og ótta eftir ákvörðun eiginmanns síns um nýtt kvonfang; mun hann taka sér aðra konu og þannig yfirgefa þær mæðgurnar að miklu leyti?
Ísland er fyrsta landið þar sem myndin er sýnd í almennum sýningum. Myndin var fyrst sýnd á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum sem fram fór í september síðastliðnum og hlaut þar verðlaun samtaka listrænna kvikmyndahúsaeigenda (CICAE verðlaunin). Hún hefur síðan verið á ýmsum hátíðum og hlotið frábæra dóma gagnrýnenda. “Sterk saga, full af húmor, heitum tilfinningum og greind” segir kvikmyndavefurinn Indiewire um hana og fagtímaritið Hollywood Reporter segir hana hafa verið “ánægjulega uppgötvun og afar heillandi”. Þá lýsti breska dagblaðið Daily Telegraph henni sem bestu mynd Feneyjahátíðarinnar.
“Ég vona að myndin bjóði upp á einstaka sýn á heimaland mitt en vísi um leið til hins sammannlega; vonarinnar og þrautseigjunnar sem fólk um allan heim getur tengt við”, segir leikstýran. Verk Haifaa Al Mansour í kvikmyndum, sjónvarpi og prentmiðlum hafa skapað henni nafn fyrir að brjótast gegnum þagnarmúrinn sem umlýkur líf sádí-arabískra kvenna og veita röddum þeirra farveg. Hún er fyrsti kvenkyns kvikmyndagerðarmaðurinn í Sádí-Arabíu, landi þar sem opinberar kvikmyndasýningar eru ekki heimilar og er nú meðal lykilfólks á því sviði þar í landi. Velgengni stuttmynda hennar og heimildamynda hefur ekki aðeins orðið mörgum arabískum kollegum hennar innblástur, heldur hrintu þær af stað fjölmiðlaumræðu í landinu um kvikmyndahúsasýningar og tjáningarfrelsi almennt. Í Sádí Arabíu eru verk hennar bæði lofuð og löstuð fyrir að hvetja til umræðu um mál sem hingað til hafa legið í þagnargildi; umburðarlyndi, hættur vegna rétttrúnaðarhyggju og þörfina á að horfa með gagnrýnum augum á ríkjandi viðhorf í landinu.