ÓSKARSDAGAR: Beasts of The Southern Wild, Royal Affair og Searching for Sugar Man
Við sýnum þrjár úrvalsmyndir sem hlotið hafa tilnefningar til Óskarsverðlauna; Beasts of the Southern Wild (tilnefnd sem mynd ársins og fær einnig tilnefningar í flokki leikstjóra, leikkonu í aðalhlutverki og handrits), En kongelig affære (Kóngaglenna – tilnefnd sem besta erlenda mynd ársins) og Searching for Sugar Man (tilnefnd sem heimildamynd ársins).
Beasts of the Southern Wild
„Einhver besta myndin á Sundance í tvo áratugi“ sagði New York Times um þessa djörfu og einstöku fantasíu sem gerist í náinni framtíð þegar loftslag jarðar hefur hlýnað um of. Hushpuppy er sex ára gömul stelpa sem býr með drykkfelldum föður sínum Wink. Þegar að heimabæ þeirra skolar í burtu leggja þau í undarlegt ferðalag um suðurríki Bandaríkjanna til að hefja nýtt líf í nýjum heimi. Ógleymanleg og ólýsanleg frumraun.
En kongelig affære / Kóngaglenna
Danmörk, 1770. Karólína Matthildur Danadrottning er gift Kristjáni VII, hinum sinnisveika konungi Dana en á í ástarsambandi við líflækni hans, Johann Struensee. Sökum ásigkomulags konungs tekur Struensee í raun völdin í landinu og stjórnar því um 10 mánaða skeið. Upplýsingamaðurinn Struensee leggur áherslu á félagslegar umbætur með stuðningi drottningarinnar. Meðal annars skipar hann svo fyrir að skuldugir aðalsmenn verði að standa skil á skuldum sínum eða sæta fangelsi ella. Þetta veldur miklu uppþoti innan hirðarinnar og valdamikil öfl berjast gegn áformum hans.
Þessi stórmynd, sem hlaut verðlaun fyrir leik og handrit á Berlínarhátíðinni síðustu, hefur notið gríðarlegra vinsælda í heimalandinu, en yfir hálf milljón gesta hafa séð hana þar. Myndin ætti ekki síður að höfða til Íslendinga enda er viðfangsefnið hluti af okkar sögu.
Searching for Sugar Man
Sixto Rodriguez var efnilegur tónlistarmaður frá Detroit sem tókst að heilla tvo plötuútgefendur upp úr skónum árið 1968. Þeir töldu sig hafa fundið nýjan Bob Dylan og gáfu út plötu hans, Cold Fact. Platan seldist hins vegar hörmulega og Rodriguez hvarf af sjónarsviðinu. Á meðan sögur gengu um versnandi geðheilsu Rodriguez, og um dramatískt sjálfsmorð, varð hann að óvæntri stórstjörnu hinum megin við Atlantshafið… í Suður-Afríku.
Searching for Sugar Man hefur farið sigurför um heiminn og unnið til fjölda verðlauna, meðal annars áhorfendaverðlaunin á hinni virtu Sundance-kvikmyndahátíð. Leikstjórinn, Malik Bendjelloul, ferðaðist til Suður-Afríku árið 2005 og heyrði sögur af Sixto Rodriguez. Þótti honum þetta vera ein besta saga sem hann hafði heyrt, og ákvað í kjölfarið að gera kvikmynd um leit sína að Rodriguez. Hinn virti kvikmyndagagnrýnandi Roger Ebert gaf Searching for Sugar Man fullt hús, og sagði myndina „vera til, því við þurfum á því að halda að hún sé til.“