BÍÓ:DOX – Til ungdommen
Reglulegar sýningar á nýjum og áhugaverðum heimildamyndum undir heitinu BÍÓ:DOX hefjast aftur í Bíó Paradís í lok janúar.
Þann 30. janúar kl. 19:30 verður frumsýnd norska heimildamyndin Til ungdommen eftir Kari Anne Moe. Stjórnandi myndarinnar verður viðstödd sýninguna ásamt Maria Kristine Göthner frá ungliðahreyfingu Hægriflokksins og Renate Tårnes frá ungliðahreyfingu Verkamannaflokksins (en hún var í Útey 22. júlí 2011). Egill Helgason sjónvarpsmaður stjórnar umræðum eftir sýningu. Veitingar að loknum umræðum í boði Sendiráðs Noregs á Íslandi.
Þessi einstaka kvikmynd fylgir fjórum norskum ungmennum yfir tveggja ára tímabil, 2009-2011. Öll vilja berjast fyrir bættu samfélagi og hafa ákveðið að taka þátt í pólitískri baráttu. Öll vilja breyta heiminum – en heimurinn breytir þeim.
Sana, Henrik, Haakon and Johanne starfa í ungliðahreyfingum fjögurra flokka. Fylgst er með þeim við kosningaundirbúning og þjálfun í framsögn og framkomu. Sana er óstyrk fyrir fyrstu kappræður sínar, Henrik er þreyttur á að þurfa sífellt að verja sig gagnvart róttækum unglingum, Haakon tekur þátt í sveitarstjórnarkosningum og Johanne hyggst draga sig út úr kappræðuliði sínu.
Þann 21. júlí 2011 fer Johanne um borð í ferjuna á leið til Úteyjar. Tökuliðið mun dvelja með henni einn dag og snúa síðan aftur til Oslo. Teymið er með Sana þegar sprengjan springur í miðborg Oslo.
Heimildamyndin Til ungdommen er svipmynd af kynslóð sem mörkuð er fyrir lífstíð af atburðunum 22. júlí 2011. Allir eru velkomnir á þessa sýningu, en hún verður einnig á dagskrá laugardag og sunnudag kl. 20. Myndin er með enskum texta og miðaverð er kr. 1300.