Forboðinn febrúar hjá Svörtum sunnudögum
Dagskrárhópurinn Svartir sunnudagar sem hefur verið starfræktur í Bíó Paradís á hverju sunnudagskvöldi síðan í byrjun nóvember í vetur hefur mælst vel fyrir og aðsókn verið góð. Hópinn skipa þeir Hugleikur Dagsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Sigurjón Kjartansson og Sigurjón B. Sigurðsson (Sjón). Svartir sunnudagar hafa verið með á dagskrá sinni hverskyns költ myndir frá ýmsum löndum. Febrúar ætla Svartir sunnudagar að helga forboðnum kvikmyndum sem valdið hafa hneykslan og verið bannaðar víða um heim, meðal annars hér á íslandi.
Þann 3. febrúar mun japanska myndin “Veldi tilfinninganna” (Ai No Korida) eftir Nagisa Oshima ríða á vaðið. Oshima lést fyrir stuttu og því vel við hæfi að heiðra hann með sýningu þessarar umdeildu myndar, en hún olli miklum usla er hún var sett á dagskrá Kvikmyndahátíðar í Reykjavík árið 1978. Áður en til sýningar kom ákvað ríkissaksóknari að banna myndina á þeim forsendum að hún þótti of klámfengin og því fékkst hún ekki sýnd fyrr en nokkrum mánuðum síðar og þá á vegum kvikmyndaklúbbsins Fjalakattarins, sem fékk undanþágu á þeim forsendum að um lokaðan klúbb var að ræða.
Þann 10. febrúar ætla Svartir sunnudagar svo að sýna hið marg-bannaða og umdeilda verk ítalska leikstjórans Pier Paolo Pasolini, Saló, frá 1975. Saló byggir á skáldsögu Marquis De Sade, 120 dagar í Sódómu. Saló var aldrei sýnd hér á landi en það orð hefur lengi farið af henni að þarna fari viðbjóðslegasta kvikmynd sem gerð hefur verið. Skal ósagt látið hvort henni hafi tekist að halda sér á toppi viðbjóðsins í öll þessi ár, því ansi margar hafa verið um hituna til að skora hana á hólm. Myndin var svanasöngur Pasolinis, en hann var myrtur skömmu eftir frumsýningu hennar.
Þvínæst munu Sunnudagarnir sýna grundvallar-mynd bannlista kvikmyndaeftirlitsins sem settur var á í upphafi níunda áratugarins. Þetta er hin alræmda Cannibal Holocaust, sem var gerð upptæk af myndbandaleigum hérlendis eftir að sá kvittur komst á kreik að kona hefði verið myrt “í alvöru” fyrir framan kvikmyndavélarnar. Það reyndist vera uppspuni og er myndin í dag gott dæmi hve auðvelt hefur reynst að blekkja áhorfandann með þeirri einföldu aðferð að hafa tökuvélina á sífelldri hreyfingu, nokkuð sem síðar var reynt með góðum árangri í bandarísku kvikmyndinni The Blair Witch Project, en myndin sú var undir sterkum árhrifum frá hinni ítölsku Cannibal Holocaust eftir Ruggero Deodato. Myndin verður sýnd sunnudagskvöldið 17. febrúar.
Síðasta myndin sem sýnd verður á Forboðnum febrúar Svartra sunnudaga verður svo hið hneykslanlega cult verk John Waters, Pink Flamingos. Þessi mynd var sýnd á kvikmyndahátíð 1981 en aldrei aftur í íslensku kvikmyndahúsi. Myndin þótti í meira lagi hneykslanleg á sínum tíma og frægasta atriðið er þegar hin íturvaxna Divine leggur sér hundaskít til munns. Pink Flamingos verður sýnd sunnudagskvöldið 24. febrúar klukkan 20.