Svartir sunnudagar: Veldi tilfinninganna (In the Realm of the Senses)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1976
- Lengd: 109 mín.
- Land: Japan
- Leikstjóri: Nagisa Oshima
- Aðalhlutverk: Tatsuya Fuji, Eiko Matsuda, Aoi Nakajima
- Dagskrá: Svartir sunnudagar
- Sýnd: 3. febrúar 2013
EFNI: Fyrsta myndin í hinum Forboðna febrúar Svartra sunnudaga er hin erótíska og marg-bannaða Veldi tilfinningana (In the Realm of the Senses) eftir Nagisa Oshima frá árinu 1976.
Myndin segir frá hóteleiganda og vændiskonu sem eiga í þráhyggjusambandi sem stigmagnast uns nánast allur þeirra tími fer í sífellt hættulegri kynlífsathafnir.
UMSÖGN: Myndin dansar á barmi hins ósiðlega, enda voru viðbrögð við henni harkaleg. Það stöðvaði þó ekki British Film Institute í að veita hennir verðlaun sem besta erlenda mynd ársins 1976.
Þegar Kvikmyndahátíð Listahátíðar setti myndina á dagskrá árið 1978 voru sýningar stöðvaðar af ríkislögreglustjóra. Í kjölfarið spannst upp mikil umræða um málið og sýndist sitt hverjum. Sumir vildu halda því fram að um argasta klám væri að ræða og skiptust forsvarsmenn Listahátíðar í tvær fylkingar í því máli. Vigdís Finnbogadóttir sem var í framkvæmdastjórn hátíðarinnar sagði í viðtali að “myndin gæti eyðilagt hugmyndir ungs fólks um ástina”. Hrafn Gunnlaugsson var hinsvegar á öðru máli og taldi fáránlegt að á meðan enginn hreyfði við mótmælum á sýningu myndarinnar um Emanuelle “sem er þriðja flokks klámmynd”, finndist honum skjóta skökku við að banna Veldi tilfinninganna “sem er á margan hátt listræn”.
Nokkrum mánuðum síðar fékk þó Fjalakötturinn, kvikmyndaklúbbur framhaldsskólanna sérstakt leyfi til að sýna myndina í Tjarnarbíói á þeim forsendum að um lokaðan klúbb væri að ræða og teldist sýningin því ekki opinber.
Myndin var gerð af hinum japanska meistara Nagisa Oshima, sem síðar átti eftir að gera nafntogaðar myndir eins og m.a. Merry Christmas Mr. Lawrence (1983), en Oshima lést nú í janúar.
Svartir sunnudagar í Bíó Paradís
Þeir Hugleikur Dagsson, Páll Óskar Hjálmtýsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) hafa stofnað cult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, sem mun standa fyrir vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur. Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar cult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal a.m.k. einu sinni í viku. Eftir mikla rekistefnu ákváðu þeir þremenningar að sunnudagskvöld væru bestu kvöldin fyrir svona nokkuð, enda hafa sunnudagskvöld fest sig í sessi í bíómenningu okkar sem aðal-bíókvöldin. Auk þess hefði verið kjánalegt að vera með sýningar t.d. á þriðjudögum undir nafninu Svartir sunnudagar.