VETRARHÁTÍÐ: Nosferatu + hrollvekjudagskrá
Með blóði vættan góm
Bókmenntadagskrá, ljósmyndasýning og frítt í bíó í Mögnuðu myrkri á Vetrarhátíð í Reykjavík
Bókmenntaborgin Reykjavík og forlagið Rúnatýr bjóða upp á hrollvekjandi dagskrá um vampírur og aðrar myrkar verur í Bíó Paradís á opnunarkvöldi Vetrarhátíðar í Reykjavík, fimmtudagskvöldið 7. febrúar 2013 kl. 20:30. Brynhildur Heiðar- og Ómarsdóttir spjallar um furðusögur, höfundar lesa úr verkum sínum og einnig les Gerður Sif Jóhannsdóttir úr nýrri þýðingu sinni á skáldsögunni Drakúla eftir Bram Stoker. Höfundarnir sem lesa frumsamið efni eru Þorsteinn Mar (Myrkfælni), Jóhann Þórsson (smásaga) og Einar Leif Nielsen (Hvítir múrar borgarinnar).
Ljósmyndir sem hæfa efninu eftir Guðmund Óla Pálmason (aka Heldriver) verða á veggjum, en hann sýnir myndir úr seríunni Ghosts of Light. Þar gefur að líta útfrymi, líkamninga og aðrar kynjaverur.
Þegar bókmenntadagskránni lýkur verður hin fræga vampírumynd F.W. Murnaus frá 1922 um Orlok greifa, Nosferatu, sýnd í sal 2. Kvikmyndasýningin hefst kl. 22 og er frítt inn.
Murnau byggir myndina á skáldsögu Stokers, en nöfnum sögupersóna er þó breytt þar sem ekki náðust samningar um aðlögun bókarinnar. Orlok greifi er leikinn af Max Schreck og með önnur stór hlutverk fara m.a. Greta Schröder og Gustav von Wangenheim. Nosferatu er ein þekktasta mynd þýska expressjónismans og hér gefst sjaldgæft tækifæri til að upplifa þetta meistaraverk í sögu hrollvekjumynda á stóru tjaldi.
Veitingasala bíósins verður opin á meðan á dagskránni stendur.
Með blóði vættan góm er hluti af dagskrá Vetrarhátíðar í Reykjavík, en þema hátíðarinnar er Magnað myrkur.