Svartir sunnudagar: Beyond the Valley of the Dolls
- Tegund og ár: Leikin mynd, 1970
- Lengd: 109 mín
- Leikstjóri: Russ Meyer
- Handrit: Roger Ebert, Russ Meyer
- Aðalhlutverk: Dolly Read, Cynthia Meyers, Marcia McBroom
- Land: USA
- Dagskrá: Svartir sunnudagar
- Sýnd: 14. apríl kl 20:00
Efni: Svartir sunnudagar munu á sunnudagskvöldið sýna Russ Meyer myndina Beyond the Valley of the Dolls í Bíó Paradís. Myndin var frumsýnd árið 1970 og var fyrri myndin af tveimur sem Meyer gerði fyrir Hollywood stúdíó, eða 20th Century Fox.
Handrit myndarinnar er skrifað af Russ Meyer ásamt hinum fræga kvikmyndagagnrýnanda Roger Ebert, sem lést fyrir nokkrum dögum. Myndin er sérkennilegt melódrama sem upphaflega var ætlað að verða framhald hinnar vinsælu myndar Valley of the Dolls frá 1967. Þegar Russ Meyer fékk verkefnið í hendurnar var fljótlega ljóst að myndin yrði ansi langt frá frummyndinni og menn klóruðu sér lengi í kollinum yfir því hvort um væri að ræða grín eða alvöru.
Leikarar myndarinnar fengu til dæmis aldrei á hreint hvort þeir væru að leika í gamanmynd eða hádramatískri stórslysamynd. Russ Meyer sagði síðar að það hefði verið með ráðum gert, þar sem hann vildi ná því fram í leiknum að persónum væri alvara með því sem þær segðu. “Ef leikarar vita að þeir eru að leika grín þá verður tilfinningin önnur”, sagði Meyer. Og þetta virtist virka á einhvern einkennilegan hátt. Beyond the Valley of the Dolls náði ágætum vinsældum og hefur síðan haldið áfram að malla í kvikmyndahúsum heimsins sem ein af þessum stóru cult-myndum.
Beyond the Valley of the Dolls verður sýnd í Bíó Paradís á sunnudagskvöldið 14. apríl klukkan 20:00.