Yfir 2000 bíógestir á Evrópskri Kvikmyndahátíð
Evrópsk Kvikmyndahátíð 2013 gekk vonum framar í Bíó Paradís í ár, en yfir 2000 bíógestir sóttu hátíðina heim. Á hátíðinni var boðið upp á þverskurð þeirra kvikmynda sem álfan hefur upp á að bjóða í dag. Boðið var upp á 12 nýjar og nýlegar myndir frá Evrópu en vegna gífurlegrar eftirspurnar munu þrjár myndir hátíðarinnar halda áfram í Bíó Paradís:
Fegurðin mikla (La grande bellezza) (Ítalía / Frakkland 2013) 142 MÍN
LEIKSTJÓRI: Paolo Sorrentino. AÐALHLUTVERK: Toni Servillo, Carlo Verdone, Sabrina Ferilli. ENSKUR TEXTI
Fegurðin mikla er ítölsk/frönsk mynd eftir leikstjórann Paolo Sorrentino. Myndin gerist í Róm og segir sögu rithöfundar sem á erfitt með að horfast í augu við að vera farinn að eldast og lítur með biturleika aftur á ástríðufull ár sín sem ungs manns. Kvikmyndin var meðal annars tilnefnd til Palme d’Or verðlaunanna á Cannes kvikmyndahátíðinni 2013 og hlaut verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á ítölsku Golden Globe kvikmyndahátíðinni.
Kvöl (Child‘s Pose) (Rúmenía 2012) 112 MÍN
LEIKSTJÓRI: Călin Peter Netzer. AÐALHLUTVERK: Luminita Gheorghiu, Bogdan Dumitrache, Natasa Raab. ENSKUR TEXTI
Kvöl er rúmensk kvikmynd eftir leikstjórann Călin Peter Netzer. Myndin segir sögu Corneliu, stjórnsamrar móður sem sér sér leik á borði til að ná stjórn á fullorðnum syni sínum eftir að hann er ákærður fyrir manndráp. Myndin var frumsýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín þar sem hún hlaut hin virtu Golden Bear verðlaun árið 2013.
Oh Boy (Þýskaland 2012) 85 MÍN
LEIKSTJÓRI: Jan Ole Gerster. AÐALHLUTVERK: Tom Schilling, Katharina Schüttler, Justus von Dohnányi. ENSKUR TEXTI.
Oh Boy er margverðlaunuð þýsk grínmynd frá 2012 og er frumraun leikstjórans Jan Ole Gerster. Myndin er svarthvít og segir frá sólarhringi í lífi Niko, ungs manns sem er atvinnulaus og hættur í námi, þar sem hann rekur stefnulaust um götur Berlínar og allt virðist ganga á afturfótunum. Myndin hefur hlotið fjöldan allann af verðlaunum, meðal annars German Film Award (Lola) 2013 fyrir bestu myndina, en það eru virtustu verðlaun innan þýskrar kvikmyndaiðnaðarins, auk Lola verðlauna fyrir besta handrit, besta leikara í aðalhlutverki (Tom Schilling), besta aukaleikara (Michael Gwisdek) og bestu kvikmyndatónlist. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna 2013.
Hátíðin heldur einnig norður, þar sem nokkrar myndir hátíðarinnar verða sýndar á Akureyri í samstarfi við kvikmyndaklúbbinn Kvikyndi, nú í október.
Tónlistin réði ríkjum við opnun hátíðarinnar þar sem eftir frumsýningu opnunarmyndarinnar Broken Circle Breakdown, lék íslenska blágresissveitin Illgresi lög úr myndinni. Þrjár myndir voru sýndar við opnun hátíðarinnar, fyrir fullu húsi. Ýmsir sérviðburðir vöktu mikla lukku á hátíðinni, m.a. frumsýning lettnesku barnamyndarinnar Mamma, ég elska þig / Mother, I love you þar sem boðið var upp á móttöku og tónlistarveislu fyrir börn og foreldra fyrir sýningu. Auk þess var Bíó Paradís breytt í næturklúbb, þar sem fjörug dansveisla til heiðurs evrópskri dansmenningu í kjölfar sýningar heimildamyndarinnar Shut up and Play the Hits.
Heiðursgestur hátíðarinnar var pólska kvikmynda- og sjónvarpsleikstýran Agnieszka Holland sem einnig er vel þekktur handritshöfundur í Hollywood og hefur getið sér gott orð fyrir bæði listræna og pólitíska kvikmyndagerð. Kvikmyndir hennar Evrópa Evrópa /Europa Europa, Í myrkri /In Darkness og þriggja þátta serían Brennandi runni/ Burning Bush voru einnig sýndar á hátíðinni.
Verkefnið Ísland og Pólland fyrir aðgengi að menningu, hlaut mikinn sess á hátíðinni, þar sem verðlaunamyndin In Darkness var sýnd með sjónlýsingu ætlaðri blindum og sjónskertum. Með verkefninu eru slíkir menningarviðburðir haldnir með því markmiði að stuðla að betra aðgengi fatlaðra að menningu m.a. kvikmyndum. Sýningin gekk vonum framar og voru gestir afar ánægðir með aðgengi að þessum hluta sjónmenningarinnar sem stendur þeim mjög sjaldan til boða. Yfirlitssýning yfir feril Agnieszku Holland var opnuð við sama tilefni, en sýningin verður enn uppi út október í Bíó Paradís. Leikstýran Agnieszka Holland er verndari verkefnins Ísland og Pólland fyrir aðgengi að menningu í Póllandi og Jón Gnarr borgarstjóri í Reykjavík á Íslandi. Á árunum 2013- 2016 verða haldnir reglulegir menningarviðburðir í báðum löndum sem styðja eiga við markmið verkefnisins.
Nýjasta verk hennar er HBO mini-serían Burning Bush sem byggð er á sönnum atburðum um tékkneska sagnfræðinemann Jan Palach sem kveikti í sér 1969 til að mótmæla innrás Sovétmanna í Tékkóslóvakíu og réttarhöldin gegn fjölskyldu Palach þar sem stjórnvöld reyndu að sverta minningu hans. Burning Bush er framlag Tékklands til Óskarsverðlaunana og er einnig tilnefnd til Evrópsku kvikmyndaverðlaunanna í ár. Sýningin gekk vel á lokadegi hátíðarinnar, en eftir sýninguna var boðið upp á leikstjóraspjall við Agnieszku Holland sem og að heiðursmóttaka henni til heiðurs fylgdi í kjölfarið sem og lokahóf Evrópskrar kvikmyndahátíðar.
Þetta er í annað sinn sem Bíó Paradís stendur fyrir Evrópskri kvikmyndahátíð í samvinnu við Evrópustofu – upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi. Evrópulönd eru stærstu samstarfsaðilar Íslands í kvikmyndagerð og er það okkar von að Evrópsk kvikmyndahátíð, þar sem kastljósinu er beint að evrópskri kvikmyndagerð og menningu, verði að árlegum viðburði.