Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
Kvikmyndafræðsla fyrir nemendur í framhaldsskólum 2103-2014

Kvikmyndafræðsla fyrir nemendur í framhaldsskólum 2103-2014

Oct 07, 2013 2 skoðanir

Í boði er kvikmyndafræðsla á föstudögum í nokkrar vikur á haustönn 2013 og vorönn 2014. Sýningarnar eru klukkan 14:15 í Bíó Paradís.

Tilgangurinn með sýningunum er alhliða kvikmyndafræðsla fyrir nemendur í framhaldsskólum. Nemendur fá möguleika á að kynnast kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru klassískar perlur frá öllum skeiðum kvikmyndasögunnar, eru lykilkvikmyndir sem hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar, eru frá ýmsum þjóðlöndum og fái að njóta þeirra í sýningarsal í kvikmyndahúsi. Hægt er líka að nýta sýningarnar við tungumálakennslu.

Á undan hverri sýningu er haldinn fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt hugmyndum að ritgerðum. Leitast verður við að skoða margvísleg temu eins og úrvinnslu tilfinninga, félagsleg tengsl, samfélagsleg tengsl, einelti, listsköpun, tengsl nútíma kvikmynda við kvikmyndasöguna, stjórnmál, mannréttindi, svo fátt eitt sé nefnt. Sýningarnar eru kennurum og nemendum að kostnaðarlausu en þeir verða sjálfir að standa straum af ferðum til kvikmyndahússins. Vinsamlega sendið verkefnastjóra tölvupóst ef þið hafið áhuga á að koma á sýningu og tilgreinið hvaða sýningu þið viljið sækja og hvað mörg sæti fyrir nemendur og hve mörg fyrir kennara / aðra starfsmenn. Ef breytingar verða á þátttöku vinsamlegast látið verkefnisstjóra vita í tíma.

Verkefnið er stutt af Kvikmyndamiðstöð Íslands, Reykjavíkurborg og Europa Cinemas. Verkefnisstjóri er Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, oddnysen@gmail.com

FÖSTUDAGUR 25. OKTÓBER KLUKKAN 14:15
Sálfræði, samskipti, ofbeldi, samskipti móður og sonar, geðræn vandamál

psycho 1960PSYCHO
TEGUND OG ÁR/Leikin hrollvekja, 1960/LENGD: 109 MIN /LAND: BANDARÍKIN /
LEIKSTJÓRI: Alfred Hitchcock/AÐALHLUTVERK: Janet Leigh, Vera Miles, John Gavin, Anthony Perkins

Psycho er ein af þekktustu myndum Alfred Hitchcocks og braut blað í sögu kvikmyndanna. Hún segir frá einkaritaranum Marion Crane (Janet Leigh) sem leitar skjóls á vegahóteli eftir að hafa stolið peningum frá yfirmanni sínum. Eigandi vegahótelsins, Norman Bates (Anthony Perkins) er alvarlega truflaður og ræður henni bana. Systir Marion (Vera Miles) reynir að komast að því hvað varð um hana og rannsóknin leiðir hana að afskekktu húsi þar sem hún kemst að hrollvekjandi leyndarmálum. Sturtuatriðið er eitt af frægustu atriðum kvikmyndasögunnar og tónlistin í atriðinu hefur verið notað ótal sinnum. Hitchcock ákvað að hafa myndina svart-hvíta til að forðast groddaleg áhrif. Kvikmyndatakan í myndinni er sérlega vel heppnuð og samspil ljóss og skugga eiga sinn þátt í að gera myndina eins áhrifaríka og raun ber vitni.

FÖSTUDAGUR 1. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15
Myndlist, mannkynssaga, spænska veikin, myndlíkingar
NOSFERATU, EINE SYMPHONIE DES GRAUEN, Þýska
NosferatuNOSFERATU
TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1922/LENGD: 94 MIN /LAND: ÞÝSKALAND/ LEIKSTJÓRI: F.W. Murnau/AÐALHLUTVERK: Max Schreck, Gustav von Wangenheim, Greta Schröder.
Nosferatu – Eine Symphonie des Grauens (Hrollvekjusinfónían) frá 1922 er meðal frægustu verka Murnaus en myndin var ólöglega byggð á skáldsögu Bram Stokers, Drakúla. Hún er því fyrsta myndin sem gerð hefur verið um Drakúla og vampírutemað en er jafnframt expressjónískt meistaraverk. Murnau lýsti því sjálfur yfir að í myndinni hefði hann reynt að komast næst expressjónískum gildum – stefnan byggir á því að innra hugarástand er sýnt utan frá með sviðsmynd, látbragði og stíl – og notað til þess sérkennilega lýsingu og furðuleg sjónarhorn. Gott dæmi um það er útlit Nosferatus sjálfs í mögnuðum leik Max Schreck og atriðið með draugavagninum, en Murnau notaði negatífu filmunnar til að skapa draumkennt ástand þar sem svart verður hvítt. Minni eins og ógn vampírunnar, kistur, rottufaraldur og plágan voru í raun hugsuð sem tákn um hvernig komið var fyrir hinu sigraða Þýskalandi þegar myndin var í framleiðslu en hefur oftast gleymst sem áhersluþáttur í hinum fjölmörgu endurgerðum myndarinnar.

FÖSTUDAGUR 8. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15
Stjórnmál, uppreisn gegn ríkjandi stjórnvöldum, kúgun, rússneska í millitextum, mannréttindi
BATTLESHIP POTEMKIN Rússneska
urlORRUSTUSKIPIÐ PÓTEMKIN
TEGUND OG ÁR/Leikin, þögul mynd, 1925/LENGD: 75 MIN/FRAMLEIÐSLULAND: Sovétríkin/ LEIKSTJÓRI: Sergei Eisenstein/AÐALHLUTVERK: Aleksandr Antonov, Vladimir Barsky, Grigori Aleksandrov, Beatrice Vitoldi.

Beitiskipið Potemkin eftir Sergei Eisenstein þykir eitt af meistaraverkum þögla tímabilsins og kvikmyndasögunnar allrar, en upphaflega var Eisenstein fenginn til að gera kvikmynd í tilefni af afmæli byltingarinnar árið 1905. Þegar hann kom til hafnarborgarinnar Odessa og sá mikilfenglegar marmaratröppurnar sem liggja niður að höfninni, ákvað hann að gerbreyta handritinu og gerði hið fræga tröppuatriði, sem er með minnisstæðustu atriðum í kvikmyndum og hefur verið endurgert ótal sinnum, þar á meðal í The Godfather, The Untouchables, Star Wars 3 og Bananas eftir Woody Allen. Klippitæknin sem Eisenstein notaði var nýsköpun þess tíma, en hún felur í sér að flétta sjokkáhrifum á milli tveggja eða þriggja myndskeiða. Með því móti taldi Eisenstein að kvikmyndin í heild sinni hefði sterkari áhrif á áhorfendur. Gott dæmi um það er tröppuatriðið fræga. Á milli myndskeiða sem sýna vopnaða kósakka skjóta fólk á leiðinni niður þrepin kemur kona með barnavagn skyndilega í ljós. Hún er táknrækn fyrir hörmungar stríðs og valdbeitingar hvar sem er í heiminum.

FÖSTUDAGUR 15. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15
Trú, mannkynssaga, kvenhetja/kvenfyrirlitning, stjórnmál, franska í millitextum
LA PASSION DE JEANNE D´ARC Franska
pislargangaPÍSLARGANGA JÓHÖNNU AF ÖRK
TEGUND OG ÁR/Leikin, þögul mynd, 1928/LENGD: 97 MIN
/FRAMLEIÐSLULAND: Frakkland/ LEIKSTJÓRI: Carl Theodor Dreyer
AÐALHLUTVERK: Renée Maria Falconetti, Antonin Artaud, Eugene Silvan, André Berley.

Carl Th. Dreyer (1889-1968) telst vafalítið til merkustu kvikmyndagerðarmanna í heiminum og myndir hans hafa haft víðtæk áhrif á listræna sköpun innan kvikmyndasögunnar. Ásamt Robert Bresson og Yasajiro Ozu er hann frumkvöðull “transcendental cinema” sem hefur verið þýtt sem óræð nálgun í kvikmyndagerð eða handanveruleiki. Dreyer fór nýjar leiðir til að nálgast viðfangsefnið og fanga það á filmu, auk þess sem hann lagði mikla áherslu á fagurfræðileg vinnubrögð og háspekileg umfjöllunarefni. Dreyer gerði Píslarsögu Jóhönnu af Örk í Frakklandi. Sögusviðið er Rúðuborg í Frakklandi árið 1431 þegar hundrað ára stríðið er í algleymingi. Nítján ára gömul bóndastúlka að nafni Jeanne er dæmd til dauða af kirkjurétti fyrir villutrú og brennd á  báli. Dreyer fór óhefðbundnar leiðir í notkun myndmáls og sviðsetningar til að ná fram sálfræðilegu raunsæi, þar sem hann lýsir síðasta sólarhringnum í lífi Jóhönnu af Örk. Dreyer notaði gögn kirkjuréttarins sem eru enn varðveitt. Myndin er talin eitt af meistaraverkum klassískra kvikmynda frá þögla tímabilinu. Samlandi Dreyers, kvikmyndagerðarmaðurinn Lars Von Trier, er mikill aðdáandi Dreyers og gerði sjónvarpsmynd eftir handriti sem Dreyer skrifaði um Medeu, en entist ekki aldur til að ljúka. Von Trier vildi nota viðhorf Dreyers til trúarinnar í myndinni Brimbroti (Breaking the Waves, 1996) þar sem hann álítur að trúin, sem endurspeglast í myndum Dreyers, sé fyrst og fremst mannúðleg og að hann gagnrýni aldrei Guð sjálfan, aðeins hvernig mennirnir misnota trúna. Bess í áðurnefndri kvikmynd Von Triers er persónugervingur þessa viðhorfs en kveikjan að verkinu er að miklu leyti Píslarsaga Jóhönnu af Örk og Gertrud. “Konan er miðja myndarinnar eins og konurnar í myndum Dreyers, konur, sem þjást.” (Sight and Sound, 1996).

FÖSTUDAGUR 22. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15
Samskipti, einangrun, félagsfræði, einelti, franska, myndlist, Auguste Renoir
LE FABULEUX DESTIN D´AMELIE POULAIN Franska
amilieAMELIE
TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 2001/LENGD: 122 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Frakkland/ LEIKSTJÓRI: Jean-Pierre Jeunet/AÐALHLUTVERK: Audrey Tautou, Mathieu Kassovitz, Yolande Moreay, Dominique Pinon.

Sagan af Amélie Poulain er um stúlkuna Amélie sem fékk ekki að vera venjulegt barn því faðir hennar, sem er læknir, hélt að hún væri hjartveik. Þegar hann hlustaði hjarta hennar sló það alltof hratt vegna þess að hún þráði ástúð hans. Þegar Amélie vex úr grasi lifir hún í eigin heimi ástar og fegurðar. Hún flytur í miðhluta Parísarborgar og gerist gengilgeina. Dag nokkurn ákveður hún að helga sig því að gleðja fólkið í kringum sig, en þegar hún kynnist ástinni ákveður hún að láta drauma sína rætast.Myndin vakti mikla athygli þegar hún var frumsýnd og hlaut meðal annars evrópsku kvikmyndaverðlaunin og fjögur Cesar-verðlaun.

FÖSTUDAGUR 29. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15
Þverskurður af samfélagi á sjöunda áratug síðustu aldar, trú, fjölmiðlar, sjálfsvíg, ítalska, heimspeki, staðalímyndir. LA DOLCE VITA Ítalska

La Dolce VitaHIÐ LJÚFA LÍF
TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1960/LENGD: 174 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Ítalía/ LEIKSTJÓRI /Federico Fellini/AÐALHLUTVERK: Marcello Mastroianni, Anita Ekberg, Anouk Aimée, Yvonne Furneaux, Alain Cuny.

La Dolce vita segir frá blaðamanninum Marcello og leit hans að innihaldsríku lífi á meðan hann segir frá fréttum af margs konar viðburðum sem verða á vegi hans. Eitt af helstu temum myndarinnar er firring nútímamannsins gagnvart náttúrunni og þjáningin sem fylgir því. Myndin gerist á sjö dögum og sjö nóttum sem tengjast hinum sjö hæðum Rómar og dauðasyndunum sjö. Upphafsatriðið er með frægari atriðum kvikmyndasögunnar þar sem
flogið er með Kristlíkneski yfir Róm og í myndinni koma meðal annars fyrir tvö börn sem þykjast sjá Maríu mey með hörmulegum afleiðingum, svallveislur í köstulum og ljóðrænt atriði í Trevi-gosbrunninum í Róm með leikkonunni Anitu Ekberg. Fellini sagði að hann hefði viljað gera “fresku af Róm þar sem ljósmyndablossar, upplýstar götur og bílljós tákna tómið, endurtekninguna, níhilismann og lífsleiðann.” Þetta er spírall í helvíti nútímans (sjöundi áratugurinn) og andinn í Guðdómlegum gleðileik Dantes er ekki fjarri. La Dolce vita er talin með mestu listaverkum síðustu aldar.
JÓLAFRÍ

FÖSTUDAGUR, 17. JANÚAR KLUKKAN 14:15
Þróun mannkyns, tækni, vísindi, samskipti manns og tölvu, hver stjórnar hverjum

space

2001: A SPACE ODYSSEY
TEGUND OG ÁR/Vísindaskáldskapur,1968/LENGD: 160 MIN
/FRAMLEIÐSLULAND: Bandaríkin, Bretland/ LEIKSTJÓRI: Stanley Kubrick/AÐALHLUTVERK: Robert Beatty, Frank Miller, Douglas Rain, Sean Sullivan.

2001: A Space Odyssey segir sögu þróunar mannkyns, allt frá örófi alda til hátækni síðasta áratugs 20. aldar. Dularfullur steinn finnst á jörðinni og síðar á tunglinu og hópur geimfara leggur af stað í tæknilega þróuðu geimfari sem er stýrt af ofurtölvu. Í ljós kemur að virkni tölvunnar reynist öðruvísi en talin var möguleg og kapphlaup hefst á milli eins
af geimförunum og tölvunnar. Myndin er ein frægasta framtíðarsýn sem hefur verið sett á hvíta tjaldið fyrir utan Metrópolis eftir Fritz Lang. Myndmál Kubricks er bæði fallegt og dulúðugt og hefur haft gríðarleg áhrif á kvikmyndasöguna. Margir telja hana bestu mynd allra tíma.

FÖSTUDAGUR 24. JANÚAR KLUKKAN 14:15

Tilvistarspurningar, heimspeki, félagsfræði, sálfræði, dauðinn
SMULTRONSTÄLLET Sænska

VILLT JARÐARBERVillt jardaber TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1959/LENGD: 91 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Svíþjóð/ LEIKSTJÓRI: Ingmar Bergman/AÐALHLUTVERK: Victor Sjöstrom, Bibi Andersson, Ingrid Thulin, Gunnar Björnstrand

Ingmar Bergman er einn af mikilhæfustu leikstjórum kvikmyndasögunnar en hann leikstýrði yfir 60 kvikmyndum og skrifaði flest handritin sjálfur. Í myndinni Villt Jarðarber tekst Bergman á við eitt af þeim hugðarefnum sem stóðu honum næst, uppgjöri mannsins við sjálfan sig þegar hann stendur andspænis dauðanum. Myndin segir frá eldri manni sem hefur starfað sem prófessor alla ævi en vanrækt tengslin við fjölskyldu sína. Hann er að leggja af stað í langferð til að taka við heiðursnafnbót við háskóla þegar tengdadóttir hans kemur óvænt í heimsókn. Þau leggja af stað, en ferðalag prófessorsins stefnir brátt inn á við þegar hann horfist í augu við lífshlaup sitt og veltir vöngum yfir því sem fór úrskeiðis.

FÖSTUDAGUR 31. JANÚAR KLUKKAN 14:15
Fjölmiðlar, efnahagur, heimspeki, samskipti, þjóðfélag, barnæska
CITIZEN KANE

RosebudBORGARI KANE
TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1941/LENGD: 119 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Bandaríkin/ LEIKSTJÓRI: Orson Welles/AÐALHLUTVERK: Orson Welles, Joseph Cotten, Dorothy Comingore, Everett Sloane, Ray Collins.

Borgari Kane er ein af frægustu kvikmyndum sögunnar en hún er talin best allra mynda sem hefur verið gerð ásamt Vertigo eftir Hitchcock og Les règles du jeu eftir Jean Renoir. Hún segir frá lífi Charles Foster Kane (Orson Welles), goðsagnarkennds blaðakóngs, en persónan er að hluta byggð á William Randolph Hearst. Myndinni leikstýrði Orson Welles og sjálfur lék hann hlutverk Kane. Myndin var tilnefnd til níu Óskarsverðlauna og hlaut verðlaun fyrir besta handritið (Herman Mankiewicz og Welles). Hún hefur fengið mikið lof fyrir byltingu í kvikmyndatöku, tónlist og frásagnaraðferð. Sagt er frá lífi Kane í endurliti þar sem blaðamaður reynir að leysa ráðgátuna um orð hans á dánarbeðinu, “Rosebud”.

FÖSTUDAGUR 14. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15
Myndlist, ritskoðun, Sovétríkin, heimspeki, sálfræði
ZERKALO Rússneska

erkaloSPEGILL
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1975/LENGD: 107 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: SOVÉTRÍKIN/ LEIKSTJÓRI: Andrei Tarkovsky/AÐALHLUTVERK: Margarita Terekhova, Ignat Danitlsev, Larisa Tarkovskaya, Alla Demidova, Anatoli Solonitsyn.

Andrei Tarkovsky (1932-1986) er einn af merkustu kvikmyndagerðarmönnum sem uppi hefur verið og hefur haft víðtæk áhrif á kvikmyndasöguna. Hann gerði fyrstu myndir sínar í Sovétríkjunum en síðustu tvær þeirra gerði hann á Ítalíu og í Svíþjóð. Tarkovsky fór óhefðbundnar leiðir við vinnslu kvikmynda sinna, hafnaði hefðbundinni frásagnaraðferð og myndir hans einkennast af raungerðri dulrúð, háspekilegum vangaveltum, draumkenndu myndmáli og óvenju löngum skotum svo einhver dæmi séu tekin.

FÖSTUDAGUR 14. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15
Samskipti, trú, félagsfræði, jafnrétti, kvenréttindi, samfélagsleg útskúfun
BREAKING THE WAVES

brakinBRIMBROT
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1996/LENGD: 159 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Danmörk/ LEIKSTJÓRI: Lars Von Trier/AÐALHLUTVERK: Emily Watson, Stellan Skarsgård, Katrin Cartlidge, Jean-Marc Barr

Brimbrot gerist í einangruðu, skosku samfélagi og segir frá ungri konu, Bess McNeil, sem verður ástfangin af Jan, dönskum manni sem vinnur á olíuborpalli. Þegar Jan verður fyrir alvarlegu slysi reynir á trú Bess, en hún er sannfærð um að Guð geti læknað Jan og reynir til þrautar að stuðla að bata hans. Lars Von Trier er einn af fjórum leikstjórum sem stóðu að Dogma 95 samþykktinni en markmið þeirrar samþykktar var uppreisn gegn ofurtæknivæddri kvikmyndagerð samtímans. Eins og kom fram í kynningunni á Píslarganga Jóhönnu af Örk er Trier aðdáandi Carl Th. Dreyers og varð fyrir miklum áhrifum af myndinni. Í Brimbroti er vísun í myndir Dreyers og auðvelt er að sjá tengsl á milli Jóhönnu í Píslarsögunni og Bess í Brimbroti. Máttur trúarinnar, þjáningin og náðin er þungamiðja myndarinnar og Bess er persónugervingur þessa viðhorfs. “Konan er miðja myndarinnar eins og konurnar í myndum Dreyers, konur sem þjást,” er haft eftir Lars Von Trier í viðtali í Sight and Sound Magazine árið 1996. Brimbrot hefur fengið fjölda verðlauna og viðurkenninga.

FÖSTUDAGUR 21. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15
Samfélagsmynstur, andstæður borgar og sveita, samband foreldra við uppkomin börn, einmanaleiki, japanska

tokyoTOKYO STORY
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1953/LENGD: 136 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Japan/ LEIKSTJÓRI: Yasujiro Ozu/AÐALHLUTVERK: Chishu Ryy, Chieko, Higashiyama, Setsuko Hara.  Japanska

Japanski leikstjórinn Yasujiro Ozu er einn af mikilvægustu leikstjórum Japan, en Tokyo Story er á lista British Film Institut yfir bestu myndir sem hafa verið gerðar ásamt Citizen Kane eftir Orson Welles og Leikreglurnar eftir Jean Renoir. Tokyo Story segir frá öldruðum hjónum sem koma úr sveitinni til Tokyo til að heimsækja börn sín, en þau eru uppkomin og hafa lítinn tíma til að sinna foreldrunum. Þungamiðja myndarinnar er íhugun um tilgang lífsins og ýmsar tilvistarlegar spurningar, þar sem gömlu hjónin vekja upp ótta barna sinna við að eldast og deyja og börnin valda hjónunum vonbrigðum. Tokyo Story er áleitin mannlífsstúdía sem á sérstakan sess í kvikmyndasögunni og er í senn hjartnæm og árifamikil.

FÖSTUDAGUR 28. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15
Samskipti eldri konu og yngri manns, þrá, veruleikafirring, samtíðarspegill

sunsetSUNSET BOULEVARD
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1950/LENGD: 110 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Bandaríkin/ LEIKSTJÓRI: Billy Wilder/AÐALHLUTVERK: Gloria Swanson, William Holden, Erich von Stroheim, Nancy Olson.

Sunset Boulevard segir frá ungum handritshöfundi í Hollywood sem er að reyna að slá í gegn en kemst að því að það er ekki eins auðvelt og hann hélt. Hann gerist leigupenni hjá löngu gleymdri stjörnu úr þöglu myndunum sem ákveður að stíga fram á sviðið á nýjan leik, en samskipti þeirra enda með ósköpum. Sunset Boulevard er ein af þekktustu rökkurmyndum sem gerðar hafa verið, en margar þeirra voru byggðar á leynilögreglusögum eftir Dashiell Hammett, Raymond Chandler og Patriciu Highsmith en Frakkar dáðust mikið að þessum höfundum og voru verk þeirra þýdd og gefin út í bókaflokki sem var kölluð “Svarta serían”. Heitið Film noir, sem í bókstafsmerkingu þýðir “svartar myndir”, er því dregið af nafni þessa bókaflokks og jafnframt vegna hinna frægu rökkuratriða sem einkenna þessar kvikmyndir. Í þessum myndum kemur fram ístöðulítil karlmannsímynd, að hluta til sprottin af hinu mikla óöryggi á vinnumarkaðinum og vantrausti gagnvart náunganum sem Bandaríkjamenn fundu fyrir þegar þeir sneru heim úr stríðinu. Stórborgirnar voru að taka á sig ógnvekjandi mynd með vaxandi glæpatíðni og þar sem konurnar höfðu farið út á vinnumarkaðinn og orðið mun sjálfstæðari gerbreyttist ímynd þeirra í rökkurmyndunum.

FÖSTUDAGUR 7. MARS KLUKKAN 14:15
Samskipti kynjanna, veruleikafirring, blekkingar, þjóðfélagsleg spilling, trú
EL ANGEL EXTERMINADOR Spænska

tortimaTORTÍMINGARENGILLINN
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1962/ LENGD: 94 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Mexíkó/ LEIKSTJÓRI: Luis Buñuel /AÐALHLUTVERK: Silvia Pinal, Enrique, Rambal, Claudio Brook, Augusto Benedicto.

Luis Buñuel hefur alltaf haft sérstöðu í kvikmyndasögunni. Hann var höfundarleikstjóri fram í fingurgóma allt frá byrjun og víðörull leikstjóri sem tók á margvíslegum hugðarefnum á afar frumlegan hátt, andstöðu gegn trú, smáborgarahætti, hreintrúarstefnu og spillingu svo örfátt sé nefnt. Hann var súrrealisti og kvikmyndir hans bera þess glöggt merki. Tortímingarengillinn segir frá kvöldverðarboði sem gestirnir komast ekki úr og grímur siðmenningar falla þegar þeir neyðast til að lifa eins og dýr. Woody Allen kemur með skemmtilega vísun í Tortímingarengilinn í kvikmynd sinni, Midnight in Paris, þar sem Buñuel er ein af persónum þriðja áratugarins sem aðalsöguhetjan Gil og alteregó Woody Allen hittir í París á tímaflakki sínu. Gil bendir Buñuel á að gera kvikmynd um fólk sem fer í kvöldverðarboð en kemst ekki heim að boðin loknu, Buñuel til mikillar undrunar.

FÖSTUDAGUR 14. MARS KLUKKAN 14:15
Geðsjúkdómar, samskiptamynstur, staðalímyndir, sálfræði, misnotkun, kynferðisleg bæling
REPULSION

repulsionANDÚÐ
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1965/LENGD: 105 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Bretland/ LEIKSTJÓRI: Roman Polanski/AÐALHLUTVERK: Catherine Deneuve, Ian, Hendry, John Fraser, Yvonne Furneaux

Repulsion er fyrsta kvikmyndin sem Polanski gerði á ensku og er tekin í London. Hún segir frá ungum snyrtifræðingi, Carol, sem lifir viðburðasnauðu lífi hjá systur sinni. Þegar systirin fer í tveggja vikna ferðalag með kærasta sínum, verður einmanaleikinn Carol um megn og geðræn vandamál hennar leysast úr læðningi. Í myndinni er sálarástand Carol kannað, sér í lagi andúð hennar á karlmönnum sem sýna henni áhuga og gæti átt rætur að rekja til misnotkunar í bernsku. Carol er leikin af Catherine Deneuve sem var staðalímynd fegurðar og yndisþokka, en Polanski gerbreytti þeirri ímynd í myndinni og einbeitti sér að hugarástandi hennar. Myndin hefur haft mikil áhrif á aðrar kvikmyndir og tónlistarmyndbönd, en þess má geta að Black Swan eftir Darren Aronofsky sækir mikið í temu og kvikmyndatöku Repulsion. Myndin er fyrsta myndin í þríleik Polanski sem gerist í íbúðum, Rosemary´s Baby og The Tenant.

FÖSTUDAGUR 21. MARS KLUKKAN 14:15
Mannkynssaga, samskipti, einmanaleiki, fátækt, græðgi
GOLD RUSH

chaplinGULLÆÐIÐ
TEGUND OG ÁR/Leikin, þögul gamanmynd, 1925/LENGD: 72 MIN /LAND: BANDARÍKIN/ LEIKSTJÓRI: Charles Chaplin/AÐALHLUTVERK: Charles Chaplin, Georgia Hale, Mack Swain.

Chaplin sagði mörgum sinnum að þetta væri myndin sem hann vildi láta minnast sín fyrir. Hún gerist á slóðum gullgrafara í Alaska um aldamótin þar sem Flækingurinn (Chaplin) er staddur í leit að gulli. Hann leitar skjóls í litlum kofa ásamt gullgrafara sem er leikinn af Mack Swain. Þeir félagar komast hvergi til að ná í mat vegna veðursins og neyðast til að borða soðna skó á þakkargjörðardaginn. Stúlka að nafni Georgía kemur til sögunnar á óvæntan hátt. Atriðið þar sem Flækingurinn matreiðir máltíð með skónum hefur verið endurgert mörgum sinnum, þar { meðal í kvikmyndinni um Chaplin, “Chaplin” (1992) með Robert Downey Jr. í aðalhlutverki og í “Benny and Joon” (1993) með Johnny Depp.

FÖSTUDAGUR 28. MARS KLUKKAN 14:15
Sonarmissir, líffæraígræðsla, samskipti, vændi, eiturlyf, samkynhneigð, transkonur, útskúfun úr samfélagi, spænska
TODO SOBRE MI MADRE Spænska

modurminaALLT UM MÓÐUR MÍNA
TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1999/LENGD: 104 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: Spánn/ LEIKSTJÓRI: Pedro Almodóvar/AÐALHLUTVERK: Cecilia Roth, Marisa Parades, Antonia San-Juan, Penélope Cruz, Toni Canto.

Myndin fjallar um einstæða móður, Manuelu (Cecilia Roth) sem missir son sinn þegar hann verður sautján ára og ákveður að fara til Barcelóna í leit að föður drengsins, Lolu (Toni Canto). Þar kynnist hún gamalli vinkonu sinni,
kynskiptingnum Agrado (Antonia San-Juan), nunnunni Rosu (Pénelope Cruz) sem gengur með barn Lolu og leikkonunni Huma Rojo (Marisa Parades). Í myndinni eru flókin vandamál skoðuð niður í kjölinn eins og alnæmi,
samkynhneigð, kynskiptingar, trú og tilvist. Kvikmyndin “All About Eve” (Joseph Mankiewitz, 1950) og leikritið “Sporvagninn Girnd” (Tennessee Williams, 1947) eru fléttuð inn í myndina. Almodóvar tileinkaði myndina: “Öllum leikkonum sem hafa leikið leikkonur. Öllum konum sem leika. Öllum karlmönnum sem leika og verða að konum. Öllum þeim sem vilja verða mæður. Móður minni.” Myndin hlaut Gullpálmann í Cannes árið 1999 og Óskarsverðlaunin árið 2000 fyrir bestu erlendu kvikmyndina.

FÖSTUDAGUR 4. APRÍL KLUKKAN 14:15
Hryðjuverk, stjórnmál, utanríkisstefna Bandaríkjanna eftir 9/11, samskipti, einmanaleiki, heyrnarleysi, mannréttindi, brottflutningur

babelBABEL
TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 2006/LENGD:143 MIN FRAMLEIÐSLU/LAND: BANDARÍKIN, FRAKKLAND, MEXÍKÓ/ LEIKSTJÓRI: Alejandro Gonzàles Inàrritu/AÐALHLUTVERK: Brad Pitt, Cate Blanchett, Mohamed Akhzam, Peter Wight.

Í Babel sjáum við sögur sem gerast í Marokkó, Japan, Mexíkó og Bandaríkjunum á sama tíma. Myndin er síðasti hluti þríleiksins Amores Perros og 21 Grams og segir frá samskiptum eiginmanns og eiginkonu, foreldra og barns, bróðurs og systur, frænku og frænda, barnfóstru og fósturbarna. Myndin hefst á því að geitabóndi í sunnanverðri Sahara-eyðimörkinni kaupir haglabyssu af nágranna sínum til að skjóta sjakala, sem sækja í geitur hans. Synir hans að leika sér að byssunni og skjóta í átt að rútu sem flytur ferðafólk. Skotið hæfir Susan, (Cate Blanchett) sem er amerísk kona frá San Diego og setur af stað ófyrirsjáanlega rás atburða sem teygir sig til Mexíkó, Bandaríkjanna og Japan. Temað er kærleikur í andstreymi, sorgarferli og missir, en við kynnumst meðal annars unglingsstúlku í Japan sem er að vinna úr móðurmissi.

SÝNINGAR HAUSTIÐ 2013 – YFIRLIT
FÖSTUDAGUR 25. OKTÓBER KLUKKAN 14:15 – PSYCHO

FÖSTUDAGUR 1. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15 – NOSFERATU

FÖSTUDAGUR 8. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15 – ORRUSTUSKIPIÐ PÓTEMKIN

FÖSTUDAGUR 15. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15 – PÍSLARSAGA JÓHÖNNU AF ÖRK

FÖSTUDAGUR 22. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15 – AMELIE

FÖSTUDAGUR 29. NÓVEMBER KLUKKAN 14:15 – HIÐ LJÚFA LÍF
SÝNINGAR VORIÐ 2014- YFIRLIT
FÖSTUDAGUR, 17. JANÚAR KLUKKAN 14:15 – A SPACE ODYSSEY

FÖSTUDAGUR 24. JANÚAR KLUKKAN 14:15 – VILLT JARÐARBER

FÖSTUDAGUR 31. JANÚAR KLUKKAN 14:15 – BORGARI KANE

FÖSTUDAGUR 7. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15 – SPEGILL

FÖSTUDAGUR 14. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15 – BRIMBROT

FÖSTUDAGUR 21. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15 – TOKYO STORY

FÖSTUDAGUR 28. FEBRÚAR KLUKKAN 14:15 – SUNSET BOULEVARD

FÖSTUDAGUR 7. MARS KLUKKAN 14:15 – TORTÍMINGARENGILLINN

FÖSTUDAGUR 14. MARS KLUKKAN 14:15 – ANDÚÐ

FÖSTUDAGUR 21. MARS KLUKKAN 14:15 – GULLÆÐIÐ

FÖSTUDAGUR 28. MARS KLUKKAN 14:15 – ALLT UM MÓÐUR MÍNA

FÖSTUDAGUR 4. APRÍL KLUKKAN 14:15 – BABEL

Oddný Sen tók saman.

 

Fréttir/pistlar, Kvikmyndir, Uncategorized

2 skoðanir to “Kvikmyndafræðsla fyrir nemendur í framhaldsskólum 2103-2014”

  1. Ernesto Erlebach says:

    Hi, i think that i saw you visited my site so i came to “return the favor”.I’m trying to find things to enhance my web site!I suppose its ok to use some of your ideas!!|

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.