Svartir Sunnudagar snúa aftur!
Þeir Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) er stofnuðu kult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, munu standa fyrir vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur.
Síðasti vetur gekk vonum framar, þar sem fjöldinn allur mætti á mjög fjölbreytta og beitta dagskrá sem í boði var. Í hverri viku sér nýr listamaður um plakatahönnun Svartra Sunnudaga, og er sölusýning þeirra plakata síðastliðins veturs aðgengileg í innra rými Bíó Paradís. Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar kult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal a.m.k. einu sinni í viku.
Dagskrá vetrarins er fjölbreytt og spennandi. Ætlunin er að Svartir Sunnudagar “snúi aftur” næstkomandi sunnudag. Þeir hefja vetrardagskrána á meistaraverkinu og kult klassíkinni Videodrome í leikstjórn Davids Cronenberg, myndin er svo sannaralega súrealísk útfærsla á hugmyndinni um hvernig áhrif fjölmiðlar hafa á líf fólks. Myndin er sýnd 20. október kl 20:00 í stafrænni snilld og nýju hljóðkerfi í Bíó Paradís!
Myndirnar eru teknar við opnun plakatasýningu Svartra Sunnudaga síðastliðið vor. Sýningin er aðgengileg í innra rými Bíó Paradísar.