2013 var stórkostlegt ár í Bíó Paradís!
Bíó Paradís fagnar þriðja starfsári sínu og lítur yfir glæstan veg liðins árs sem og að óska landsmönnum gleðilegrar hátíðar. 24 íslenskar myndir voru sýndar á árinu sem og 11 íslenskar heimildamyndir. Við frumsýndum jafnframt 31 nýjar evrópskar kvikmyndir og 13 erlendar heimildamyndir. Hér ber að líta örstutt yfirlit yfir það sem bar hæst á árinu í hinu fyrsta og eina listræna bíóhúsi landsmanna.
ALÞJÓÐLEG BARNAKVIKMYNDAHÁTÍÐ Í FYRSTA SINN
Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík, sem haldin var í fyrsta sinn vikuna 29. maí– 4. júní 2013, var vel tekið og vel sótt af börnum unlingum og auðvitað foreldrum en yfir 3800 gestir sóttu hátíðina samanlagt. Rúmlega 3000 börn og ungmenni mættu á frísýningar fyrir öll skólastig sem haldnar voru alla virka daga á meðan hátíðinni stóð.
Því mætti segja að fullt hafi verið út úr dyrum daglega, og börn og ungmenni voru ánægð með frábært framtak. Opnunarmynd hátíðarinnar Ernest og Celestína, sló rækilega í gegn, en myndin var talsett á íslensku. Markmið Heimilis kvikmyndanna er að halda kvikmyndahátíð barna árlega og byggja þar upp hefð í menningarlífi barna og fjölskyldufólks. Slíkur viðburður mun vekja áhuga barna á kvikmyndum og kvikmyndamenningu, stuðla að tengslum við líf og umhverfi annarra barna víða um heim og færa börnum fjölbreyttari upplifun á hvíta tjaldinu en þau hafa haft aðgang að hingað til. Aðstandendur Alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar í Reykjavík þakka fyrir sig.
ÍSLENSK KVIKMYNDAHELGI
Landsmönnum var boðið í bíó á íslenska kvikmyndahelgi 22.-24. mars. Í tilefni af hækkun framlaga í Kvikmyndasjóð Íslands buðu íslenskir kvikmyndagerðarmenn, í samstarfi við Kvikmyndamiðstöð Íslands og 18 sýningarstaði, landsmönnum í bíó helgina 22. – 24. mars. Fjölbreytt úrval íslenskra kvikmynda var sýnt víðs vegar um land og í einhverjum tilfellum voru leikstjórar eða aðrir aðstandendur viðstaddir sýningar og svöruðu spurningum að þeim loknum. Alls voru sýningar á 18 stöðum, þar af tveimur í Reykjavík – Háskólabíó og Bíó Paradís. Sýningarstaðir voru valdir í samráði við menningarfulltrúa hvers landshluta og eftir aðstöðu til sýninga.
STÓRKOSTLEGIR ÞÝSKIR DAGAR Í ÞRIÐJA SINN
Bíó Paradís og Goethe Institut Danmörku stóðu fyrir Þýskum kvikmyndadögum í þriðja sinn dagana 14.-24. Mars 2013 í samstarfi við Sendiráð Þýskalands, Sjónlínuna, Kötlu Travel og RÚV og voru þeir afar vel sóttir en miðaverð var aðeins 650 kr. Að þessu sinni buðum við upp á sjö nýjar myndir sem eru þverskurður af því besta sem þýskt bíó hefur uppá að bjóða; allt frá mynd meistarans Margarethe von Trotta um hinn merka stjórnmálahugsuð Hannah Arendt til fyrstu mynda ferskra ungra leikstjóra sem eru að slá nýjan og afar áhugaverðan tón í þýskri kvikmyndagerð.
GLÆSILEGIR PÓLSKIR DAGAR Í ÞRIÐJA SINN
Bíó Paradís og Sendiráð Lýðveldis Póllands á Íslandi stóðu fyrir Pólskum kvikmyndadögum í þriðja sinn dagana 25.-28. apríl 2013. Að þessu sinni buðum við uppá fjórar nýjar myndir sem eru þverskurður af því besta sem pólskt bíó hefur uppá að bjóða; allt frá opnunarmyndinni My father’s bike / Mój rower grátbroslega pólska gamanmynd þar sem þrjár kynslóðir í sömu fjölskyldu fara í eftirminnilegt ferðalag eftir leikstjórann Piotr Trzaskalski til myndarinnar You are god þar sem fjallað er um hinn stórbrotna hip-hop hóp Paktofonika, sem breytti pólskri tónlistarsenu svo um munaði á sínum tíma. Myndirnar voru á pólsku með enskum texta og frítt var inn á allar sýningar.
BÍÓ PARADÍS í CICAE samtök listrænna kvikmyndahúsa
Bíó Paradís, hið listræna kvikmyndahús sem rekið af Heimili kvikmyndanna ses, hefur nú verið samþykkt inn í samtök Evrópskra kvikmyndahúsa CICAE. Samtökin hafa verið rekin frá árinu 1955, í þeim tilgangi að kynna menningarlega fjölbreytni í rekstri kvikmyndahúsa- og kvikmyndahátíða. CICAE samtökin eru viðurkennd af Evrópuráðinu, International Council for Film Television and Audiovisual Communication (IFTC) UNESCO, er meðlimur í Media Salles, og hefur verið meðlimur í bandalagi Française pour la diversité culturelle frá upphafi eða frá árinu 2003. Þau eiga í samstarfi við Cinemas, njóta stuðnings frá UNESCO, MEDIA áætlun Evrópusambandsins, CNC (Frakklandi), the FFA (Þýskalandi), the DGC (Ítalíu), svo að fátt eitt sé nefnt. Samtökin hvetja listræn kvikmyndahús til að koma saman undir sameiginlegri regnhlif á landsvísu og alþjóðavísu, til þess að miðla og deila reynslu og stuðla að áframhaldandi kvikmyndahúsarekstri listrænna kvikmynda í menntunar- og menningarlegum tilgangi.
CICAE samanstendur af 3000 listrænum kvikmyndahúsum í Frakklandi (1000) á Ítalíu (2400), í Þýskalandi (300), Sviss (90), Ungverjalandi (40), Belgíu (15) og Venuzuela (14) ásamt því að fjöldin allur af listrænum kvikmyndahúsum frá yfir tuttugu öðrum löndum eiga aðild, m.a. Austuríki, Kýpur, Danmörku, Finnlandi, Spáni, Póllandi, Portúgal, Ameríku og Marókkó. Við þetta má bæta að kvikmyndahátíðar sem eiga aðild að samtökunum, sem haldnar eru m.a. í Berlín, Festróíu, Cannes, Locarno, Sarajevo, Feneyjum, Annecy, Hamborg og Mons auk fjölda dreifingaaðila í kvikmyndaiðnaðinum. Listræn kvikmyndahús leitast við að kynna og miðla listrænum kvikmyndum í menningarlegum og menntunarlegum tilgangi en Bíó Paradís fagnar inngöngu í samtökin og vekur jafnframt athygli á því að bíóið er fyrsta og eina starfandi listræna kvikmyndahúsið á Íslandi í dag. Jafnframt má taka það fram að Bíó Paradís á aðild að Europa Cinemas fagsamtökum kvikmyndahúsa í Evrópu sem styrkst er af MEDIA áætlun Evrópusambandsins.
Reykjavík Shorts&Docs
Stutt- og heimildamyndahátíðin Reykjavík Shorts & Docs Festival var haldin 9.-16. maí í Bíó Paradís, Kex Hostel og í Slipp Bíó / Reykavík Marina. Þetta var í 11. sinn sem hátíðin er haldin og að venju var fjölbreytt úrval íslenskra og erlendra stutt- og heimildamynda. Hátíðin gekk vel, og var framboð kvikmyndanna fjölbreytt og áhugavert.
Leikna stuttmyndin No Homo í leikstjórn Guðna Líndal Benediktssonar var í kvöld valin besta íslenska stuttmyndin á Reykjavík Shorts and Docs hátíðinni. Átta íslenskar stuttmyndir kepptu um verðlaunin. Auk No Homo voru sérstök dómnefndarverðlaun veitt Valdimar Jóhannessyni fyrir mynd hans Dögun. Í dómnefnd sátu Marcin Lucaj dagskrárstjóri Shortwaves Festival í Póllandi, Silje Glimsdal sölufulltrúi hjá Trust Nordisk í Danmörku og Alexander Stein stjórnandi og dagskrársstjóri Interfilm International Short Film Festival í Berlín í Þýskalandi.
Heimildamyndin A World Not Ours í leikstjórn Mahdi Fleifel var valin besta heimildamynd nýliða á hátíðinni. Alls kepptu sex myndir um verðlaunin en þriggja manna dómnefnd valdi verðlaunamyndina. Dómnefndina skipuðu; Margrét Jónasdóttir, framleiðandi hjá Sagafilm, Vera Sölvadóttir, dagskrárgerðarkona á RÚV og kvikmyndagerðarkona og Haukur Viðar Alfreðsson, blaðamaður og kvikmyndagagnrýnandi á Vísi.is og Fréttablaðinu. Nánar er hægt að lesa um hátíðina hér: Næsta hátíð verður haldin dagana 3.- 9. apríl 2014 og hægt er að fylgjast með á Facebook hér:
EVRÓPSK KVIKMYNDAHÁTÍÐ 2013 – yfir 2000 gestir sóttu hátíðina heim
Evrópskir kvikmyndagerðarmenn halda áfram að vera fremstir meðal jafningja þegar kemur að frábærum og áhugaverðum kvikmyndum. Evrópsku kvikmyndahátíðinni (European Film Festival Iceland / EFFI), sem fram fór í Bíó Paradís dagana 19.-29. september 2013, var ætlað að gefa þverskurð af því besta sem álfan hefur uppá að bjóða innan kvikmyndagerðar á síðustu misserum. Hátíðin er haldin á vegum Evrópustofu – Upplýsingamiðstöðvar ESB á Íslandi í samstarfi við Bíó Paradís. Yfir 2000 bíógestir sóttu hátíðina heim. Boðið var upp á 12 nýjar og nýlegar myndir frá Evrópu, sérstaka barnadagskrá í fyrsta sinn auk glæsilegra sérviðburða fyrir alla fjölskylduna.
Heiðursgestur hátíðarinnar í ár var pólska kvikmynda- og sjónvarpsleikstýran Agnieszka Holland sem einnig er vel þekktur handritshöfundur en hún einna þekktust fyrir framlag sitt til pólitískrar kvikmyndagerðar. Hún er ein af fáum starfandi kvenleikstjórum í Hollywood sem hefur getið sér gott orð í listrænni og pólitískri kvikmyndagerð.álfan hefur uppá að bjóða innan kvikmyndagerðar á síðustu misserum.
Meðal annarra sérviðburða hátíðarinnar var sérstök mótttaka fyrir börn í tilefni frumsýningar lettnesku barnamyndarinnar „Mamma ég elska þig“ (Mother, I Love You) og fjörug dansveisla til heiðurs evrópskrar dansmenningar í kjölfar sýningar heimildamyndarinnar „Shut Up and Play the Hits“. Þetta er í annað sinn sem Bíó Paradís stóð fyrir Evrópskri Kvikmyndahátíð í samvinnu við upplýsingamiðstöð ESB á Íslandi og eins og í fyrra, var þjóðinni boðið í bíóferð til Evrópu við setningu hátíðarinnar. Það er okkar von að Evrópsk Kvikmyndahátíð verði að árlegum viðburði þar sem kastljósinu er beint að evrópskri kvikmyndagerð og menningu. Evrópulönd eru stærstu samstarfsaðilar Íslands í kvikmyndagerð. Boðið var upp á 12 nýjar og nýlegar myndir frá Evrópu auk eldri mynda í leikstjórn heiðursgestsins Agnieszku Holland. Almennt miðaverð á EFFI var 700 kr.
EVRÓPSKIR KVIKMYNDADAGAR Á AKUREYRI
Evrópskir kvikmyndadagar voru haldnir í annað sinn á Akureyri og hefjast 24. október. Það er kvikmyndaklúbburinn KvikYndi sem stóð fyrir hátíðinni í samstarfi við Evrópustofu, Sambíó Akureyri og Bíó Paradís. „Evrópskir kvikmyndagerðarmenn eru fremstir meðal jafningja í hinum fjölbreytilega heimi kvikmyndanna og við erum afar stolt af því að geta boðið Akureyringum að sjá nokkrar af nýjustu og ferskustu evrópsku myndunum,“ sagði Arnar Már Arngrímsson, formaður KvikYndis og bætir því við að myndirnar séu sérstaklega valdar með fjölbreytileikann í huga en einnig séu allar myndirnar margverðlaunaðar á ýmsum kvikmyndahátíðum.
AUSTURRÍSKI LEIKSTJÓRINN ULRICH SEIDL TIL ÍSLANDS
Helgina 22. – 24 nóvember nóvember heimsótti hinn margverðlaunaði austurríski leikstjóri Ulrich Seidl Bíó Paradís þar sem hann opnaði síðustu myndina í Paradísar tríólógíunni Paradís: Von. Paradísar tríólógía Seidl hefur hlotið fjölda verðlauna, Paradís: Ást keppti til aðalverðlauna Palme d´Or árið 2012 á Kvikmyndahátíðinni í Cannes, Paradís: Trú vann sérstök verðlaun dómnefndar á kvikmyndahátíðinni í Feneyjum árið 2012 en var jafnframt tilnefnd til aðalverðlauna hátíðarinnar Gullna ljónsins. Paradís: Von var frumsýnd og keppti til aðalverðlauna á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í Berlín árið 2013 ásamt því að hún var sýnd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðini í Toronto sama ár.
Myndirnar hafa tekið á áleitnum og erfiðum viðfangsefnum, og er Ulrich talinn vera einn sá helsti áhrifamaður heimildamyndagerðar og leikinna kvikmynda sem sækja áhrif til raunverulegrar nálgunnar listfengnar túlkunnar á fólki, aðstæðum, andrúmslofti og þeirrar listar að segja sögu í kvikmynd. Helgina 22. – 24. nóvember voru sýndar eldri myndir úr smiðju Seidl, ásamt því að allar myndir Paradísatríólógíunnar verða sýndar.Hinn merki leikstjóri var jafnframt heiðraður í Bíó Paradís. Til gamans má geta að Paradís: Ást er ein fjölsóttasta mynd sem hefur farið í sýningu í kvikmyndahúsinu frá upphafi.
RÚSSNESKIR KVIKMYNDADAGAR Í BÍÓ PARADÍS
Rússneska kvikmyndadagar voru haldnir í fyrsta skipti í Bíó Paradís, 26. -30. október. Sýningarnar voru hluti af 70 ára afmælisdagskrá stjórnmálasambands Rússlands og Íslands, og var boðið upp á fjölbreytta dagskrá nýrra og nýlegra rússneskra kvikmynda. Nánar er hægt að lesa um Rússneska Kvikmyndadaga hér:
RÚMENSKIR KVIKMYNDADAGAR Í BÍÓ PARADÍS
Á kvikmyndasýningum rúmenskra menningardaga kenndi ýmissa grasa, m.a. var boðið upp á hnyttnar gamanmyndir, strórbrotnar dramamyndir, alþjóðlega frumsýningu og sérstaka heimsókn hins þekkta leikstjóra Stere Gulea, en á dagskrá voru þær myndir sem mesta athygli hafa vakið frá Rúmeníu undanfarin misseri. Dagarnir fóru fram 10. – 12. október 2013. Nánar er hægt að lesa um Rúmenska Kvikmyndadaga hér:
FILIPÍSKT KVIKMYNDAKVÖLD
Tvær filipískar verðlaunamyndir voru sýndar í Bíó Paradís miðvikudaginn 12. júní á vegum filipískra menningarsamtaka á Íslandi. Nánar er hægt að lesa um Filipískt kvikmyndakvöld hér:
Kúbönsk Kvikmyndavika var haldin í Bíó Paradís dagana 21. – 26. nóvember. Sýndar voru sex nýlegar kvikmyndir, allar með enskum texta. Kúbanir hafa framleitt töluvert af kvikmyndum síðan 1960, sérstaklega fyrstu árin eftir byltingu og síðustu tvo áratugi samfara endurmati á ýmsu sem aflaga hafði farið á Kúbu. Ein þeirra var kvikmynd Tomás Gutiérrez Aléas, Jarðaber og súkkulaði (1994) sem tilnefnd var til Óskarsverðlaunanna. Kvikmyndavikan var mjög vel sótt. Á opnunarhátíðinni sýndi Salsa Iceland listir sínar. Nánar er hægt að lesa um Kúbanska Kvikmyndaviku hér:
BÍÓ PARADÍS STAFRÆNVÆDDIST Á ÁRINU
Langþráður draumur kvikmyndaunnenda og stuðningsaðila Bíó Paradísar hefur nú ræst, en í haust var nýr stafrænn sýningarbúnaður tekinn í notkun ásamt nýju og fullkomnu hljóðkerfi. Verið velkomin í nýja stafrænvædda Bíó Paradís!
KVIKMYNDAFRÆÐSLA FYRIR BÖRN OG UNGLINGA
Bíó Paradís stendur fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga sex vikur í senn á hvorri önn skólaársins. Sýningar eru á fimmtudögum kl. 10:00 (fyrir börn 1. – 6. bekk) og kl. 13:00 (fyrir 7. – 10. bekk). Verkefnisstjóri er Oddný Sen, kvikmyndafræðingur.
Tilgangurinn með sýningunum er að veita börnum og unglingum möguleika á að kynnast kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru ýmist klassískar perlum frá öllum skeiðum kvikmyndasögunnar og eru lykilkvikmyndir sem hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar. Þannig verða sýndar myndir frá Bandaríkjunum, Evrópu, Norðurlöndum, Austurlöndum, Íslandi og öllum heimsins hornum. Á undan hverri sýningu er haldinn fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt hugmyndum að ritgerðum og umsögnum barnanna um kvikmyndirnar. Leitast er við að skoða margvísleg temu eins og unglingsárin, tengsl nútíma kvikmynda við kvikmyndasöguna, úrvinnslu tilfinninga, félagsleg tengsl, samfélagsleg tengsl, einelti, listsköpun, sjónarhorn og uppsetningu svo fátt eitt sé nefnt.
Þessar skólasýningar hófust veturinn 2011-2012 í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skóla. Þær eru í gangi í október-nóvember og febrúar-mars ár hvert og hafa gengið gríðarlega vel og hafa kennarar, foreldrar og nemendur hrósað aðstandendum kvikmyndafræðslunnar afar mikið síðan að þær hófust. Nánari upplýsingar veitir Oddný Sen oddnysen@gmail.com kvikmyndafræðingur og verkefnastjóri kvikmyndafræðslunnar í Bíó Paradís.
SVARTIR SUNNUDAGAR Á BLÚSSANDI SIGLINGU
Þeir Hugleikur Dagsson og Sigurjónarnir tveir, Kjartansson og Sigurðsson (Sjón) er stofnuðu kult og klassík hópinn Svarta sunnudaga, standa fyrir vikulegum kvikmyndasýningum í Bíó Paradís á sunnudagskvöldum í vetur. Síðasti vetur gekk vonum framar, þar sem fjöldinn allur mætti á mjög fjölbreytta og beitta dagskrá sem í boði var.
Í hverri viku sér nýr listamaður um plakatahönnun Svartra Sunnudaga, og er sölusýning þeirra plakata síðastliðins veturs aðgengileg í innra rými Bíó Paradís. Fyrir þeim félögum vakir að auðga bíómenningu borgarinnar og njóta lífsgæðanna sem felast í því að klassískar kult myndir séu sýndar í reykvískum bíósal a.m.k. einu sinni í viku. Fylgist með á Facebook síðu Svartra Sunnudaga hér: Myndin er tekin við opnun plakatasýningu Svartra Sunnudaga síðastliðið vor. Sýningin er aðgengileg í innra rými Bíó Paradísar.
YOU ARE IN CONTROL
Hin árlega ráðstefna You Are In Control var haldin í 6. sinn í Bíó Paradís 28. – 30. október 2013. Á ráðstefnunni mættust skapandi greinar, s.s. hönnun, tónlist, bókmenntir, tölvutækni, kvikmyndagerð og myndlist með nýjar og spennandi hugmyndir og dýfa sér í skapandi suðupott. Ráðstefnan er bræðsla af listamönnum og skapandi frumkvöðlum í bland við erlenda gesti og þátttakendur á heimsmælikvarða. Fyrirlestrar, vinnustofur, pallborðsumræður, gagnvirkur hádegisverður, myndlistarsýning og margt fleira var hluti af YAIC 2013.
TOWER OF BABEL OG CAFÉ PARADÍS
Á miðvikudagskvöldum hefur áhugavert fólk sem á rætur sínar að rekja, víðsvegar að úr heiminum staðið að félagslegum viðburðum í Bíó Paradís, miðvikudagskvöld kl 20:00. Félagsskapurinn kallar sig Tower of Babel og hafa viðburðirnir tekist mjög vel og verið fjölsóttir. Viðburðirnir eru reglulega tilkynntir á vefsíðu Café Paradís á Facebook hér en á kaffihúsi Bíó Paradís er „happy – hour“ alla daga frá kl 17:00 – 19:30 og frítt wi fi internet.
FYRSTA ÞRÍVÍDDARSÝNINGIN Í BÍÓ PARADÍS
Fyrsta þrívíddarsýning Bíó Paradís, var sýning á 50 ára afmælisþætti vísinda skáldsagnaþáttarins Doctor Who: The Day of the Doctor, og er sýningin nú komin í Heimsbetabók Guinness. Um stærstu samræmdu útsendingu var að ræða á leiknum sjónvarpsþætti, en hann var sýndir í 94 löndum samtímis! Sýningin gekk vonum framar en þátturinn var sýndur í viku eftir frumsýningu, vegna mikillar eftirspurnar.
ÁSA BALDURSDÓTTIR VALIN Í DÓMNEFND Á NORDISK PANORAMA
Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradís, var valin í dómnefnd í flokknum New Nordic Voices á stutt- og heimildakvikmyndahátíðinni Nordisk Panorama 2013, sem haldin var 20. – 25. september 2013. Nordisk Panorama, stærsta stutt- og heimildamyndahátíð Norðurlanda hefur verið haldin til skiptis í Oulu, Reykjavík, Árósum, Bergen og Málmey síðastliðin 23 ár, en fékk á þessu ári fastan samastað í Málmey í Svíþjóð.
Rjóminn af norrænum stutt- og heimildamyndum er jafnan sýndur á Nordisk Panorama og hátíðina sækja árlega um 700 fagmenn frá meira en 20 löndum. Dagskráin í ár var að venju fjölbreytt, bæði fyrir lærða og leika, því auk fjölda kvikmyndasýninga var efnt til málstofa, pallborðsumræðna, námskeiða, markaðskynninga og fyrirlestra svo fátt eitt sé talið.
ÁSA BALDURSDÓTTIR Í DÓMNEFND STREAMS
Evrópska kvikmyndahátíðin Streams var haldin í annað skiptið árið 2013. Hátíðin var samtímis í 9 löndum og fór fram á netinu. Hún var haldin hér á landi í fyrsta skipti og var hægt að horfa á myndir á hátíðinni á Icelandic Cinema Online (cinema.is) frá 15. nóvember til 15. desember 2013.
Þátttakendur í hátiðinni voru níu VoD vefir (platforms) í Evrópu. Þeir eru: UniversCiné (Frakkland), Flimmit (Austurríki), Volta (Írland), leKino.ch (Sviss), Filmin (Spánn), UniversCiné.be (Belgíu), Netcinema (Búlgaría), Icelandic Cinema Online (Ísland) og Good!Movies (Þýskalandi). Framlag Íslands á hátíðina var XL eftir Martein Þórsson. Einn aðili er skipaður í dómnefnd frá hverju aðildarlandi og var Ása Baldursdóttir, dagskrárstjóri Bíó Paradís, í dómnefnd fyrir hönd Icelandic Cinema Online.
HRÖNN SVEINSDÓTTIR Í DÓMNEFND Á BERLÍNARHÁTÍÐ
Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís, var valin í dómnefnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Berlín –Berlinale fyrir Europa Cinemas label verðlaunin. Hátíðin verður haldin 6. – 16. febrúar 2014 næstkomandi og er einn af stærstu kvikmyndaviðburðum í Evrópu og í heiminum öllum. Europa Cinemas hefur frá árinu 2003, veitt ákveðnum kvikmyndum viðurkenningu til þess að efla kynningu, dreifingu og aðsókn á evrópskum verðlaunamyndum í kvikmyndahúsum um alla Evrópu. Viðurkennningin er veitt á vegum sérlegrar dómnefndar sem skipuð er af meðlimum samtakanna til einnar evrópskrar kvikmyndar á fimm stærstu kvikmyndahátíðum í Evrópu: á Panorama á Berlinale, Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Berlín, á Director´s Fortnight á Kvikmyndahátíðinní Cannes, East of the West og aðalkeppnisflokknum (Official Competition) á Karlovy Vary Alþjóðlegri kvikmyndahátíð, og Giornate Degli Autori á Kvikmyndahátíðinni í Feneyjum.
Verðlaunin eru veitt á mjög dýrmætu augnabliki, því stökkpallur evrópskra kvikmynda er á kvikmyndahátíðum til þess að þær öðlist viðurkenningar og athygli dreifingaraðila víðsvegar um heim.
„Þetta er frábær viðurkenning, því það er eftir því tekið hversu mikilvægt og metnaðarfullt starf fer fram hér í Bíó Paradís. Dagskrárgerðin hér í bíóinu hefur svo sannarlega sótt í sig veðrið og hafa Evrópskrar verðlaunakvikmyndir verið sýndar hér í bíónu ásamt gríðarlega öflugri sérdagskrá. Þetta er mikil stuðningsyfiryfirlýsing frá Europa Cinemas við starfsemi fyrsta og eina listræna kvikmyndahússins á Íslandi, Bíó Paradís. Við fögnum þessu mjög, að dagskrárgerðin okkar sé að vekja athygli erlendis og að alþjóðlegir aðilar horfi til okkar í því samhengi að veita evrópskri kvikmynd sérstaka viðurkenningu á Berlínarhátíð“, segir Hrönn Sveinsdóttir, framkvæmdastjóri Bíó Paradís.