Bíó Paradís á VOD leigu Vodafone!
Bíó Paradís opnar sérstaka Bíó Paradís VOD rás á Leigunni hjá Vodafone þriðjudaginn 28. janúar. Boðið verður upp á dagskrá áhugaverðra kvikmynda frá öllum heimshornum sem koma til með að auka framboð kvikmynda á íslenskum leigumarkaði. Þetta er í fyrst skiptið sem Bíó Paradís fer þessa leið með það að leiðarljósi að þjóna betur kvikmyndaunnendum á landsbyggðinni og þeim sem heima sitja.
5 myndir verða í boði frá 28. janúar en fleiri myndir munu bætast við á næstu vikum.
„Þetta er stórkostleg nýung í okkar starfi. Það hefur lengi verið okkar draumur að bjóða upp á kvikmyndir á öðrum vettvangi, sér í lagi þar sem að ekki geta allir sótt Bíó Paradís svo auðveldlega. Við bjóðum upp á evrópskar verðlaunamyndir, stórkostlegar heimildamyndir, og áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum hér í Bíó Paradís og er það okkar einlæga von að VOD rásin eigi eftir að auðga aðgengið að rjómanum, á auðveldann og handhægann máta. Það ættu allir að fylgjast vel með VOD Bíó Paradís á Leigu Vodfone,“ segir Ása Baldursdóttir, dagsskrárstjóri Bíó Paradís.
Í boði frá 28. janúar:
Berberian Sound Studio: Sálfræðitryllir í leikstjórn Peter Strickland sem segir frá Gilderoy, virðulegum breskum effektahljóðmanni sem fenginn er til að vinna að hljóðrás ítalskrar hrollvekju. Sér til mikillar hrellingar uppgötvar hann að lífið fer að líka eftir listinni og hinir skelfilegu atburðir myndarinnar færast yfir í raunveruleikann.
Ernest og Celestína: Mynd um óvenjulegt og sérstakt vinasamband músarinnar Celestínu og bjarnarins Ernest. Myndin er unnin úr vatnslita hreyfimyndum og hefur ferðast á margar af helstu kvikmyndahátíðum heim en hún er byggð á barnasókaseríu eftir teiknarann og höfundinn Gabrielle Vincent. Ernest og Celestína var nýlega tilnefnd til Óskarsverðlauna sem Besta teiknimynd árisins 2013. Myndin er talsett á íslensku af Stúdíó Sýrland.
Paradís: Ást: Paradís: Ást (Paradies: Liebe) er fyrsta myndin í Paradísar tríólógíu austurríska leikstjórans Ulrich Seidl. Myndin segir sögu 50 ára gamallar konu, Teresu, sem ferðast til Kenýa sem kynlífsferðamaður. Í Kenýa eru konur eins og Teresa þekktar sem „sykur-mömmur“, en í myndinni eru ýmis áleitin atriði ávörpuð sem og menningarheimarnir tveir mátaðir saman.
Pussy Riot: Pönkarabæn: Myndin er tekin upp yfir nokkurra mánaða tímabil og sýnir ótrúlega sögu þriggja ungra kvenna sem skipa feminísku pönkhljómsveitina Pussy Riot. Þær fluttu verkið „Punk Prayer“ í dómkirkjunni í Moskvu, en í kjölfarið voru þær handteknar og réttarhöld yfir þeim hófust. Myndin sýnir ótrúleg áður óséð myndskeið frá baráttu þeirra í Rússlandi og hvernig alþjóðasamfélagið hefur brugðist við í kjölfarið.
Äta sova dö: Borða sofa deyja: Myndin fjallar um Rösu sem er tvítug og býr með föður sínum í litlum bæ á Skáni. Hún vinnur í verksmiðju þar sem óttinn við fjöldauppsagnir er alltaf viðloðandi. Myndin sýnir fram á gleði og sorg kynslóða innflytjenda í Svíþjóð, í félagslegum raunveruleika.
Væntanlegt á VOD rás Bíó Paradísar:
Chicken With Plums: Önnur mynd Marjane Satrapi sem áður gerði hina frábæru Persepolis. Myndin gerist í Teheran árið 1958 og segir frá Nasser Ali Khan, einum dáðasta tónlistarmanni síns tíma. Khan hefur verið með böggum hildar síðan ástkær fiðla hans eyðilagðist. Hann finnur ekkert hljóðfæri sem jafnast á við hana og ákveður því að leggjast í rúmið og bíða dauða síns. Meðan á biðinni stendur gleymir hann sér í margskonar hugleiðingum, minningum og draumum, ásamt því að engill dauðans kemur í heimsókn og sýnir honum framtíð barna hans. Smám saman raðast brotin saman og hið undursamlega leyndarmáli lífs hans kemur í ljós; dásamleg ástarsaga sem blés honum snilldarverkum í brjóst.
Kriegerin: Marisa er tvítug þýsk kona sem hatar útlendinga, gyðinga, lögguna og alla sem henni finnst að eigi sök á hnignun þýsku þjóðarinnar. Hún kann best við sig í nýnasista klíkunni sem hún er í, en þar eru hatur, ofbeldi og taumlaus veisluhöld daglegt brauð.
Ti timer til paradis: Dennis er 38 ára kraftajötun sem leitar að ástinni. Hann hefur aldrei verið við kvenmann kenndur og býr með móður sinni í úthverfi Kaupmannahafnar. Þegar frændi hans giftist tælenskri stúlku ákveður Dennis að freista gæfunnar. Hann heldur til Tælands þar sem ástin sýnist fremur innan seilingar en heima. Hann veit að móðir sín mun aldrei samþykkja aðra konu í hans lífi svo hann segir henni að hann þurfi að skreppa til Þýskalands. Dennis hefur aldrei áður komið út fyrir landsteinanna þannig að hið iðandi mannlíf á Pattaya ströndinni reynist honum allnokkur raun. Hispurlausar tælenskar meyjar stúta þeirri barnslegu mynd sem Dennis hefur komið sér upp af ástinni og hann er við það að missa alla von þegar hann rekst óvart á Toi, tælenska konu sem rekur líkamsræktarstöð.
Wadjda: Wadjda (Waad Mohammed) er hress og kát 10 ára stúlka. Hana dreymir um að eignast reiðhjól og hefur augastað á einu slíku en móðir hennar og kennari benda henni á að slíkt tæki sé ekki ætlað stúlkum. En Wadjda er staðráðin í að láta draum sinn rætast og eygir möguleika í stöðunni þegar efnt er til verðlaunasamkeppni í skólanum. Á meðan bíður mamma hennar (Sádí arabíska sjónvarspsstjarnan Reem Abdullah) milli vonar og ótta eftir ákvörðun eiginmanns síns um frekara kvonfang þar sem hún hefur ekki getað borið honum son.