Fullt hús á opnun Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar 2014
Það var óneitanlega fullt út úr húsi á opnunarmynd Alþjóðlegrar Barnakvikmyndahátíðar í ár, hinni stórskemmtilegu ofurhetjumynd Antboy.
Lalli töframaður, töfraði alla upp úr skónum á meðan gestir gæddu sér á karamellupoppi, Svala og brownies. Kúrudýrin ljónsunginn og fröken kanína úr myndinni Andri og Edda verða bestu vinir sem frumsýnd verður á morgun kl. 16.30 heilsuðu upp á börnin.
Vigdís Finnbogadóttir verndari hátíðarinnar sagði nokkur vel valin orð og benti á mikilvægi þess að bjóða börnum upp á brot af því besta í alþjóðlegri barnakvikmyndagerð. Jón Gnarr borgarstjóri setti svo hátíðina með glæsibrag í einni af sínum ógleymanlegu ræðum.
Ágúst Örn Wigum leikari og leiklesari aðalpersónunnar Palla steig á svið og svaraði nokkrum spurningum úr sal. Hann er sannkölluð hetja.