Harrý & Heimir: Morð eru til alls fyrst
- Tegund og ár: Gamanmynd, 2014
- Lengd: 85 mín.
- Land: Ísland
- Leikstjóri: Bragi Þór Hinriksson
- Aðalhlutverk: Karl Ágúst Úlfsson, Sigurður Sigurjónsson, Svandís Dóra Einarsdóttir
- Dagskrá: Nýjar myndir
- Sýnd: 12. júní 2014
Efni: Harrý og Heimir unnu hugi og hjörtu íslensku þjóðarinnar í útvarpsþáttum seint á síðust öld. Þeir hafa síðan verið gefnir út á stafrænum hljóðdiski og meira að segja gerst svo frægir að koma fram í eigin sviðsverki um sig sjálfa. Leikritið um Harrý og Heimi sló algjörlega í gegn í Borgarleikhúsinu árið 2009, en sýningarnar urðu samtals 150. Nú er ný öld, og mætti jafnvel segja að öldin sé önnur, nú er aðeins einn miðill eftir. Sá öflugasti og sá eftirsóttasti. Árið er núll í íslenskri kvikmyndagerð. Harrý og Heimir eru á leið í bíó, en myndin ber titilinn Harrý og Heimir- morð eru til alls fyrst! Hér getur þú keypt miða rafrænt:
Þessi mynd er svo stór að í samanburði við hana verða allar aðrar myndir eins og passamyndir. Saga um vináttu, fórnfýsi, tryggð, frosnar bunur og óheyrilega veðurfræði. Söguþráðurinn er eitthvað á þessa leið ef okkur skjátlast ekki: Þokkadísin Díana Klein leitar ásjár hjá einkaspæjurunum Harrý og Heimi, þar sem faðir hennar, sem er veðurathugunarmaður á Regingnípu, virðist hafa horfið sporlaust. Harrý og Heimir leggja í leiðangur upp á hálendið og tekst að stöðva svívirðilegt samsæri danskra skíðaáhugamanna um að stela íslenska hálendinu og flytja það úr landi.
Aðalhlutverk eru í höndum Karls Ágústs Úlfssonar, Sigurðar Sigurjónssonar, Arnar Árnasonar og Svandísar Dóru Einarsdóttur. Að auki koma svið sögu Stefán Karl Stefánsson, Ólafur Darri Ólafsson, Kjartan Guðjónsson og Þröstur Leó. Leikstjórn er í höndum Braga Hinrikssonar.