Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík
ALÞJÓÐLEG BARNAKVIKMYNDAHÁTÍÐ Í REYKJAVÍK
Ofurhetja, bestuvinir, rjómi evrópskra verðlaunamynda, stuttmyndir, Sveppi og Villi og allskyns sérviðburðir, Camera Obscura á Alþjóðlegri Barnakvikmyndahátíð í Reykjavík!
Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík er nú haldin í Bíó Paradís í annað sinn. Þetta er fyrsta hátíð sinnar tegundar á Íslandi en í fyrra tók Bíó Paradís á móti yfir 3000 börnum á hátíðina og ljóst er að með hátíðinni hafi verið fyllt upp í ákveðið tómarúm í barnamenningu landsmanna.
Sýndar verða áhugaverðar myndir um allt milli himins og jarðar. Leiknar myndir, teiknimyndir, heimildamyndir og stuttmyndir fyrir börn á öllum aldri auk sérviðburða í tengslum við hátíðina.
Að þessu sinni verða 8 nýjar barnakvikmyndir sýndar auk 5 erlendra og 2 íslenskra stuttmyndapakka sem hver og einn er sérsniðinn að ólíkum aldurshópum.
Opnunarmynd hátíðarinnar að þessu sinni er hin stórskemmtilega ofurhetjumynd Antboy (2013) eftir Ask Hasselbalch sem er ein áhugaverðasta barnamynd í Evrópu í dag. Hún hlaut nýlega Róberts verðlaun dönsku kvikmyndaakademíunnar 2014 sem besta barnamyndin. Leiklesari aðalpersónunnar Palla er Ágúst Örn Wigum sem tilnefndur var til Eddu verðlaunanna 2014 og verður hann viðstaddur opnun Alþjóðlegrar barnakvikmyndahátíðar þar sem gestum gefst færi á að spyrja hann út í leikaralífið eftir sýningu myndarinnar.
Fyrir yngstu kynslóðina verður skygnst inn í vináttu félaganna Andra og Eddu (Karsten og Petra blir bestevenner – 2013) eftir Arne Lindtner Næss en kúrudýrin þeirra Andra og Eddu, ljónsunginn og fröken kanína, eru búin að koma sér vel fyrir í Bíó Paradís og verða á vappinu yfir hátíðina.
Á meðal sérviðburða mun heillandi heimur Manga hryllingsmynda opnast upp fyrir unglingunum í hinni sígildu Vampire Hunter D: Bloodlust (2000) eftir Yoshiaki Kawajiri.
Slökkviliðið mætir í Bíó Paradís 21. mars kl. 16.30
Fyrir yngstu kynslóðina verður skygnst inn í vináttu félaganna Andra og Eddu (Karsten og Petra blir bestevenner – 2013) eftir Arne Lindtner Næss en bangsar þeirra Andra og Eddu, ljónsunginn og fröken kanína, eru búin að koma sér vel fyrir í Bíó Paradís og verða á vappinu yfir hátíðina. Sérstakt frumsýningartilboð verður fyrir leikskólabörn 21. mars. Popp og svali verða í boði Norska sendiráðsins en tilboðsverð er 500 kr fyrir börn og 1000 kr fyrir fullorðna. Slökkviliðið verður á staðnum með slökkvibíl sem hægt er að skoða og fræðast um. Opnunarhátíðin hefst kl. 16.30 en myndin Andri og Edda verða bestu vinir hefst kl. 17.00.
Á meðal sérviðburða mun heillandi heimur Manga hryllingsmynda opnast upp fyrir unglingunum í hinni sígildu Vampire Hunter D: Bloodlust (2000) eftir Yoshiaki Kawajiri 29. mars kl. 20.00.
Camera Obscura
Camera Obscura verður til sýnis á meðan hátíðinni stendur þar sem gestum og gangandi gefst kostur á að skoða þetta undur. Camera Obscura þýðir í raun dimmt herbergi og er fyrst getið í heimildum 500 f.k. Hugmyndin þróaðist í meðförum Leonardo DaVinci og fleiri allt til átjándu aldar þar sem farið var að nota spegla til að myndin sneri rétt. Við verðum með svart rými fyrir gesti og gangandi sem geta farið fjórir saman inn og horft á fjögurra mínútu sýningu. Boðið verður upp á leiðsögn kl 15:30 laugardag 22. mars og sunnudag 23. mars.
Klassíkin er einnig ekki langt undan en The Kid eftir Charlie Chaplin mun gleðja áhorfendur auk þess sem perla Fred Neymeyer Safety last! verður sýnd við lifandi píanó undirleik Pálma Sigurhjartarsonar 30. mars kl. 18.00.
Þeir Sveppi og Villi munu kíkja í heimsókn og talsetja í beinni uppáhalds mynd sína The Goonies 23. mars kl. 16.00. Það er því tilvalið tækifæri fyrir foreldra að mæta með börnunum og endurupplifa þessa frábæru mynd í stórskemmtilegri meðför tvíeykisins.
Því er tækifæri fyrir alla fjölskylduna að koma á metnaðarfulla viðburði og njóta dagskrár í hæsta gæðaflokki. Verndari hátíðarinnar er frú Vigdís Finnbogadóttir fyrrverandi forseti Íslands, en borgarstjóri Reykjavíkur Jón Gnarr mun formlega setja hátíðina fimmtudaginn 20. mars við hátíðlega athöfn sem hefst klukkan 17:30 í Bíó Paradís.
Að hátíðinni standa Ása Baldursdóttir, dagskrástjóri hátíðarinnar, Oddný Sen, verkefnastjóri, Þór Jóhannesson verkefnastjóri og Hrönn Sveinsdóttir framkvæmdastjóri Heimilis kvikmyndanna. Dagskráin verður aðgengileg á skemmtilegum dagskrárgogg og á vef Bíó Paradís bioparadis.is
_________________________________________________________________________________
OPNUNARMYND:
Antboy
(Danmörk 2013 / Aldur 5+ / íslenska / 77 mín)
Hinn 12 ára gamli Palli er bitinn af maur og öðlast við það ofurhetjukrafta. Með hjálp vinar sínsVilhjálms lærir hann að beita þessum kröftum. Eins og í sannri ofurhetjumynd líður ekki á löngu þar til illmennið flóin stígur fram á sjónarsviðið og hefst þá barátta góðs og ills fyrir alvöru. Myndin var valin besta barna- og unglingamyndin á hinni rómuðu Robert verðlaunahátíð í Danmörku árið 2014 og var einnig tilefnd sem besta barnamyndin á kvikmyndahátíðinni í Tallinn. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar. Opnunarmynd
___________________________________________________________________
Andri og Edda verða bestu vinir
Noregur 2013 / Leikstjóri: Arne Lindtner Næss / Aðalhlutverk: Nora Amundsen, Hilde Louise Asbjørnsen, Janne Formoe / Aldur 3+ / Íslensk talsetning / 78 mín)
Þegar Andri byrjar á leikskóla kynnist hann Eddu en þau verða bestu vinir. Kúrudýrin þeirra, ljónsunginn og fröken Kanína,verða einnig vinir og þegar annað þeirra týnist á slökkvistöðinni lenda þau Andri og Edda í ýmsum ævintýrum. Myndin var tilnefnd sem besta barnamyndin á hinum norsku Amanda verðlaunum sem og að hún var tilefnd sem besta barnamyndin á kvikmyndahátíðinni í Tallinn. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar. Opnunarmynd
___________________________________________________________________
Ostwind – Austanvindur
(Þýskaland 2013 / Aldur 7+ / enskur texti / 105 mín)
Þessi fallega saga gerist á þýskum hestabúgarði. Unglingsstúlkan Mika, er komið fyrir á hestabúgarði hjá ömmu sinni, því foreldrar hennar taka þá ákvörðun að senda hana í sveit yfir sumarið. Þar kemst Mika í kynni við villtan hest sem enginn ræður við, þar til Mika kemur í sveitina. Myndin var valin besta myndin á Bæversku Kvikmyndaverðlaunahátíðinni 2014. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar.
________________________________________________________________
The Day of the Crows / Dagur krákanna
(Belgía – Frakkland – Lúxemborg – Kanada 2012 / Aldur 7+ / íslenskur texti / 96 mín)
Stórbrotin teiknimynd um dreng sem elst upp í hjarta skógarins. Þar sem einu mannlegu samskiptin eru við einsetumanninn föður hans hefur drengurinn þróað með sér hæfileika til að sjá og fylgja leiðbeiningum andanna sem búa í skóginum. Þegar faðir hans verður fyrir slysi neyðist drengurinn til að leita út fyrir skóginn og þá hefjast ævintýrin fyrir alvöru. Dagur krákanna hlaut heiðurstilnefningu á Gijón International Film Festival. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar.
________________________________________________________________
The Weight of Elephants / Þyngd fílanna
(Nýja Sjáland – Danmörk – Svíþjóð 2013 / Aldur 12+ / enskt tal / 83 mín)
Adrian er viðkvæmur og einmanna 10 ára drengur. Hann býr hjá ömmu sinni og veikum frænda eftir að móðir hans yfirgaf hann á unga aldri. Þegar jafnaldra hans, Nicole, flytur í götuna hefst merkilegur vinskapur þeirra á milli. Myndin var tilnefnd sem besta kvikmyndin í fullri lengd á Alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni í São Paulo. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar.
______________________________________________________________
On the Way to School / Á leið í skólann
(Frakkland 2013 / Aldur 6+ / íslenskur texti / 77 mín)
Þessi gríðarlega vinsæla heimildarmynd segir frá þeim Jackson frá Kenía, Carlito frá Argentínu, Zahira frá Marakkó og Samuel frá Indlandi sem eiga það eitt sameiginlegt að þurfa að ferðast hrikalega langar vegalengdir til þess eins að komast í skólann. Myndin vann hin virtu Cesar verðlaun árið 2014 sem besta heimildamyndin. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar.
____________________________________________________________________
Clara and the Secret of the Bears / Klara og leyndarmál bjarndýranna
(Sviss 2012 / Aldur 8+ / enskur texti / 93 mín)
Hin 13 ára Clara býr við rætur svissnesku Alpanna ásamt móður sinni og stjúpföður. Fljótlega áttar hún sig á að það liggur bölvun yfir sveitabænum vegna verka forfeðranna en til að aflétta henni þarf Clara að koma á sáttum á milli manna og náttúru. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar. Myndin vann áhorfendaverðlaun á Alþjóðlegu Barnakvikmyndahátíðinni Buster í Danmörku, og hefur auk þessa unnið til fjölda verðlauna m.a. á Giffoni Kvikmyndahátíð, Alþjóðlegu Barnakvikmyndahátíðinni í Montreal og Kvikmyndahátíðinni í Tallinn.
____________________________________________________________________
Believe / Fótboltadraumar
(Bretland 2013 / Aldur 7+ / enskt tal / 94 mín)
Stórkostleg mynd um dreng í Manchester árið 1984 sem á sér draum að keppa á stórmóti í fótbolta. Hjálpin berst úr óvæntri átt þegar Manchester United þjálfarinn Matt Busby tekur það að sér að aðstoða liðið við að komast alla leið. Myndin er tilnefnd til áhorfendaverðlauna hátíðarinnar. Myndin var valin besta barnamyndin á Kvikmyndahátíðinni í Zurich og var tilnefnd sem besta barnamyndin á Kvikmyndahátíðinni í Tallinn 2013.
____________________________________________________________________
Skýjahöllin
(Ísland 1994 / Allur aldur / íslenska / 85 mín)
Emil er átta ára strákur sem langar að eignast hvolp. Pabbi hans gefur samþykki sitt gegn því að að Emil safni fyrir honum sjálfur. Pabbi hans trúir nefnilega ekki að honum takist að safna fyrir hvolpinum.
_____________________________________________________________________
Benjamín dúfa
(Ísland 1995 / Allur aldur / íslenska / 91 mín)
Í myndinni segir frá fjórum vinum og viðburðaríku sumri í lífi þeirra. Regla rauða drekans er stofnuð og þeir Róland dreki, Andrés örn, Baldur hvíti og Benjamín dúfa hafa nóg fyrir stafni í baráttu sinni gegn ranglæti.
_________________________________________________________________
Alþjóðlegar verðlaunastuttmyndir – 1
(Aldur 5+ / án tals/ 54 mín)
Í pakkanum fyrir yngstu börnin eru sjö myndir frá fjórum löndum. Allar myndirnar hafa verið sýndar á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heim. Á meðal þeirra er franska perlan Monsterbox sem segir frá lítilli stúlku sem leitar að þaki yfir höfuðið á skrímslunum sínum.
Colosse – Saga af spítustrák (Colosse – The wood tale) 3 mín – bandarísk 2012 – án tals
Það er ekki tekið út með sældinni að vera 30 feta stór spítuvélmennisstrákur! Sérstaklega þegar maður þekkir ekki eigin styrkleika.
Týnda hljóðið (The odd sound out) 7 mín – dönsk 2013 – án tals
Sum hljóð eiga erfiðara með að passa inn í umhverfi sitt en önnur. Þessi saga er um hljóð í leit að félagsskap.
Fluttur að heiman (Leaving home) 7 mín – hollensk 2013 – án tals
Það kemur að þeim tímapunkti í lífi allra ungra drengja að þeir þurfi að flytja að heiman. Þessi raun er misjafnlega erfið og gengur drengjum misjafnlega vel að stíga skrefið til fullnustu.
Jansen bóndi (Boer Jensen) 14 mín – hollensk 2013 – án tals
Þegar Jansen bóndi kaupir sérstakt orkufóður fyrir dýrin á búgarðinum eykst framleiðslan til muna. En með aukinni framleiðslu lækkar líka verðið á afurðunum og álagið á dýrin verður meira. Er orkufóðrið bara draumur í dós?
Kubbarnir (Tumblies) 5 mín – hollensk 2013 – án tals
Einföld og skemmtileg mynd um spítukubba sem er ýmislegt til lista lagt. Hvernig væri t.d. að nota morgunverðarskál sem hjólabrettaramp?
Að eiflífu látbragð (Forever mime) 10 mín – hollensk 2013 – án tals
Látbragðsleikari hrífst af afgreiðslustúku í sölubás í Tívolíi. Sér til ama áttar hann sig á að stúlkan á annan vonarbiðil og það sem verra er – sá er einnig látbragðsleikari. Það getur bara endað á einn veg – með látbragðseinvígi.
Skrímslakassi (Monsterbox) 8 mín – frönsk 2012 – án tals
Allir þurfa samastað. Líka skrímsli. En þegar skrímslin stækka verður erfiðara og erfiðara fyrir litlu stelpuna sem á skrímslin að finna fyrir þau heimili.
_____________________________________________________________
Alþjóðlegar verðlaunastuttmyndir – 2
Hér er í boði sýnishorn frá öllum heimshornum enda um að ræða sjö rómaðar myndir frá jafn mörgum löndum. Þar á meðal er hollenski gullmolinn Granny Lane sem er heldur betur skemmtileg útgáfa af klassísku sögunnu um skjaldbökuna og hérann.
Mikið, mikið betra (Much better now) 6 mín – austurrísk/ítölsk 2011 – án tals
Þegar vindurinn kemur hreyfingu á gamalt bókamerki fara sérkennilegir hlutir að gerast. Hver hefur ekki gaman að því að sjá bókamerki svífa um blaðsíðurnar á brimbretti?
Á milli línanna (Under the fold) 8 mín – dönsk 2013 – án tals
Hinn atvinnulausi Frank er við það að sökkva í þunglyndi. En barnaleg en jákvæð sýn sonar Franks á hlutina gæti verið leiðin út.
Amma úti að aka (Granny lane) 3 mín – hollensk 2012 – án tals
Gömul kona lendir óvart í götukappakstri við villinga á ofurkagga. Skemmtileg aðlögun á gömlu klassíkinni um hérann og skjaldbökuna.
Afi skrítni (My strange grandfather) 9 mín – rússnesk 2911 – án tals
Það eiga ekki allar litlar stelpur eins skrítinn og skemmtilegan afa og litla stelpan í þessum rússneska gullmola. Hér er á ferð falleg mynd um óvenjuleg samskipti á milli kynslóðanna. Er þetta ekki bara spurning um að týna ekki barninu í sjálfum sér?
Patakes (Patakes) 11 mín – frönsk 2012 – án tals
Patakes er smávaxinn indíáni, hann er hugrakkur en verulega óvenjulegur. Á veiðum veldur hann ætíð vonbrigðum og er því útskúfaður af fólkinu sínu. Síðasta von hans er að leita ráða gamallar seiðkonu.
Fullt tungl (Full moon) 9 mín – ísraelsk 2013 án tals
Saga um ungt par sem flytur inn í nýtt hús úti í miðjum skógi. Fljótlega tekur eginmaðurinn eftir háum turni í fjarska og hefst handa við að byggja hærri turn ofan á sitt eigið hús. Bygging turnsins tekur hins vegar lengri tíma en hann gat sé fyrir.
Afrakstur (Shave it) 4 mín – argentínsk 2012 – án tals
Þegar mannskepnan hefur rutt sig svo langt inn í frumskóginn að apinn á ekki lengur heimkynni hefur apinn aðeins um tvennt að velja. Hvort aðlagar hann sig heimkynnum mannsins eða berst fyrir sínum egin?
___________________________________________________________________
Alþjóðlegar verðlaunastuttmyndir – 3
(Aldur 10+ / enska/franska/spænska / 46 mín)
Sex alþjóðlegar verðlaunamyndir frá frá fjórum löndum verða sýndar. Í sumum þeirra er talað og því ágætt að hafa einhverja enskukunnáttu. Það ætti engin að láta framhjá sér fara tilvistarkreppu flamingófuglsins í þýsku perlunni Flamingo Pride sem er á meðal myndanna.
Verðlaunin (The reward) 7 mín – dönsk 2013 – án tals
Tveir þorparar finna fjársjóðskort sem rekur þá af stað í ævintýraleit. Spurning er hins vegar hvort þessi svokallaði fjársjóður sé leitarinnar virði.
Stolt flamingófuglsins (Flamingo pride) 6 mín – þýsk 2011 – enskt tal
Það er ekkert endilega tekið út með sældinni að vera flamingófugl. Þetta er saga af hetrósexúal flamingófugli í leit að ástinni.
Út fyrir kassann (Out of the ordinery) 8 mín – dönsk 2013 – enskt tal
Dagleg rútína skrifstofmannsins raskast þegar raftækin á skrifstofunni taka sig til og byrja að panta hluti sem á endanum gætu uppfyllt drauma hans.
Hundalíf (It´s a dog´s life) 8 mín – frönsk 2012 – enskt tal
Skemmtileg sýn hundsins Fífí á lífið í kringum sig. Stundum falla gómsætir bitar niður af eldhúsborðinu en stundum langar þreyttum hundi bara að fá að lesa dagblaðið í friði.
Gölluð leikföng (Los Defectuoso) 10 mín – mexíkósk 2012 – spænskt tal en lifandi þýðing á íslensku.
Aldraður leikbrúðumeistari safnar saman yfirgefnum og gölluðum leikföngum úr ruslinu. Með ástríðu og ákveðni breytir hann þessu verðlausa drasli í glæsilegar strengjabrúður. Í götuleikhúsinu öðlast dótið aftur hylli barnanna.
Björnssaga (The saga of Biorn) 7 mín – dönsk 2011 – enskt tal
Hvað fær víkinginn Björn til þess að kasta dvergi fram af klettasyllu? Til að fá svar við þessari spurningu er best að missa ekki af þessari sniðgu skopstælingu á hugsunarhætti og hegðun víkinganna.
_____________________________________________________________________
Alþjóðlegar verðlaunastuttmyndir – 4
Verðlaunastuttmyndir fyrir yngstu börnin – kynslóðinna sem hefur ekki ennþá fengið að upplifa hina yndislegu íslensku perlu Litlu lirfuna ljótu og til að gera góða skemmtun betri bætum við þremur frábærum smábarnateiknimyndum við.
Litla lirfan ljóta (Ísland 2002 / Allur aldur / íslenska og án tals / 28 mín)
Monsterbox (Frakkland 2012/ án tals/ 8 mín)
The Odd Sound Out (Danmörk 2013/ án tals/ 7 mín)
Tumblies (Holland 2013/ án tals/ 5 mín)
____________________________________________________________________
Pólskar verðlaunastuttmyndir – 5
(Pólland/ klassískar teiknimyndir /allur aldur/ án tals)
Klassískar pólskar teiknimyndir frá sjöunda og áttunda áratugnum. Myndirnar eru án tals, hreyfimyndagerð frá Austantjaldslöndunum eins og hún gerist best. Bolek og Lolek henta öllum aldri um er að ræða stórskemmtilega karaktera í ýmsum aðstæðum.
Sýningatímar: 23. mars kl. 16.00, 30 mars kl. 14.00
____________________________________________________________________
Íslenskar stuttmyndir
(Aldur 10+ / íslenska / 76 mín)
Við bjóðum upp á fjórar stórskemmtilegar stuttmyndir eftir íslenska leikstjóra. Þetta eru myndirnar Heilabrotinn, Snjór, Lítill geimfari og Ráðagóða stelpan. Ólíkar myndir eftir fjóra fagmenn.
Heilabrotinn e. Braga Þór Hinriksson (18 mín)
Heilabrotinn segir sögu ungs drengs sem hefur nýlega verið greindur með geðsjúkdóm og hvernig fjölskylda hans bregst við þeim fregnum. Á meðan myndin tekur fyrir hræðilegan sjúkdóm segir hún einnig frá styrk og von og hvernig tiltekið hugarfar getur varpað nýju ljósi á hlutina.
Snjór e. Jón Egil Bergþórsson (13 mín)
Ungur drengur vaknar, en virðist enn staddur í draumi. Þemað um Palla sem var einn í heiminum skýn hér í gegn. Hugljúf mynd sem nær að fanga tilfinningu barna um heiminn án fullorðinna.
Lítill geimfari e. Ara Alexander Ergils Magnússon (17 mín)
Stuttmynd um ungan dreng á flótta undan veruleikanum, um leitina að ást og öryggi, um óræð skilaboð utan úr geimnum og ósýnilegan vin í kjallaranum. Sagan byggir á minningum leikstjórans sjálfs og dregur upp mynd af veröld drengsins sem er knúin af fantasíu og draumum um fjarlæga heima. Amma er eini vinur hans og félagi í ferðalögum um lönd ímyndunaraflsins.
Ráðagóða stelpan e. Sigurbjörn Aðalsteinsson (28 mín)
Ráðagóða stelpan er skemmtilegt íslenskt ævintýri þar sem tveir heimar mætast. Erla, 10 ára stelpa, er nýflutt til Hafnarfjarðar. Faðir hennar er með veiðidellu og eyðir mörgum stundum í leit að ánamöðkum í Hellisgerði. Þetta hátterni fer í taugarnar á álfunum sem þar búa, því karlinn er sífellt að velta steinum sem þeir búa í. Þeir hafa því sett álög á einn steininn og þegar pabbinn veltir honum við verður hann að steini. Til að leysa föður sinn úr álögunum fær Erla til liðs við sig álfastrákinn Skorra og saman fara þau til fjalla að leita uppi fjöregg sem er í vörslu tröllanna, en með aðstoð þess er hægt að leysa karlinn úr álögum.
______________________________________________________________________
Íslenskar stuttmyndir gerðar af unglingum fyrir unglinga
(Aldur 12+ / íslenska / 64 mín)
Það er ekki skortur á íslenskum stuttmyndum gerðum af íslenskum unglingum og í samvinnu við Myndver grunnskólanna höfum við tekið saman frábæran pakka með ekta unglingastuttumyndum. Þ.á.m. er heimildarmynd um tónlistarkonuna Kolfinnu Nikulásdóttur frá því hún var sjálf unglingur, en eins og rappáhugafólk veit hefur Kolfinna m.a. getið sér gott orð með Reykjarvíkurdætrum.
Draumurinn 3:44
Unglingsstúlka liggur í dái á spítala og hægt og rólega fær áhorfandinn að vita af hverju hún er þar.
Bad Boys 5:00 mín
Morð er framið á Dúfnahólum 10 og tveir kleinhringsétandi, jakkafataklæddir sólgleraugna lögreglumenn mæta á staðinn. En eru þeir allir þar sem þeir eru séðir?
Kona 6:30 mín
Kona situr heima í þunglyndi og íhuga sjálfsvíg. Þegar hún er komin upp í Hamborgarabúlluturinn á ónotaða hæð fer hún hins vegar að sjá jákvæðari hluti og gleði í lífinu.
Dagur í lífi Reykvískrar yngismeyjar 5:24
Stórskemmtileg innsýn í huga unglingsstúlku. Stundum er dagurin ónýtur ef maður fattar ekki eitthvað einfalt og stundum reddast hann um leið og maður fattar!
Glæpir – gangið ekki á grasinu 7:11
Sjálfskipuð grasverndunarlögga tekur hlutverk sitt kannski einum og alvarlega. Sniðug mynd og skemmtileg framsetning á efni hennar.
Mad World 4:59 mín
Gullfalleg og glæsileg unglingsstúlka fer út af sporinu og endar á götunni. Átakanelg saga um ógnarheim fíknarinnar. Góður leikur aðalleikonunnar.
Bert 4:58
Skopstæling á sögunum af raunum Berts. Hnitmiðað handrit og skemmtilegur misskilningur skila góðri kómík til áhorfandans.
Lamb to the slaughter 7:29
Rannsóknalögreglukonur mæta á heimil þar sem eiginmaðurinn hefur verið myrtur. Eftir langan dag við rannsóknarvinnu sjá þær fram á að lykillinn að lausn gátunnar sé að finna morðvopnið.
In a real dark night 9:07
Þegar batteríið klárast á veggklukkunni í skólastofunni frjósa allir í sporunum, eða hvað? Stundum gefst þolendum eineltis tækifæri á að hefna sín. Fyndin atburðarás.
Um Kolfinnu 9:20 – Frábær lítil heimildamynd um unglinglingsstúlku í 10. bekk Austurbæjarskóla frá árinu 2006. Það sem gerir myndina ennþá áhugaverðari er að viðfangsefnið – Kolfinna Nikulásdóttir – er í dag einn af lykilmeðlimum stúlknarappsveitarinnar Reykjavíkurdætur.
______________________________________________________________________
The Goonies / Grallararnir
(Bandaríkin 1985 / Aldur 10+ / enska – með íslenskum leiklestri / 114 mín)
Þeir Sveppi og Villi munu kíkja í heimsókn og talsetja í beinni uppáhalds mynd sína The Goonies 23. mars kl. 16.00. Það er því tilvalið tækifæri fyrir foreldra að mæta með börnunum og endurupplifa þessa frábæru mynd í stórskemmtilegri meðför tvíeykisins. Ath. aðeins ein sýning.
____________________________________________________________________
Memoria og Vampire Hunter D: Bloodlust – Sérsýning fyrir unglinga
(Danmörk 2013 og Japan 2000 // Stranglega bönnuð innan 15 / 110 mín)
Við bjóðum upp á frábæran hrollvekjupakka sem hefst með hryllilega flottu og hræðilega svörtu stuttmyndinni Memoria sem fer með áhorfendur inn í myrkan huga manns.Strax í kjölfarið er það svo japanska manga teiknimyndin Vampire Hunter D: Bloodlust frá 2000. Frábærir karakterar, frábærar teikningar og klikkuð saga af ekkert venjulegum vampírubana.
Ath. aðeins ein sýning.
___________________________________________________________________
Safety last!
(Bandaríkin 1923 / Allur aldur / án tals / 70 mín)
Við verðum með sérsýningu á þessari stórbrotnu perlu Fred Newmeyer með Harold Lloyd þar sem hann var á hápunkti ferils síns sem „Gleraugnamaðurinn”. Myndin verður sýnd með lifandi undirleik. Það er því tilvalið að koma og upplifa klukkuatriðið fræga á hvíta tjaldinu. Ath. aðeins þessi eina sýning 30. mars kl. 18.00.
_____________________________________________________________________
The Kid
(Bandaríkin 1921 / Aldur 6+ / án tals / 68 mín)
Klassísk Charlie Chaplin mynd þar sem umrenningurinn tekur að sér munaðalaust barn. Heilu kynslóðirnar hafa legið í hlátri yfir þessari mynd auk þess sem margir hafa farið út með tár á hvarmi i lokin.
Camera Obscura
Camera Obscura þýðir dimmt herbergi og er fyrst getið í heimildum 500 f.k. Hugmyndin þróaðist í meðförum Leonardo DaVinci og fleiri allt til átjándu aldar þar sem farið var að nota spegla til að myndin sneri rétt. Við verðum með svart rými fyrir gesti og gangandi sem geta farið fjórir saman inn og horft á fjögurra mínútu sýningu. Boðið verður upp á leiðsögn kl 15:30 laugardag 22. mars og sunnudag 23. mars.
[…] Nánari upplýsingar um myndirnar má sjá hér: Alþjóðleg barnakvikmyndahátíð í Reykjavík. […]
[…] Nánari upplýsingar er að finna hér á heimasíðu Bíó Pardísar. […]
[…] Dagana 20.-30. mars er haldin barnakvikmyndahátíð í Bíó Paradís. Sýndar verða áhugaverðar myndir um allt milli himins og jarðar svo sem leiknar myndir, teiknimyndir, heimildarmyndir, stuttmyndir og fleira fyrir börn á öllum aldri. Sjá nánar hér. […]