Mögnuð plakatasýning opnuð í Bíó Paradís
Sunnudaginn 27. apríl var síðasta sýning vetrarins á dagskrá Svartra Sunnudaga. Að því tilefni var opnuð vegleg plakatasýning þar sem líta má afrakstur þeirra listamanna sem gerðu plaköt sérstaklega fyrir sýningar Svartra Sunnudaga í vetur. Hægt er að kaupa plaköt sem eru tilvalið stofustáss, tækifærisgjafir, innflutningsgjöf eða fermingargjöf.
Ýmsir listamenn lögðu hönd á plóginn á liðnum vetri, þar á meðal Sigtryggur Berg, Helgi Þórsson, Sunna Rún Pétursdóttir, Ingi Jensson, Sirrý Margrét Lárusdóttir, Harpa Rún Ólafsdóttir, Ómar Hauksson, Inga María, Þórir Celin, Sjón, Geoffrey Þ. Huntingdon-Williams, Davíð Örn Halldórsson, Snorri Ásmundsson, Evana Kisa, Bobby Breiðholt, Víðir Mýrmann, Sigmundur Breiðfjörð Þorgeirsson, Hrefna Hörn, Ragnar Fjalar Lárusson, Ragnar Hansson, Friðrik Svanur Sigurðarsson, Halldór Baldursson, Þorri Hringsson, Lilja Hlín Pétursdóttir og Eysteinn Þórðarsson. Hér er um að ræða sölusýningu og er hvert veggspjald sérprentað fyrir viðkiptavininn.
Sýningin fer fram í anddyri Bíó Paradísar fyrir framan sali tvö og þrjú. Sýningin mun standa áfram.