Warning: Declaration of description_walker::start_el(&$output, $item, $depth, $args) should be compatible with Walker_Nav_Menu::start_el(&$output, $item, $depth = 0, $args = Array, $id = 0) in /home/forge/old.bioparadis.is/public/wp-content/themes/newscast/framework/classes/description_walker.php on line 43
KVIKMYNDIR VETURINN 2014-2015

KVIKMYNDIR VETURINN 2014-2015

Aug 11, 2014 Engin skoðun

KVIKMYNDIR VETURINN 2014-2015 Í BÍÓ PARADÍS – HAUSTÖNN 2014

upphafsmyndÍ boði er kvikmyndafræðsla á föstudögum í nokkrar vikur á haustönn 2014 og vorönn 2015. Verkefnisstjóri er Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, oddnysen@gmail.com. Sýningarnar eru á föstudögum klukkan 14:15 í Bíó Paradís.

Rétt eins og kvikmyndirnar á haustönn og vorönn 2013-2014 eiga eftirtaldar kvikmyndir það sameiginlegt að hafa markað djúp spor í kvikmyndasöguna og valdið straumhvörfum í kvikmyndagerð. Í þeim endurspeglast ferskt myndmál og frásagnaraðferð þar sem finna má vísanir í ótal áttir. Hjá engri þeirra verður komist, en þær hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru frá ýmsum þjóðlöndum og eru lykilkvikmyndir sem hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar. Nemendur fá að njóta þeirra í sýningarsal í kvikmyndahúsi. Athygli er vakin á því að hægt er að nota myndirnar við tungumálakennslu.

Á undan hverri sýningu er haldinn fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt hugmyndum að ritgerðum. Leitast verður við að skoða margvísleg temu eins og úrvinnslu tilfinninga, félagsleg tengsl, samfélagsleg tengsl, einelti, listsköpun, tengsl nútíma kvikmynda við kvikmyndasöguna, stjórnmál, mannréttindi, svo fátt eitt sé nefnt.

Sýningarnar eru kennurum og nemendum að kostnaðarlausu en þeir verða sjálfir að standa straum af ferðum til kvikmyndahússins.

Vinsamlega sendið verkefnastjóra tölvupóst ef þið hafið áhuga á að koma á sýningu og tilgreinið hvaða sýningu þið viljið sækja og hvað mörg sæti fyrir nemendur og hve mörg fyrir kennara / aðra starfsmenn. Ef breytingar verða á þátttöku vinsamlegast látið verkefnisstjóra vita í tíma.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

LA REGLE DU JEUFÖSTUDAGINN 19. SEPTEMBER KL. 14:15 

LEIKREGLURNAR // LA REGLE DU JEU     

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1939/LENGD: 106 MIN /LAND: Frakkland/LEIKSTJÓRI: Jean Renoir/AÐALHLUTVERK: Nora Gregor, Paulette Dubost, Marcel Dalio. Franska, misrétti, heimspeki, tengslamyndun

“Þessi samfélagskómedía Renoirs var upphaflega bönnuð þar sem hún þótti hafa “siðspillandi og mannskemmandi áhrif” og var ekki sýnd aftur fyrr en árið 1956. Eins og myndir Renoirs frá franska tímabilinu eru heimspekilegar hugleiðingar mannkynsins teknar fyrir í hnotskurn.

Myndin gerist á frönsku óðalssetri þar sem mikil veisla stendur yfir. Allar stéttir í frönsku þjóðfélagi, frá yfirstétt til betlara, koma fyrir í veislunni og eru miskunnarlaust krufnar á bæði átakanlegan og bráðfyndinn hátt. Ástarflækjur, afbrýðisemi, öfund, undirferli, auk annars mannlegs breyskleika er skoðað af hispursleysi og fordómaleysi til að varpa ljósi á stéttaskiptingu í Frakklandi samtímans. “ Mbl. 1999.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

Myndin hefur verið í efstu sætum á helstu listum gagnrýnenda um bestu kvikmyndir sem hafa verið gerðar.

 talaðu við hanaFÖSTUDAGINN 26. SEPTEMBER KL. 14:15

HABLE CON ELLA // TALAÐU VIÐ HANA

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 2002/LENGD:112 MIN FRAMLEIÐSLU/LAND: SPÁNN/ LEIKSTJÓRI: Pedro Almodóvar/AÐALHLUTVERK: Javier Cámara, Darío Grandinetti, Leonor Watling, Geraldine Chaplin. Spænska, litir í kvikmyndum, siðferðislegar spurningar, kynferðisleg misbeiting, hjúkrun, samskipti karls og konu, samskipti tveggja karlmanna, fangelsi.

Talaðu við hana fjallar um tvo karlmenn, Benigno og Marco, sem hittast í leikhúsi og síðar á hjúkrunarheimili þar sem Benigno starfar. Kærasta Marco, Lydia, er nautabani, en fellur í dá eftir að naut stangar hana. Benigni annast aðra konu sem var í ballettnámi en liggur í dái. Þessi samskipti leiða til ófyrirséðra atburða.

Myndin fjallar um erfiðleika í tjáskiptum á milli kynjanna, einmanaleika, sorg og sorgarferli, ást og missi. Myndin hlaut Óskarsverðlaunin fyrir besta handritið árið 2002 og Golden Globe-verðlaunin fyrir bestu erlendu myndina árið 2003.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

 ReiðhjólaþjófurinnFÖSTUDAGINN 3. OKTÓBER KL. 14:15

LADRI DI BICICLETTE // REIÐHJÓLAÞJÓFURINN

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1948/LENGD: 93 MIN /LAND: ÍTALÍA/LEIKSTJÓRI: Vittorio di Sica/AÐALHLUTVERK: Lamberto Maggiorani, Enzo Staiola, Lianella Carell. Ítalska, klassískar kvikmyndir, fátækt, götulífsmyndir, samtíðarspegill, nýraunsæi

Reiðhjólaþjófurinn er ein af þekktustu myndum ítalska nýraunsæisins sem leit dagsins ljós á fimmta áratugnum, en stefnan var mótvægi við hefðbundna kvikmyndagerð samtímans. Myndin hefur oft verið nefnd ein klassískasta mynd allra tíma og segir frá ógæfunni sem hendir fátækan verkamann þegar reiðhjólinu hans er stolið en án hjólsins hefur hann ekkert lífsviðurværi. Götulífsmyndirnar eru rómaðar af kvikmyndaunnendum enn þann dag í dag.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

Blade runner

FÖSTUDAGINN 10. OKTÓBER KL. 14:15

BLADE RUNNER

TEGUND OG ÁR/Vísindaskáldsögumynd, 1982/LENGD: 116 MIN /LAND: BANDARÍKIN/ LEIKSTJÓRI: Ridley Scott/AÐALHLUTVERK: Harrison Ford, Rutger Hauer, Sean Young og Darryl Hannah. Vísindaskáldskapur, film noir, erfðatækni, gervimanneskjur, margmenningarsamfélag

Blade Runner er ein af klassískum lykilmyndum sem sækir í fræg kvikmyndaverk frá fyrri tímum eins og rökkurmyndir fjórða áratugarins og Metropolis (1928) eftir Fritz Lang. Myndin er byggð á vísindaskáldsögunni “Do Androids Dream of Electric Sheep” eftir Phillip K. Dick. Hún gerist í Los Angeles árið 2019 þar ríkir stöðugt myrkur og rigning þar sem mannkynið hefur eyðilagt jörðina og búið sér nýlendur á öðrum hnöttum.

Spár um erfðatækni og japönsk yfirráð á markaði sem voru vinsælar á áttunda áratugnum hafa gengið eftir og svokallaðar eftirmyndir, sem eru í mannslíki, eru hannaðar og sendar út í geiminn til ýmissa starfa. Margar þeirra sleppa til jarðarinnar og sérstakir lögreglumenn eru þjálfaðir til að leita þær uppi og fjarlægja þær. Einn þeirra, Rick Deckard (Harrison Ford) er fenginn til að leita uppi hættulegar eftirmyndir sem talið er að geti þróað með sér tilfinningar. Spurningin er hins vegar hvort Deckard sjálfur sé maður eða eftirmynd og sama máli gegnir um konuna sem hann verður ástfanginn af, Rachel (Sean Young).

—————————————————————————————————————————————————————————————————

Persona

FÖSTUDAGINN 17. OKTÓBER KL. 14:15

PERSONA     

TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1966/LENGD: 83 MIN /LAND: Svíþjóð/ LEIKSTJÓRI: Ingmar Bergman/AÐALHLUTVERK: Bibi Anderson, Liv Ullmann, Margeretha Krook. Sænska, tilvistarlegar spurningar, geðræn vandamál, trúar- og siðferðisstef

“Þekkt leikkona fær taugaáfall í miðri leiksýningu og neitar að tala. Hvorki eiginmaður hennar né ungur sonur þeirra geta haft nokkur áhrif á hana og er hún að lokum lögð inn á geðdeild þar sem hjúkrunarkonan Alma fær það hlutverk að hjúkra henni. Að ráði yfirlæknisins fer Alma með leikkonuna í einangrað sumarhús við ströndina í von um að það geti bætt heilsu hennar og verður samband þeirra þar afar náið, ekki síst vegna þess að hjúkrunarkonan notar tækifærið til að léttu öllu af sér við hinn þögla sjúkling sem hlustar á hvert orð sem hún segir. Alma er í fyrstu himinlifandi yfir því að fá að tala óhindrað um sjálfa sig við svo virta leikkonu, en þegar hún áttar sig á afstöðu hennar til sín, magnast spennan á milli þeirra og fer hún að hata hana.

Kvikmyndin Persóna markar mikilvæg þáttaskil í kvikmyndagerð Ingmars Bergman. Um tíu ára skeið hafði hann glímt við stóru spurningarnar um lífið og tilveruna með beinum skírskotunum í trúarleg og biblíuleg stef og persónur. Í myndinni Persóna er eins og hann sýni þessi greiningartæki hugsunarinnar sem brenndust inn í hann barn að aldri en leggi þau svo til hliðar án þess að gefa meginviðfangsefnið upp á bátin, en það er spurningin um merkingu með lífinu og tilgang þjáningarinnar.” Pétur Pétursson, 2004

—————————————————————————————————————————————————————————————————

CLÉO FRÁ FIMM TIL SJÖFÖSTUDAGINN 25. OKTÓBER KL. 14:15

CLÉO DE 5 A SEPT // CLÉO FRÁ FIMM TIL SJÖ

TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1962: 90 MIN /LAND: Frakkland/ LEIKSTJÓRI: Agnès Varda/AÐALHLUTVERK: Corinne Marchard, Antoine Bourseiller, Domenique Davray. Franska nýbylgjan, kvikmyndir kvenna, Alsírstríðið, krabbamein, tilvistarkreppa

Cléo de 5 à 7 (Cléo frá fimm til sjö) segir frá níutíu mínútum í lífi söngkonunnar Cléo (Corinne Marchand) á meðan hún bíður eftir niðurstöðu úr krabbameinsrannsókn. Hún gengur um París til að dreifa huganum, fer til spákonu, hittir kærasta sinn og vini. Alsírstríðið er í bakgrunni myndarinnar sem tákn um dauðann. Myndin er sýn konu sem stendur andspænis dauðanum á meðan hún virðir fyrir sér lífið í skugga hans, en Varda vildi gefa raunsæja mynd af þessum tveimur klukkustundum í lífi Cléo (raunar er um níutíu mínútur að ræða) og skipti myndinni í kafla sem eru tímasettir. Kvikmyndir Agnès Varda eru sprottnar úr frönsku nýbylgjunni sem hófst á sjötta áratugnum og olli byltingu í kvikmyndagerð í Evrópu og víðar. Varda er fædd í Belgíu en hefur starfað við kvikmyndaleikstjórn í París frá því hún var í námi.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

 NOSFERATUFÖSTUDAGINN 31. OKTÓBER KL. 14:15

 NOSFERATU: PHANTOM DER NACHT // NOSFERATU: VAMPÍRA NÆTURINNAR. 

TEGUND OG ÁR/Leikin hrollvekja, 1979/LENGD: 96 MIN /LAND: ÞÝSKALAND/ LEIKSTJÓRI: Werner Herzog/AÐALHLUTVERK: Klaus Kinski, Isabella Adjani og Bruno Ganz. Þýska, þýska nýbylgjan, vampírur, endurgerðir, málverk Caspar David Friedrich

Þessi skemmtilega endurgerð Werner Herzog á Nosferatu eftir Murnau frá 1922 er jafnframt ein af fallegri myndum þýsku nýbylgjunnar sem hófst á áttunda áratugnum. Eitt af einkennum þýsku nýbylgjunnar var að rýna í þýskt samfélag eftirstríðsáranna og endurskoða fortíðina, þar á meðal sársaukafullt uppgjör við nasismann. Ekki lögðu allir í slíkt uppgjör á þessum tíma og létu sumir sér nægja að lýsa uppgjörinu á táknrænan hátt.

Nosferatu segir frá Jonathan Harker (Bruno Ganz) sem tekst á hendur ferð til að heimsækja aðalsmann að nafni Drakúla vegna húsakaupa í Wismar. Hann skilur eiginonu sína, Lucy (Isabelle Adjani) eftir heima og fer til Transylvaniu þar sem hann hittir Drakúla (Klaus Kinski) sem er sérkennilegur í útliti með snjóhvíta húð, stór eyru, vígtennur og langar neglur, enda er hann vampíra sem þrífst á mannablóði og er á ferli um nætur.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

Taxi DriverFÖSTUDAGINN 7. NÓVEMBER KL. 14:15

TAXI DRIVER

TEGUND OG ÁR/Leikin kvikmynd, 1976/ 113 MIN /LAND: Bandaríkin/ LEIKSTJÓRI: Martin Scorsese/AÐALHLUTVERK: Robert de Niro, Jodie Foster, Harvey Keitel, Albert Brooks. Bandaríska nýbylgjan, geðræn vandamál, svefntruflanir, þráhyggja, vændi, Víetnamstríðið, kosningarbarátta, tilvistarkreppa, myndir Martin Scorsese

Taxi Driver er ein af þeim kvikmyndum sem marka djúp spor í kvikmyndasöguna og braut blað í bandarískri kvikmyndasögu. Hún segir frá Travis Bickle (Robert de Niro) uppgjafahermanni úr Víetnamstríðinu sem ekur leigubíl í New York. Hann er bölsýnn einfari sem þjáist af svefnleysi og hugsar stöðugt um versnandi heim. Hann hrífst af konu sem vinnur við kosningabaráttu þingmanns og í framhaldi af því ákveður hann að láta til sín taka og gera heiminn betri. Eitt af þeim verkefnum sem Travis er staðráðinn í að framkvæma er að hjálpa Iris, tólf ára gamalli vændiskonu. Iris er leikin af Jodie Foster, en geðtruflaður maður að nafni John Hinckley fékk þráhyggju fyrir leikkonunni og reyndi að ráða Ronald Reagan af dögum sem þá var forseti.

—————————————————————————————————————————————————————————————————

Pulp FictionFÖSTUDAGINN  14. NÓVEMBER KL. 14:15

PULP FICTION // EINS OG Í REYFARA

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1994/LENGD: 155 MIN /LAND: BANDARÍKIN/ LEIKSTJÓRI: Quentin Tarantino/AÐALHLUTVERK: John Travolta, Samuel L. Jackson og Uma ThurmanVísanir í kvikmyndasöguna, frönsku nýbylgjuna, Hitchcock, Maguffin, Biblíuleg stef, glæpasögur, film noir, ofbeldi, fíkniefni, tvöfalt siðgæði

Pulp Fiction er talin með áhrifamestu kvikmyndum tíunda áratugsins. Hún var tilnefnd til sjö Óskarsverðlauna og hlaut Óskarinn fyrir besta handrit og Gullpálmann í Cannes.

Myndin fjallar um glæpamenn í Los Angeles, Jules (Samuel L. Jackson) og Vincent (John Travolta). Þar sem Pulp Fiction sækir mikið í klassískar kvikmyndir eru ótal vísanir í kvikmyndasöguna. Jules og Vincent burðast með dularfulla skjalatösku merkt 666 sem enginn fær að vita hvað er í, en þar er skírskotun í brellu sem Hitchcock notaði oft í myndum sínum. Sama máli gegnir um Biblíuna sem Jules er með, enda er eitt af stefjum myndarinnar tvöfalt siðgæði.

Eins og oft í myndum Tarantino er frásögnin ekki í tímaröð, samræðurnar eiga ekki við það sem er að gerast og ofbeldisatriðin eru skondin frekar en að vera með raunverulegum blæ enda er Pulp Fiction er kannski fyrst og fremst spegill af samtímanum.

 —————————————————————————————————————————————————————————————————

 BLow UpFÖSTUDAGINN 21. NÓVEMBER KL. 14:15

BLOW-UP

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1966/LENGD: 110 MIN /LAND: ÍTALÍA/ LEIKSTJÓRI: Michelangelo Antonioni/AÐALHLUTVERK: David Hemmings, Vanessa Redgrave, Sarah Miles, John Miles, Jane Birkin. Ljósmyndir, tíska, London sjöunda áratugarins, tilvistarspeki, heimspeki, myndir Antonionis

Blow-up er fyrsta myndin sem Antonioni gerði á ensku en hún fjallar um ljósmyndara sem telur sig hafa orðið vitni að morði þegar hann var að ljósmynda í skemmtigarði. Grunsemdir hans vakna enn fremur þegar filmum hans er stolið og stækkuð ljósmynd skilin eftir í íbúð hans.

Antonioni er talinn einn af mikilvægustu leikstjórum kvikmyndasögunnar og hefur haft gífurleg áhrif á bæði evrópska og bandaríska kvikmyndagerðarmenn, þar á meðal Steven Soderbergh. Viðfangsefnið er tilvistarleysi, tómhyggja og tengsl í nútímaheimi þar sem firringin ræður ríkjum. Persónurnar eru fallegar og þokkafullar en eru úr takti við tilveruna.

Blow-up hlaut Gullpálmann í Cannes og BAFTA verðlaunin árið 1967 og var auk þess tilnefnd til Óskarsverðlauna sama ár.

  —————————————————————————————————————————————————————————————————

 HJÓNABAND MARÍU BRAUN28. NÓVEMBER KL. 14:15

DIE EHE DER MARIA BRAUN // HJÓNABAND MARÍU BRAUN

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1979/LENGD: 120 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: ÞÝSKALAND/ LEIKSTJÓRI: Rainer Werner Fassbinder/AÐALHLUTVERK: Hannah Schygulla, Klaus Löwitch, Ivan Desny. Þýska,  uppgjör Þýskalands við heimsstyrjöldina síðari, mannkynssaga,  þýska nýbylgjan

 Rainer Werner Fassbinder telst til mikilvægustu leikstjóra þýsku nýbylgjunnar en það er stefna í kvikmyndagerð sem leit dagsins ljós seint á sjöunda áratugnum og stóð fram á áttunda áratuginn. Stefnan hófst með Oberhausen Manifesto 28. febrúar 1962 þar sem ný kynslóð kvikmyndagerðarmanna varð til með slagorðinu: Der alte Film ist tot. Wir glauben an den neuen” (“The old cinema is dead. We believe in the new cinema.”)

Hjónaband Mariu Braun er fyrsta myndin í BDR-þríleiknum (BDR stendur fyrir Bundesrepublik Deutschland) en hinar tvær eru Lola (1981) sem er lauslega byggð á The Blue Angel, klassískri kvikmynd þýska leikstjórans Joseph Von Sternberg og Veronika Voss (1982) sem segir frá lífi gleymdrar leikkonu sem var fræg í tíð nasismans.

Hjónaband Mariu Braun var útnefnd til Golden Globe verðlaunanna árið 1981 og Hanna Schygulla hlaut Silfurbjörninn fyrir besta leik í aðalhlutverki.  

  —————————————————————————————————————————————————————————————————

 babette5. DESEMBER KL. 14:15

 BABETTES GÆSTEBUD // GESTABOÐ BABETTU

TEGUND OG ÁR/Leikin mynd, 1987/LENGD: 102 MIN /FRAMLEIÐSLULAND: DANMÖRK/ LEIKSTJÓRI: GABRIEL AXEL/AÐALHLUTVERK: STEPHANE AUDRAN, BIRGITTE FEDERSPIEL, BODIL KJER. Danska, matur í kvikmyndum, trúar- og siðferðisstef, allegóría

Gestaboð Babettu gerist í afskekktu þorpi í Danmörku þar sem íbúarnir lifa fábrotnu lífi og afneitar öllum veraldlegum munaði. Þangað leitar frönsk kona, Babetta (Stephane Audran) í kjölfar umróts í Frakklandi og gerist ráðskona hjá tveimur piparmeyjum sem hafa neitað sér um öll lífsins gæði. Hápunktur myndarinnar er kvöldmáltíð sem Babetta efnir til og kemur öllum á óvart en þar mætast andstæð öfl tilverunnar. Trúarlegt myndmál er einnig fyrirferðarmikið. Myndin hlaut Óskarsverðlaunin árið 1987 sem besta erlenda myndin og er ein af frægustu myndum um máltíðir í kvikmyndasögunni.

VORÖNN 2015  

 

CHINATOWN, ROMAN POLANSKI, FÖSTUDAGINN 16. JANÚAR KL. 14:15

STALKER, ANDREJ TARKOVSKY, FÖSTUDAGINN 23. JANÚAR KL. 14:15

ANTICHRIST, LARS VON TRIER, FÖSTUDAGINN 30. JANÚAR KL. 14:15

SUNRISE, F. W. MURNAU, FÖSTUDAGINN, 6. FEBRÚAR KL. 14:15

ONE FLEW OVER THE CUCKOO´S NEST, MILOS FORMAN, 13. FEBRÚAR KL. 14:15

LOST HIGHWAY, DAVID LYNCH, FÖSTUDAGINN 20. FEBRÚAR KL. 14:15

RASHOMON, AKIRA KUROSAWA, FÖSTUDAGINN 27. FEBRÚAR KL. 14:15

SOME LIKE IT HOT, BILLY WILDER, FÖSTUDAGINN 6. MARS KL. 14:15

VERTIGO, ALFRED HITCHCOCK, FÖSTUDAGINN 13. MARS KL. 14:15

ÞRÍR LITIR BLÁR, KRZYSZTOF KIESLOWSKI, FÖSTUDAGINN 20. MARS KL. 14:15

THE RUSSIAN ARK, ALEKSANDR SOKUROV, FÖSTUDAGINN 27. MARS KL. 14:15

NO COUNTRY FOR OLD MEN, JOEL OG ETHAN COHEN, FÖSTUDAGINN 3. APRÍL KL. 14:15

IN THE MOOD FOR LOVE, KAR WAI WONG, FÖSTUDAGINN 10. APRÍL KL. 14:15          

   

Uncategorized
Engin skoðun á “KVIKMYNDIR VETURINN 2014-2015”

Svara færslunni

You must be logged in to post a comment.