ÚRVAL ÁRSINS: Með hangandi hendi, Inside Job og Enter the Void
Þessa vikuna endursýnum við þrjár frábærar myndir sem gengu vel hjá okkur á árinu. Síðasti séns að grípa þær í bíó!
Með hangandi hendi
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2010
- Lengd: 90 mín.
- Land: Ísland
- Stjórnandi: Árni Sveinsson
- Framleiðandi : Hrafnhildur Gunnarsdóttir
- Meðframleiðendur: Einar Speight, Eva Þorgeirsdóttir og Þorgeir Ástvaldsson
- Kvikmyndataka: Árni Sveinsson og Bergsteinn Björgúlfsson
- Klipping: Anna Þóra Steinþórsdóttir
- DAGSKRÁ: Úrval ársins
- SÝND: 26.-30. desember
EFNI: Myndin fjallar um feril eins ástsælasta söngvara Íslands, Ragga Bjarna, sem hefur sungið sig inn í hjörtu landsmanna í yfir 60 ár og spannar ferill hans nánast alla sögu íslenskrar dægurtónlistar. Um leið og farið er yfir feril hans, er fylgst með undirbúningi hans fyrir stórtónleika í Laugardalshöll til að fagna 75 ára afmæli sínu. Þó árin hafi færst yfir er hann enn ungur í anda enda tekur Raggi lífinu létt og hefur kímnigáfuna í lagi.
UMSÖGN: Leikstjórinn Árni Sveinsson hefur fylgt Ragga eftir síðastliðin tvö ár til að varpa ljósi á manninn á bak við þennan goðsagnakennda og síunga rokkara. Lögin hans Ragga þekkja vel flestir, bæði ungir sem aldnir; Rokk og cha cha cha, Vorkvöld í Reykjavík, Flottur jakki og lagið Vertu ekki að horfa svona alltaf á mig sem hefur jafnan verið kallað „Þjóðsöngurinn“, svo fáein lög séu nefnd. Það má því með sanni segja að tónlistin hans sameini kynslóðirnar.
Í dag skemmtir hann mjög fjölbreyttum hópi fólks; allt frá eldri borgurum á Hrafnistu til yngstu kynslóðarinnar á Þjóðhátíð í Eyjum – og öllum þar á milli. En Raggi á sér fleiri hliðar en þá hlið sem við sjáum oftast. Hann er fjölskyldumaður og hefur fengist við ýmislegt annað en tónlist; hefur m.a. rekið bæði bílaleigu og sjoppu.
Í myndinni koma fram margir af samstarfsmönnum Ragga í gegnum tíðina; Ómar Ragnarsson, Guðmundur Steingrímsson, Páll Óskar Hjálmtýsson, Þorgeir Ástvaldsson svo einhverjir séu nefndir.
Með hangandi hendi var forsýnd á alþjóðlegu kvikmyndahátíðinni RIFF í september og fékk frábærar viðtökur, t.a.m. fékk hún 5 stjörnur í dómi Fréttablaðsins þar sem segir m.a.: „Í raun virkar Með hangandi hendi svo vel sem heild að vandséð er hvernig gera hefði mátt betur og ómögulegt annað en að gefa myndinni hæstu einkunn. Glæsilega að verki staðið.“ ( K.G.-Fréttablaðið, 5.okt. 2010).
Inside Job
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2010
- Lengd: 120 mín.
- Land: Bandaríkin
- Stjórnandi: Charles Ferguson
- DAGSKRÁ: Úrval ársins
- SÝND: 26.-30. desember
Efni: Inside Job fjallar á ítarlegan hátt um efnahagshrunið árið 2008, sem kostaði meira en 20 trilljónir Bandaríkjadala og olli því að milljónir manna misstu vinnuna og heimili sín í verstu niðursveiflu í efnahagskerfi heimsins síðan kreppan mikla reið yfir á þriðja áratug síðustu aldar. Myndin er byggð á ítarlegum rannsóknum og viðtölum við aðila úr lykilstöðum í fjármálalífi, stjórnmálalífi, fjölmiðlum og háskólum heimsins. Hún var tekin upp á Íslandi, í Bandaríkjunum, Englandi, Frakklandi, Singapúr og Kína.
Umsögn: Inside Job er einhver umtalaðasta mynd ársins og hefur hlotið einróma lof gagnrýnenda. Meðal þess sem sérstaklega er tekið fyrir í myndinni er íslenska efnahagshrunið.
Inside Job
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2009
- Lengd: 150 mín.
- Land: Frakkland
- Leikstjóri: Gaspar Noé
- Aðalhlutverk: Nathaniel Brown, Paz de la Huerta, Cyril Roy, Emily Alyn Lind, Jesse Kuhn, Olly Alexander, Ed Spear, Masato Tanno
- DAGSKRÁ: Úrval ársins
- SÝND: 26.-30. desember
Smellið hér til að sjá stiklu.
Efni: Sögusvið myndarinnar er Tokyo og aðalsöguhetjan Oscar, ungur bandarískur eiturlyfjasali sem er skotinn af lögreglunni en heldur áfram að vaka yfir systur sinni, Lindu, sem draugur.
Umsögn: Enter the Void var draumaverkefni leikstjórans Gaspar Noé í mörg ár. Það var hins vegar ekki fyrr en eftir velgengni fyrri myndar hans, Irréversible, að hann gat ráðist í framleiðslu myndarinnar.
Gagnrýnendur hafa ekki sparað stóru orðin: „Ein áhrifaríkasta og metnaðarfyllsta mynd sem gerð hefur verið“ segir Andrew O‘ Hehir hjá Salon.com og bætir við: „Framúrskarandi… eitthvað sem við höfum aldrei séð áður“. Peter Bradshaw hjá The Guardian segir Noé einnig gera eitthvað alveg nýtt við kvikmyndamiðilinn og fara með hann að mörkum hins mögulega.
Myndin hlaut sérstök verðlaun dómnefndar (Special Jury Award) og verðlaun fyrir bestu kvikmyndatöku á Sitges kvikmyndahátíðinni á Spáni árið 2009 og verðlaun fyrir bestu myndina á Neuchâtel kvikmyndahátíðinni í Sviss árið 2010.