Nýr valkostur í kvikmyndaupplifun Íslendinga
Íslendingar eru meðal helstu kvikmyndaneytenda heimsins, fara að meðaltali rúmlega fimm sinnum í bíó á ári og sjá aðrar sjö myndir heima hjá sér. Kvikmyndahúsin hér eru vel útbúin og sinna eftirspurn eftir meginstraumskvikmyndum (fyrst og fremst frá Hollywood) með miklum ágætum. Á hinn bóginn hefur að margra mati lengi vantað kvikmyndahús sem leggði sérstaka áherslu á fjölbreytnina, öðruvísi kvikmyndir með listrænum áherslum, hverskyns jaðarmyndir, klassískar myndir, heimildamyndir, stuttmyndir og fjölmargt annað sem tilheyrir kvikmyndamenningu heimsins.
Bíó Paradís verður slíkur staður. Dagskráráherslur munu snúast um fjölbreytni, gegn einsleitni. Bíó Paradís verður staður kvikmyndaunnenda af öllu tagi.
Bíóið verður samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. Má þar nefna dreifingaraðila kvikmynda; Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík (auk ýmissa smærri hátíða); Kvikmyndamiðstöð Íslands (sem nýverið flutti á aðra hæð Regnbogahússins); Kvikmyndasafn Íslands; Kvikmyndaskóla Íslands; kvikmyndafræðideild Háskóla Íslands, sérstakt átaksverkefni Alþjóðlegrar kvikmyndahátíðar og menntasviðs Reykjavíkurborgar um kvikmyndalæsi fyrir börn og unglinga og fagfélög íslenskra kvikmyndagerðarmanna. Auk þess er gert ráð fyrir samstarfi við ýmiskonar aðra aðila um sýningarhald og aðra kvikmyndatengda viðburði í húsinu.