Um Bíó Paradís
Bíó Paradís sýnir nýjar áhugaverðar kvikmyndir frá öllum heimshornum auk hverskyns eldri mynda erlendra sem innlendra, hýsir kvikmyndahátíðir og stendur fyrir fjölbreyttum kvikmyndatengdum viðburðum. Reglulegar sýningar á perlum kvikmyndanna fyrir börn og unglinga fara fram í húsinu, þar sem markmiðið er að efla þekkingu og menntun á þessari mikilvægu listgrein.
Bíó Paradís er því nokkurskonar hjarta kvikmyndamenningar í landinu; áfangastaður allra þeirra sem vilja eiga góðar stundir í afslöppuðu umhverfi sem angar af andrúmslofti kvikmyndanna.
Hús af þessu tagi eru meðal lykilstofnana höfuðborga víðsvegar um heim, vinsælir áfangastaðir fyrir heimamenn jafnt sem ferðamenn. Þau má til dæmis finna á öllum Norðurlöndunum, í flestum Evrópulöndum og í helstu borgum Bandaríkjanna og Kanada.
Samstarfsvettvangur um fjölbreyttar kvikmyndasýningar
Bíó Paradís er samstarfsvettvangur flestra þeirra sem koma að kvikmyndamálum í landinu. Má þar nefna dreifingaraðila kvikmynda (Senu, Græna ljósið, Myndform, Samfilm); Alþjóðlega kvikmyndahátíð í Reykjavík, Reykjavik Shorts & Docs, Stuttmyndadaga í Reykjavík; Kvikmyndamiðstöð Íslands (sem er með skrifstofur sínar á annarri hæð hússins) og Kvikmyndaskóla Íslands. Auk þess á bíóið samstarf við ýmiskonar aðra aðila um sýningarhald og aðra kvikmyndatengda viðburði í húsinu.
Sjálfseignarstofnunin Heimili kvikmyndanna ses
Stofnaðilar sjálfseignarstofnunarinnar Heimilis kvikmyndanna ses, sem rekur Bíó Paradís, eru fagfélög kvikmyndagerðarmanna (Samband íslenskra kvikmyndaframleiðenda, Félag kvikmyndagerðarmanna og Samtök kvikmyndaleikstjóra), Alþjóðleg kvikmyndahátíð í Reykjavík og Félag kvikmyndaunnenda. Stjórn stofnunarinnar skipa kvikmyndagerðarmennirnir Ingvar Þórisson, Hrafnhildur Gunnarsdóttir, Hilmar Sigurðsson (formaður stjórnar og SÍK), Margrét Jónasdóttir, Anna Þóra Steinþórsdóttir, Friðrik Þór Friðriksson og Ragnar Bragason.
Hrönn Sveinsdóttir er framkvæmdastjóri Heimilis kvikmyndanna. Hrönn starfaði um árabil við kvikmyndagerð og dagskrárgerð fyrir sjónvarp. Á þeim tíma hlaut hún m.a. Edduverðlaunin fyrir heimildamyndina Í skóm drekans. Síðar nam hún stjórnmálafræði í New York. Að námi loknu tók hún við starfi siðameistara Sendiráðs Bandarikjanna á Íslandi og sinnti því starfi þar til hún tók við stöðu framkvæmdastjóra Heimilis kvikmyndanna í janúar 2012.
Ása Baldursdóttir er dagskrárstjóri, auk þess að sjá um kynningarmál. Ása hefur fjölbreytta náms- og starfsreynslu, þar sem hún hefur m.a. numið listræna ljósmyndun, sagnfræði, listfræði, blaða- og fréttamennsku, hagnýta menningarmiðlun ofl. Hún hefur unnið sem verkefnastjóri dagskrár hjá Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í Reykjavík, unnið með Mánudagsbíó Háskóla Íslands, ritstýrt og séð um aldarafmælisvef Háskóla Íslands ásamt því að ritstýra frumkvöðlavefnum snoop-around.com ásamt kollega sínum og ljósmyndara Nönnu Dís.
Sérstakt dagskrárráð, sem skipað er fulltrúum eigenda og helstu samstarfsaðila, er vettvangur umræðu um dagskrá og aðra starfsemi hússins.
Heimili kvikmyndanna ses og Bíó Paradís eru að Hverfisgötu 54, 101 Reykjavík.
Bíó Paradís er meðlimur Europa Cinemas og CICAE frá 2012.