La ciénaga (Mýrin)
- Tegund og ár: Leikin mynd, 2001
- Lengd: 103 mín.
- Land: Argentína
- Texti: Enskur
- Leikstjóri: Lucrecia Martel
- Aðalhlutverk: Mercedes Morán, Graciela Borges og Martín Adjemián
- Dagskrá: Hugvísindamars
- Sýnd: Laugardaginn 19. mars 2011, kl. 13:00. AÐGANGUR ÓKEYPIS.
EFNI: Mecha (Graciela Borges) og eiginmaður hennar, Gregorio (Martín Adjemián), mega muna fífil sinn fegri. Aldurinn færist yfir, krakkarnir vaxa úr grasi, þjónustufólkið fylgir ekki fyrirmælum, sumarhitinn er óbærilegur og glæsivillan er í niðurníðslu. Í nálægu þorpi, La ciénaga, býr frænka hennar Tali (Mercedes Morán), ásamt eiginmanni og börnum. Gruggugt og staðið sundlaugarvatnið endurspeglar lífshlaup fólksins á bakkanum. Tilgangsleysi, mismunun, brostnar vonir og samskiptaörðugleikar valda streitu og spennu. En flóttaleiðirnar eru fáar …
UMSÖGN: Argentínska kvikmyndin La ciénaga (Mýrin, 2001) í leikstjórn Lucreciu Martel er sögð dæmigerður fulltrúi argentínsku nýbylgjunnar í kvikmyndagerð. Myndin gerist í norðurhluta landsins þar sem öfgar fátæktar og dapurleiki hnignandi velmegunar blasir hvarvetna við.
Myndin er tekin upp í heimabæ leikstjórans, borginni Salta, nærri landamærum Paragvæ og Bolivíu. Martel hefur látið eftir sér hafa að sagan sé byggð á persónulegri reynslu og eigi sér stoð í fjölskyldusögu hennar. „Myndin segir tiltölulega einfalda sögu en er samt ófyrirsjáanleg. Ég vildi láta áhorfandann upplifa óþægindi strax frá fyrstu mínútu myndarinnar.“
Í umsögn um myndina, sem birtist í New York Times, segir Stephen Holden að hún sé eins konar „metaphor for creeping social decay ….“ Persónur myndarinnar, segir hann, birtast eins og fulltrúar hnignandi stétta og hún bregður upp spegilmynd af samfélagi sem virðist í senn framandi og vel þekkt. Myndin hefur unnið til fjölda verðlauna, m.a. á kvikmyndahátíðinni í Berlín, í Havana á Kúbu og í Argentínu. Gagnrýnandinn David Lipfert segir myndina dæmigerða „nýbylgjumynd“. Hún sé frjáls undan þeirri kvöð að fjalla um orsakir og afleiðingar ofsókna argentínska hersins á sjöunda og áttunda áratugnum, hún ögri ímyndum Argentínumanna um sjálfa sig og sé vægðarlaus. Nýbreytni í kvikmyndatöku og sviðsetningum, s.s. notkun nærmynda, geri það að verkum að áhorfandinn upplifi sig óþægilega nærri persónum verksins.
Hann segir enn fremur: „[Martel´s] intense, in-your-face portrait of a dissolute middle class lacks the usual justifying criminal context. Martel simply holds up a mirror to Argentine society, and the result is devastating. Instead of creating an allegory with archetypes, she shows characters that are all too real.“
Myndir Lucreciu Martel eru stuttmyndirnar El 56 (1988), Piso 24 (1989), Besos rojos (1991) og El rey muerto (1995), og í fullri lengd: La ciénaga (2001), La niña santa (2004) og La mujer sin cabeza (2008). Martel vinnur um þessar myndir að nýrri mynd sem víða er beðið eftir með mikilli eftirvæntingu.