Draumurinn um veginn, 2. hluti: Arfleifðin í farteskinu
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2011
- Lengd: 107 mín.
- Land: Ísland
- Stjórnandi: Erlendur Sveinsson
- Handrit: Erlendur Sveinsson
- Kvikmyndataka: Sigurður Sverrir Pálsson, ÍKS
- Hljóðmaður (upptökur á Spáni): Sigurður Hr. Sigurðsson
- Hljóðhönnun (eftirvinnsla): Bogi Reynisson
- Þulur: Egill Ólafsson
- Klipping: Erlendur Sveinsson
- Kvikmyndataka að hluta: Erlendur Sveinsson
- Tónlist: Atli Heimir Sveinsson.
- Ýmis tónlist, þmt. tíðarandatónlist valin af Erlendi Sveinssyni
- Framleiðandi: Erlendur Sveinsson
- Framleiðslufyrirtæki: Kvikmyndaverstöðin ehf.
- Dagskrá: Nýjar myndir
- Sýnd frá: 15. apríl 2011
EFNI: Draumurinn um veginn er samheiti fimm hluta kvikmyndabálks Erlends Sveinssonar um pílagrímsgöngu Thors heitins Vilhjálmssonar til Santiago de Compostela á Norðvestur Spáni. Þessi annar hluti verksins nefnist Arfleifðin í farteskinu en meginstef hans er menningararfleifðin og nauðsyn þess að varðveita hana og nærast af henni en Thor skýrgreinir sjálfan sig á veginum gjarnan sem menningarpílagrím.
Í Arfleifðinni í farteskinu heldur Thor áfram göngu sinni um Rioja héraðið á Spáni og sem leið liggur inn í Kastilíu. Þar verður höfuðborgin Burgos skáldinu áhrifamikill viðkomustaður. Eftir Burgos skiptast á fjölbreytileg þorp og kornakrar spönsku hásléttunnar (Mezeta) en Arfleifðinni í farteskinu lýkur í bænum Fromista í Palenciu héraði. Um 345 km eru þá að baki af þeim 800 km sem Thor hefur einsett sér að ganga á Jakobsveginum. Inn í ferðina fléttast endurlit að heiman og tengingar við skáldverk Thors eins og Sveig, Regn á rykið, Foldu og Morgunþulu í stráum.
Sýningarnar í Bíó Paradís munu standa yfir í 10 daga að frátöldum föstudeginum langa og páskadegi. Síðasti sýningardagur verður 25. apríl, sem er annar í páskum. Í tilefni af frumsýningu Arfleifðarinnar í farteskinu verður fyrsti hluti kvikmyndabálksins, sem nefnist Inngangan, endursýndur í Bíó Paradís dagana 15. til 17. apríl vegna fjölda áskorana.
Næstu hlutar nefnast:
- DRAUMURINN UM VEGINN, 3. hluti – Gengið til orða
- DRAUMURINN UM VEGINN, 4. hluti – Lærisveinar vegarins (vinnutitill)
- DRAUMURINN UM VEGINN, 5. hluti – Að heiman heim (vinnutitill).