Skólasýningar
KVIKMYNDAFRÆÐSLA FYRIR BÖRN OG UNGLINGA
Bíó Paradís stendur fyrir kvikmyndafræðslu fyrir börn og unglinga sex vikur í senn á hvorri önn skólaársins.
Sýningar eru á fimmtudögum kl. 10:00 (fyrir börn 1. – 6. bekk) og kl. 13:00 (fyrir 7. – 10. bekk).
Verkefnisstjóri er Oddný Sen, kvikmyndafræðingur, oddnysen@gmail.com. Hér er hægt að kynna sér grunnskólasýningar á haustönn 2014.
Sýningar fyrir framhaldsskólanema er á föstudögum kl 14:15
Hér er hægt að kynna sér dagskrá ætlaða framhaldsskólum í Bíó Paradís á haustönn 2014.
Tilgangurinn með sýningunum er að veita börnum og unglingum möguleika á að kynnast kvikmyndum sem hafa alþjóðlega gæðastimpla, eru ýmist klassískar perlum frá öllum skeiðum kvikmyndasögunnar og eru lykilkvikmyndir sem hafa skapað sér sess innan kvikmyndasögunnar. Þannig verða sýndar myndir frá Bandaríkjunum, Evrópu, Norðurlöndum, Austurlöndum, Íslandi og öllum heimsins hornum. Á undan hverri sýningu er haldinn fyrirlestur til að auðvelda áhorfendum að greina kvikmyndina ásamt hugmyndum að ritgerðum og umsögnum barnanna um kvikmyndirnar.
Leitast verður við að skoða margvísleg temu eins og unglingsárin, tengsl nútíma kvikmynda við kvikmyndasöguna, úrvinnslu tilfinninga, félagsleg tengsl, samfélagsleg tengsl, einelti, listsköpun, sjónarhorn og uppsetningu svo fátt eitt sé nefnt.
Þessar skólasýningar hófust veturinn 2011-2012 í samvinnu við fræðsluyfirvöld og skóla.
Þær eru í gangi í september – desember og janúar – apríl ár hvert.
Oddný Sen – kvikmyndafræðingur hefur víðtæka reynslu af kvikmyndafræðslu. Oddný er með BA í bókmenntafræði frá Háskóla Íslands, BA, MA og fyrri hluti PHD frá Parísarháskóla. Hún hefur unnið við kvikmyndir, dagskrárgerð, kvikmyndafræðslu, kennslu á háskóla- og framhaldsskólastigi, þróun kennsluefnis og uppsetningu menningarviðburða.
Hér er hægt að lesa viðtal við Oddnýju Sen í Fréttablaðinu haustið 2013 þar sem hún ræðir kvikmyndafræðslu í Bíó Paradís.
Sérsýningar
Bíó Paradís stendur fyrir ýmiskonar sérsýningum á nýjum og sígildum kvikmyndum fyrir mismunandi hópa.
Opin kennslustund Kvikmyndaskóla Íslands
Kvikmyndaskóli Íslands stendur fyrir svokallaðri “opinni kennslustund” vikulega yfir vetrarmánuðina þar sem allir nemendur og kennarar skólans munu horfa á sígildar myndir kvikmyndasögunnar. Á undan hverri sýningu verður stutt innleiðing frá mismunandi umsjónarmönnum og eftir sýningu verða umræður um myndina. Sýningarnar eru kl. 13 á föstudögum, 10 skipti á hverri önn.