Tvær heimildamyndir um helförina + sönghópurinn Vocembalo
Sunnudagskvöldið 3. júlí næstkomandi kl. 20:00 verða sýndar tvær heimildamyndir sem fjalla um helför gyðinga í síðari heimsstyrjöldinn; Estranged Passengers: In Search of Viktor Ullmann og The Power of Good: Nicholas Winton. Á undan sýningu myndanna flytur svissnesk-íslenski sönghópurinn Vocembalo tónverk eftir austurríska gyðinginn Viktor Ullmann, sem er viðfangsefni annarrar myndarinnar og tengist einnig þeirri síðari.
EITT VERÐ Á BÁÐAR MYNDIR: 1150 kr.
ESTRANGED PASSENGERS: IN SEARCH OF VIKTOR ULLMANN
Fyrri heimildarmyndin, Estranged Passengers: In Search of Viktor Ullmann (2003) gerð af austurrísku leikstjórunum Wolfgang Beyer og Eva Marginter, fjallar um líf og örlög eins hinna þekktu fanga í Theresienstadt fangabúðunum í Tékklandi; tónskáldsins og stjórnandans Viktors Ullmanns. Saga hans snertir einnig viðfangsefni seinni myndarinnar.
Eftir að flóðgáttir sturlunar nasismans opnuðust í janúar 1942, þegar ákveðið var að hefja kerfisbundin fjöldamorð á evrópskum gyðingum, tóku að berast einstaka fregnir til Vestur-Evrópu af ódáðaverkum í austri. Þýsk stjórnvöld brugðust við með skipulegum áróðri til að fullvissa almenning um að ekkert væri athugavert við svokallaða “búsetuflutninga” gyðinga austur á bóginn. Í þessum áróðri höfðu gettófangabúðirnar í Theresienstadt sérstöðu. Þar var var eign og notkun bóka og hljóðfæra leyfileg og á meðal fanga þar var hámenntað tónlistarfólk, sem hélt áfram að semja tónlist og stóð fyrir flutningi á stórum og smáum verkum við afar erfiðar aðstæður. Þannig var haldið uppi menningarlífi, þrátt fyrir þrengingar og nauðungarflutninga sem ítrekað hjuggu skörð í hóp tónlistarfólkins. En menningarlífið í Theresienstadt var líka þáttur í áróðri nasista. Theresienstadt var sýnd erlendum gestum sem dæmigert gyðingaaðsetur með sjálfsforræði, þar sem íbúarnir nytu góðrar aðhlynningar og fjölþætts menningarlífs. Fyrir slíkar heimsóknir var varið mánuðum í að fegra gettóið og gestirnir voru undir nákvæmu eftirliti til að koma í veg fyrir að þeir gætu komist að hinu sanna um, hvað raunverulega fór þar fram. Blekkingarnar tókust algerlega, grunlausir gestirnir skrifuðu síðan jákvæðar lýsingar á allri aðstöðu í gettóinu. Á meðan héldu nauðungarflutningarnir til Treblinka, Auschwitz-Birkenau og annarra útrýmingabúða áfram.
Ullmann var austurrískur ríkisborgari af gyðingaættum, hafði sótt framhaldsskóla í Vín og hafið feril sinn sem tónskáld þar undir áhrifum frá Arnold Schönberg. Á fjórða tug aldarinnar bjó Ullmann í Prag, þar sem hann starfaði með Alexander Zemlinsky. Eftir hernám Tékklands í mars 1939 var Ullmann í bráðri hættu. Allar tilraunir hans til að flytjast úr landi (meðal annars til Íslands) mistókust, en tveimur barna hans var bjargað af Englendingnum Nicholas Winton, en hann er viðfangsefni seinni myndarinnar.
Ullmann var fluttur til Theresienstadt 1942, þar sem hann varð strax mikilvægur þáttakandi í tónlistarlífinu. Hann samdi fjölda stórra og smárra verka í Theresienstadt, sem flest hafa varðveist. Ullmann var, ásamt þeim sem eftir voru af fjölskyldu hans (yngsta barn hans dó úr vannæringu í Theresienstadt) og fjölda annars lista- og menningarfólks, fluttur til Auschwitz-Birkenau í október 1944, þar sem þau voru myrt í gasklef-unum.
THE POWER OF GOOD: NICHOLAS WINTON
Seinni heimildarmyndin, The Power of Good: Nicholas Winton (2002) eftir tékkneska leikstjórann Matej Minac, lýsir einni af fáum ljósglætum þessa tíma. Það var björgun 669 barna frá hernumdu Tékklandi vegna einkaframtaks Englendingsins Nicholas Winton. Haustið 1938 höfðu bresk hjálparsamtök hafið aðstoð við flutning barna af gyðingaættum frá Þýskalandi til Englands. Winton, sem kynnst hafði neyð flóttafólks í Prag, varð ljóst, að ekki voru uppi nein áform um samskonar björgun tékkneskra barna. Hann ákvað að ganga fram í því sjálfur. Þrátt fyrir mikla erfiðleika vegna fjölda formsatriða og fjárskorts, tókst honum að koma til leiðar átta lestarflutningum tékkneskra barna til Englands áður en stríðið skall á. Hann sá síðan um að börnin eignuðust fósturforeldra, sem væru reiðubúin að sjá fyrir þeim til fullorðinsaldurs.
Winton hélt þessu öllu leyndu, jafnvel fyrir konu sinni, í nær 50 ár. Í dag eru á lífi yfir 5000 afkomendur þeirra barna sem hann bjargaði.