Aska og flugmiðar – heimsókn Lynn Marie Kirby
25. JÚLÍ KL. 20:00
Þann 25. júlí verða sýndar nokkrar af helstu stutt- og tilraunamyndum Lynn Marie Kirby, en hún er af kynslóð framúrstefnuhöfunda sem kenndir eru við San Francisco senuna á áttunda og níunda áratug síðustu aldar.
Sýnd verður ein af hennar þekktustu myndum Sharon and the Birds On the Way to the Wedding ásamt stuttmyndum úr Latent Light Excavations seríunni.
Myndir Lynn Marie Kirby hafa verið kallaðar heimspekilegar, dularfullar og kvenlegar, en margar þeirra fjalla um fjölskylduna og frelsi og rými einstaklingsins innan hennar. Hún notar hina ýmsu tækni myndbands- og kvikmyndagerðar til að skapa hinn Kirby-íska heim. Myndbandsverk hennar hafa verið sýnd í virtustu galleríum víða um heim, Whitney Museum of American Art, The Museum of Modern Art, New York og Pompidou Center. Eins hefur hún hefur verið tíður gestur á kvikmyndahátíðum,Toronto, London, San Franscico og Athens.
Lynn Marie Kirby verður viðstödd sýninguna sem tekur um einn og hálfan tíma og svarar spurningum úr sal eftir sýningu undir stjórn fyrrum nemanda síns, Þorfinns Guðnasonar kvikmyndagerðarmanns, en þess má geta að Kirby er prófessor við California College of the Arts og hefur kennt þó nokkuð mörgum Íslendingum kvikmyndagerð við þann skóla.
Þá hefur hún í hyggju að gera stuttmynd hér með Þorfinni og til stendur að frumsýna hana á sýningunni.