Reykjavík, ó Reykjavík!: Reykjavíkurbíó í fimmtíu ár
Í tilefni frumsýningar á Backyard eftir Árna Sveinsson, portretts af reykvískri músiksenu samtímans, sýnum við dagskrá mynda sem varpa ljósi á reykvíska stemmningu síðastliðinna fimmtíu ára. Myndirnar eru 79 af stöðinni (1962) eftir Erik Balling, Rokk í Reykjavík (1982) eftir Friðrik Þór Friðriksson, 101 Reykjavík (2000) eftir Baltasar Kormák og heimildamyndirnar Öskudagur (1975) eftir Þorstein Jónsson og Ólaf Hauk Símonarson, Kjötborg (2008) eftir Helgu Rakel Rafnsdóttur og Huldu Rós Guðnadóttur og Íslensk alþýða (2009) eftir Þórunni Hafstað (sýndar saman).
- TEGUND OG ÁR: Leikin mynd, 1962
- LENGD: 81 mín.
- LAND: Ísland/Danmörk
- LEIKSTJÓRI: Erik Balling
- AÐALHLUTVERK: Gunnar Eyjólfsson, Kristbjörg Kjeld, Róbert Arnfinnsson
EFNI: Myndin er byggð á samnefndri sögu Indriða G. Þorsteinssonar og segir frá ungum sveitapilt sem er að fóta sig í borginni en saknar heimahaganna. Hann tekur unga konu í vanda upp í bíl sinn á Keflavíkurveginum. Það verður honum örlagaríkt.
UMSÖGN: 79 af stöðinni var framleidd af íslenskum aðilum (Guðlaugur Rósinkrans, Indriði G. Þorsteinsson, Edda film) en leikstýrt af danska leikstjóranum Erik Balling, sem síðar gerði Matador þættina vinsælu. Hann færir sögu Indriða í blátt áfram og tilgerðarlausan búning, enda hefur myndin elst vel sem sterk og einföld frásögn. Titillag myndarinnar, Vegir liggja til allra átta, sungið af Ellý Vilhjálms, er íslensk klassík sem og Sveitin milli sanda eftir sama höfund.
Friðrik Þór Friðriksson notaði nokkur atriði úr myndinni sem endurminningabrot í Mömmu Gógó (2010), en sama leikkonan, Kristbjörg Kjeld, fór með aðalhlutverk í báðum.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september
- TEGUND OG ÁR: Heimildamynd, 1982
- LENGD: 83 mín.
- LAND: Ísland
- STJÓRNANDI: Friðrik Þór Friðriksson
EFNI: Myndin lýsir pönksenunni í Reykjavík á árunum 1981-82. Fjöldamargar hljómsveitir koma fram og má þar nefna Þey, Egó, Tappa tíkarrass, Jonee Jonee, Q4U, Vonbrigði og margar fleiri, eða alls 19 talsins. Inn á milli segja tónlistarmennirnir sögur úr stríðinu.
UMSÖGN: Hin goðsagnakennda heimildamynd Friðriks Þórs er ekki aðeins minnisvarði um ákveðið tímabil í íslenskri tónlistarsögu heldur einnig viðmið, enda hafa nokkrar myndir verið gerðar í anda hennar síðan. Má þar nefna Stuttan frakka (1993) eftir Gísla Snær Erlingsson (sem að töluverðum hluta er tónleikamynd og var upphaflega hugsuð þannig eingöngu), Popp í Reykjavík (1999) eftir Ágúst Jakobsson og Gargandi snilld (2005) eftir Ara Alexander.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september
- TEGUND OG ÁR: Leikin, 2000
- LENGD: 88 mín.
- LAND: Ísland
- LEIKSTJÓRI: Baltasar Kormákur
- AÐALHLUTVERK: Hilmir Snær Guðnason, Victoria Abril, Hanna María Karlsdóttir
EFNI: Þó Reykjavík sé minni en flestir vilja játa og miðbærinn beinlínís dvergvaxinn, bætir borgin það upp með villtu næturlífi. Umkringdur fáklæddu holdi, reyk og hækkandi hitastigi er auðvelt að gleyma því að úti bíður heimskautaveðráttan í póstnúmerinu 101 Reykjavík. Ekki svo að skilja að Hlynur, hin seinheppna söguhetja 101 Reykjavík, hafi neina hugmynd um hvar hann er staddur í lífinu. Kynferðislíf hans er lítt skiljanlegt, allra síst honum sjálfum. Þegar Lola, spænskur flamingó kennari með lesbískar hvatir, flytur inn fer fyrst að draga til tíðinda.
UMSÖGN: Þessi frumraun Baltasars Kormáks hefur hlotið fjöldan allan af verðlaunum á kvikmyndahátíðum víðsvegar um heim. Sérstök efnistök og óhefðbundin samskipti kynjanna undir dúndrandi tónlist eiga stóran þátt í velgengni kvikmyndarinnar. Einstök aldamótalýsing á Reykjavík, byggt á samnefndri skáldsögu Hallgríms Helgasonar.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september
- TEGUND OG ÁR: Heimildamynd, 1975
- LENGD: 28 mín.
- LAND: Ísland
- STJÓRNANDI: Þorsteinn Jónsson, Ólafur Haukur Símonarson
EFNI: Pétur Hraunfjörð hefur verið svo heppinn (eða óheppinn) að kynnst grundvallarritum Marx og Lenin um stéttabaráttuna. Hann verður að gera sér að góðu að vera arðrændur verkamaður í auðvaldsþjóðfélagi, en á góðum stundum milli verka í sorpinu í Reykjavík gluggar hann í kenningar þessara höfunda og ber þær saman við sinn eigin veruleika.
UMSÖGN: Þessi mynd er hluti af heimildamyndaröð sem Þorsteinn og Ólafur Haukur gerðu fyrir Sjónvarpið á árunum 1973-75. Ýmsar myndanna ullu miklum deilum í samfélaginu á sínum tíma, frægust er þar Fiskur undir steini (1974), enda efnistök gagnrýnin og Íslendingar þess tíma lítt vanir að sjá samfélag sitt úrbeinað í myndrænni frásögn. Einstaklega athyglisvert portrett af reykvísku mannlífi um miðbik áttunda áratugsins. Myndin hefur varla verið sýnd opinberlega í 35 ár og því um einstakt tækifæri að ræða.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september
- TEGUND OG ÁR: Heimildamynd, 2008
- LENGD: 47 mín.
- LAND: Ísland
- STJÓRNANDI: Helga Rakel Rafnsdóttir, Hulda Rós Guðnadóttir
EFNI: Við Ásvallagötu í Reykjavík stendur kjörbúðin Kjötborg. Bræðurnir Gunnar og Kristján eru goðsagnir í lifanda lífi, síðustu móhíkanar smákaupmannastéttarinnar. Með sjarmann og samhjálpina að vopni hefur þeim tekist að lifa af á meðan samherjar þeirra hafa orðið að víkja fyrir ráðandi markaðsöflum. Fylgst er með daglegu lífi þeirra bræðra og varpað upp myndum af vel völdum fastakúnnum.
UMSÖGN: Kjötborg er gullfalleg og lágstemmd “feelgood” frásögn um afmarkað samfélag í borginni. Þeir Kristján og Gunnar verslunareigendur kunna að vera með síðustu kaupmönnunum á horninu en tilfinningin er samt sú að þeir hafi alltaf verið þarna – og muni vonandi alltaf vera þarna, því það kemst ágætlega yfir að þessir ágætu menn bjóða ekki aðeins uppá fjölbreytt úrval hverskyns dagvöru heldur einnig trú, von og kærleika. Myndin hlaut áhorfendaverðlaun Skjaldborgarhátíðarinnar 2008.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september
- TEGUND OG ÁR: Heimildamynd, 2009
- LENGD: 27 mín.
- LAND: Ísland
- STJÓRNANDI: Þórunn Hafstað
EFNI: Í Íslenskri alþýðu heimsækjum við fjórar íbúðir í gömlu verkamannabústöðunum við Hringbraut og kynnumst hversdagslífinu þar í gegnum samskipti íbúanna við íbúðirnar sínar. Við fylgjumst með hvernig íbúarnir hafa komið sér fyrir innan veggja þessara litlu en hagnýtt hönnuðu íbúða, í góðu skjóli frá kaotískri ofgnóttinni fyrir utan.
UMSÖGN: Það er ávallt gleðiefni þegar fyrsta kvikmynd ungs kvikmyndahöfundar heppnast svo vel að áhorfandinn fær nýja sýn á veruleikann. Heimildamyndin Íslensk alþýða eftir Þórunni Hafstað er þannig mynd. Þórunn, sem nýlokið hefur námi í sjónrænni mannfræði, beinir sjónum að verkamannabústöðunum við Hringbraut og nokkrum íbúum þeirra. Áherslan er bæði skemmtileg og nýstárleg; þetta er saga um samskipti fólks við það rými sem það hrærist í. Með því að skoða þessi samskipti nær Þórunn að sýna okkur venjulegt fólk í því samhengi sem við leiðum oftast hjá okkur. Smáatriði opinbera óvæntar hliðar. Hið ofur hvunndagslega reynist áhugaverðara en áhorfandinn ætlar. Húsið hefur sál og aðgát skal höfð í allri nærveru og umgengni. Myndin vakti mikla athygli á Skjaldborg 2009, hátíð íslenskra heimildamynda. Hún var einnig sýnd á Alþjóðlegri kvikmyndahátíð í fyrra og á Hot Docs í Toronto fyrr á þessu ári. Þá tekur hún þátt í Nordisk Panorama í ár.
- DAGSKRÁ: Reykjavík, ó Reykjavík!
- SÝND: 16.-22. september