Reykjavik Shorts & Docs aukasýningar
Heimildamyndirnar The Price of Sex, Town of Runners og Afterglow verða sýndar áfram í Bíó Paradís frá föstudeginum 18.maí til og með miðvikudeginum 23.maí.
Town of Runners var opnunarmynd Reykjavík Shorts & Docs hátíðarinnar 6.maí sl. Myndin fjallar um þrjá efnilega langhlaupara í smábæinn Bekoji í suðurhluta Eþíópíu, Alemi, Hawii og Biruk. Það eru ekki ýkja mörg tækifæri sem bíða unga fólksins önnur en að gerast langhlauparar. Unga fólkið vill feta í fótspor þeirra fjölmörgu langhlaupara sem ólust upp í bænum en eru nú meðal bestu hlaupara heims. Á síðustu 20 árum hefur afreksfólk frá Bekoji unnið 8 gullverðlaun á Ólympíuleikunum, 32 heimsmeistaratitla og slegið 10 heimsmet. Árangrinu er ekki hvað síst að þakka hlaupaþjálfaranum Sentayehu Eshetu sem hefur þjálfað margan heimsmeistarann í langhlaupi til fjölda ára.
Heimildamyndin hefur vakið mikla athygli gagnrýnenda m.a. fyrir kvikmyndatöku og nálgun leikstjórans Jerry Rothwell. Town of Runners verður sýnd kl. 20 föstudaginn 18.maí og á sama tíma sunnudaginn 20.maí og þriðjudaginn 22.maí.
Heimildamyndin The Price of Sex fjallar um mansal og vændi í Austur-Evrópu og Mið-Austurlöndum. Myndin var um sjö ár í vinnslu en leikstjóri hennar Mimi Chakarova tók viðtöl við fórnarlömb mansals sem flestar koma frá löndum Austur-Evrópu. Myndin varpar skýru ljósi á þessa skipulögðu glæpastarfsemi sem teygir anga sína um allan heim. Konurnar sem koma fram í myndinni koma margar hverjar frá fátækum bæjum í Austur-Evrópu þar sem tækifæri eru af skornum skammti og atvinnuleysi er mikið. Charkarova lagði mikla vinnu í gerð myndarinnar og notaðist m.a. við faldar myndavélar inn á stöðum þar sem vændissala fór fram. Einnig tók hún viðtöl við kaupendur vændis og karla sem gera út konur í vændi til að varpa enn frekar ljósi á þetta málefni.
Afterglow í leikstjórn Ali Silverstein fjallar um samband hennar og kærastans Cole. Þegar Cole deyr í bílslysi breytist líf Ali og hún þarf að takast á við missinn og sorgina. Hún ákveður að fara í ferðalag með ösku Cole og heimsækja staði sem voru honum kærir. Á ferðalagi sínu kemur hún m.a. til Íslands en þau höfðu heimsótt Ísland saman. Afterglow er einstök og persónuleg saga sem fjallar fyrst og fremst um ástina og að vinna úr sorginni. Fjöldi íslenskra tónlistarmanna og kvenna eiga lög í myndinni s.s Ólöf Arnalds, Elín Ey, Of Monsters and Men, LayLow, Amiina, Mugison, Pétur Ben og fleiri.
Myndirnar The Price of Sex og Afterglow verða sýndar saman kl. 20 laugardaginn 19.maí, og á sama tíma mánudaginn 21.maí og miðvikudaginn 23. maí. Hægt er að kaupa miða í Bíó Paradís og á Midi.is.