BÍÓ:DOX hátíð 9.-15. nóvember
BÍÓ:DOX sýnir fimm frábærar heimildamyndir 9.-15. nóvember!
BÍÓ:DOX klúbburinn stendur fyrir heimildamyndahátíð í Bíó Paradís dagana 9.-15. nóvember. Fimm sjóðheitar heimildamyndir sem vakið hafa mikla athygli að undanförnu. Þema BÍÓ:DOX hátíðarinnar er List en myndirnar á hátíðinni eiga það sameiginlegt að gefa okkur innsýn í líf listamanna og lista.
Skoðið kynningarbækling hátíðarinnar hér – sjá einnig frekari upplýsingar og stiklur myndanna fyrir neðan:
Myndirnar eru:
[divider top=”0″]Wonder Women (Ofurkonur)
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2012 | Lengd: 62 mín. | Land: Bandaríkin | Stjórn: Kristy Guevara-Flanagan
“Wonder Women – Ósögð saga bandarískra kvenofurhetja” segir frá þróun og arfleifð hinnar stórkostlegu ofurhetju Wonder Woman, allt frá tilurð teiknimyndahetjunnar um 1940 til nútíma vinsælda hennar. Í myndinni er kannað hvernig birtingarmyndir kraftmikilla kvenna endurspegla hræðslu samfélagsins við aukin réttindi þeirra. Wonder Women! kafar undir yfirborðið með Lyndu Carter, Lindsay Wagner, gamanhöfundum og listamönnum og einnig með raunverulegum kvenofurhetjum eins og Gloriu Steinem, Kathleen Hanna og fleirum, sem bjóða upp á upplýsandi og skemmtilega andstæðu við karllægan heim ofurhetja.
[divider top=”0″]
Marina Abramović: The Artist is Present (Marina Abramović: Listamaðurinn er við)
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2012 | Lengd: 106 mín. | Land: Bandaríkin | Stjórn: Matthew Akers, Jeff Durpe | Fram koma: Marina Abramovic, Ulay, Klaus Biesenbach.
Serbneska listakonan Marina Abramovic hefur verið kölluð „amma gjörningalistarinnar“. Myndin fylgir henni eftir þar sem hún undirbýr yfirlitssýningu á verkum sínum á MoMA nýlistasafninu í New York. Marina gerir upp líf sitt og störf, jafnframt sem hún reynir að svara spurningu sem hún hefur verið spurð aftur og aftur í meira en fjörtíu ár: Er gjörningur list?
[divider top=”0″]
Woody Allen: A Documentary (Woody Allen: Heimildamynd)
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2012 | Lengd: 113 mín. | Land: Bandaríkin | Stjórn: Robert B. Weide | Fram koma: Woody Allen, Letty Aronson, Marshall Brickman, Josh Brolin, Dick Cavett, Penélope Cruz, John Cusack, Larry David
Í þessari mynd leyfir goðsagnakennda persónan Woody Allen fólki að fylgjast með lífi sínu í fyrsta sinn í heimildamynd. Emmy-verðlaunahafinn Robert Weide fylgir meistaranum eftir í tæp tvö ár til að ná þessari einstöku ævisögu í kvikmynd. Í myndinni er fylgst með daglegu lífi Allen og samskiptum hans við leikara. Þá byggir myndin á viðtölum við leikara, fjölskyldu og vini Allen sem varpa ljósi á áhugaverða ævi snillingsins.
Weide hefur gert nokkrar heimildamyndir um þekkta einstaklinga og má þar nefna Marx Brothers In a Nutshell (1982), sem fjallar um grínteymið Marx Brothers, Straight Up (1986) sem fjallar um ævi W. C. Fields og Swear To Tell the Truth (1998) sem tekur á ævi Lenny Bruce. Sú mynd vann til Emmy verðlauna og var tilnefnd til Óskarsverðlauna. Weide er hvað þekktastur fyrir að leikstýra þáttum Larry David, Curb Your Enthusiasm en Weide hefur margoft verið tilnefndur til verðlauna fyrir aðild sína að þáttunum en hann vann til Emmy verðlauna árið 2003.
[divider top=”0″]
Jiro Dreams of Sushi
- Tegund og ár: Heimildamynd, 2011 | Lengd: 81 mín. | Land: Bandaríkin/Japan | Stjórn: David Gelb | Fram koma: Jiro Ono, Yoshikazu Ono
Jiro Ono er líklega besti sushi-kokkur í öllum heiminum. Jiro er 85 ára gamall en vinnur sleitulaust dag hvern frá sólarupprás til sólarlags að því að fullkomna sushigerðarlist sína. Veitingahúsið hans er hálffalið í neðanjarðarlestarstöð í Tokyo og tekur aðeins 10 manns í sæti en skartar þrátt fyrir það heilum 3 Michelin-stjörnum og fólk ferðast yfir heiminn þveran til að borða hjá Jiro. Áhorfandinn fær innsýn í ævistarf Jiros og flókið samband hans við son sinn og arftaka Yoshikazu, sem aldrei nær að blómstra í skugga föður síns.
Hér fæst áhugaverð innsýn í störf manns sem haldinn er ástríðu –eða öllu heldur þráhyggju og fullkomnunaráráttu, manns sem tilbúinn er að vinna 16 tíma á dag í 75 ár að hugðarefni sínu. Hún er óður til vandvirkni og natni á tímum þar sem allt gengur út á skjótfengið fé og frama. En myndin er líka full af fallegri og ljóðrænni myndatöku, krydduð með hóflegum húmor og vekur með áhorfandanum óslökkvandi hungur í gott sushi.
[divider top=”0″]
Searching for Sugar Man (Leitin að Rodriguez)
Tegund og ár: Heimildamynd, 2012. | Lengd: 86 mínútur. | Land: Svíþjóð, Bretland. | Stjórn: Malik Bendjelloul. | Fram koma: Malik Bendjelloul, Sixto Rodriguez.
Sixto Rodriguez var efnilegur tónlistarmaður frá Detroit sem tókst að heilla tvo plötuútgefendur upp úr skónum árið 1968. Þeir töldu sig hafa fundið nýjan Bob Dylan og gáfu út plötu hans, Cold Fact. Platan seldist hins vegar hörmulega og Rodriguez hvarf af sjónarsviðinu. Á meðan sögur gengu um versnandi geðheilsu Rodriguez, og um dramatískt sjálfsmorð, varð hann að óvæntri stórstjörnu hinum megin við Atlantshafið… í Suður-Afríku.
Searching for Sugar Man hefur farið sigurför um heiminn og unnið til fjölda verðlauna, meðal annars áhorfendaverðlaunin á hinni virtu Sundance-kvikmyndahátíð. Leikstjórinn, Malik Bendjelloul, ferðaðist til Suður-Afríku árið 2005 og heyrði sögur af Sixto Rodriguez. Þótti honum þetta vera ein besta saga sem hann hafði heyrt, og ákvað í kjölfarið að gera kvikmynd um leit sína að Rodriguez. Hinn virti kvikmyndagagnrýnandi Roger Ebert gaf Searching for Sugar Man fullt hús, og sagði myndina „vera til, því við þurfum á því að halda að hún sé til.“