Fríar sýningar á skólatíma fyrir grunn- og leikskólabörn
Börn, unglingar og fjölskyldur þeirra munu njóta sannkallaðrar kvikmyndaveislu í Bíó Paradís á Alþjóðlegri barnakvikmyndahátíð í Reykjavík 2013 vikuna 29. maí – 4. júní 2013. Hátíðin mun færa börnum og unglingum á Íslandi aðgang að áhugaverðum barna- og unglingakvikmyndum sem hlotið hafa viðurkenningar um allan heim.
Með kvikmyndahátíð barna 2013 stóreykst kvikmyndaframboð barna og fjölskyldufólks og sjónarhorn þessa áhorfendahóps verður víðara og fjölbreyttara. Þannig má segja að slíkt efni hafi fræðandi og þroskandi áhrif – og mun Kvikmyndahátíð barna 2013 bjóða upp á fríar sýningar á skólatíma fyrir grunnskóla- og leikskólabörn. Hér er hægt að skoða dagskrána: Skráning fer fram á midasala@bioparadis.is
Einnig hafa fjölskyldur tækifæri til að njóta áhugaverðra kvikmynda saman utan skólatíma þar sem yngsta kynslóðin fær að kynnast hugtakinu „kvikmyndahátíð“ og sækja sinn fyrsta kvikmyndaviðburð. Markmið Heimilis kvikmyndanna er að halda kvikmyndahátíð barna árlega og byggja þar upp hefð í menningarlífi barna og fjölskyldufólks. Slíkur viðburður mun vekja áhuga barna á kvikmyndum og kvikmyndamenningu, stuðla að tengslum við líf og umhverfi annarra barna víða um heim og færa börnum fjölbreyttari upplifun á hvíta tjaldinu en þau hafa haft aðgang að hingað til.
Dagskrá hátíðarinnar í heild sinni verður birt á næstu dögum, en sýningar verða á kvöldin og helgina 1. og 2. júní, þar sem fleiri myndir verða sýndar auk þessara sem sýndar eru á skólasýningunum.